Ljósleiðarinn, sem áður hét Gagnaveita Reykjavíkur, segir í skjali sem fyrirtækið hefur sett fram til Alþingis að samkeppnisaðili fyrirtækisins á fjarskiptamarkaði, Míla, muni þurfa að breyta starfsemi sinni talsvert til að ná væntri ávöxtunarkröfu nýrra eigenda sinna, franska fjárfestingarsjóðsins Ardian.
Í glærukynningu sem Ljósleiðarinn, sem er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, fór með fyrir Alþingi segir að Míla komi til með það þurfa að standa undir ávöxtunarkröfunni með því að auka markaðshlutdeild sína enn frekar, hækka verð á þjónustu sinni, skera niður rekstrarkostnað sinn, draga úr fjárfestingum, eða gera þetta allt í senn.
Skjalið sendi Ljósleiðarinn til Alþingis vegna stjórnarfrumvarps um breytingu á lögum um fjarskipti, lögum um Fjarskiptastofu og lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra mælti fyrir 13. desember.
Frumvarpið er sagt lagt fram vegna orðinna og fyrirhugaðra breytinga á eignarhaldi fjarskiptainnviða á Íslandi og felur meðal annars í sér heimildir fyrir ráðherra til þess að stöðva eða afturkalla viðskipti ef þau geti „ógnað öryggi landsins“ eða gengið gegn allsherjarreglu og almannaöryggi.
Ákvarðanir Mílu snerti alla markaði
Í umsögn sem Ljósleiðarinn hefur sömuleiðis sent til Alþingis segir að fjarskiptanet og kerfisleg uppbygging fjarskiptaneta Mílu hafi mikil áhrif á samkeppnismarkaði fjarskipta.
„Fjarskiptastofa hefur skilgreint Mílu sem fjarskiptafyrirtæki í markaðsráðandi stöðu á helstu fjarskiptamörkuðum. Háttsemi og hegðun Mílu á samkeppnismörkuðum snertir bæði samkeppnismál og öryggi fjarskipta. Með öllu er óljóst hvaða áherslur nýir eigendur leggja í starfsemi og rekstri Mílu til næstu ára og áratuga. Sama hverjar þær verða munu þær hafa mikil áhrif á alla fjarskiptamarkaði og þar með einstaklinga, fyrirtæki og opinbera aðila,“ segir í umsögn fyrirtækisins.
Þar eru einnig færð fram rök fyrir því að byggja upp fleiri en eitt grunnnet fjarskipta hér landi, sem séu tæknilega, stjórnunarlega og rekstrarlega aðskilin.
„Með tveimur eða fleiri almennum fjarskiptanetum geta ríkið og opinberar stofnanir tryggt þjónustu með því að hafa aðgang að tveimur eða fleiri aðskildum fjarskiptanetum og þannig minnkað líkur á útfalli og rofi á þjónustu. Þá skapast tækifæri fyrir ríkið til þess að bjóða út þjónustur á grundvelli laga og reglna um opinber innkaup, nýta fjármuni betur og á sama tíma stuðla að aukinni samkeppni,“ segir í umsögn Ljósleiðararans.
Vilja að Fjarskiptastofa fái heimild til að rýna söluna á Mílu
Af hálfu Ljósleiðarans er mikil áhersla lögð á að Fjarskiptastofa fái heimild, sem ekki er að finna í frumvarpinu eins og það lítur út í dag, til þess að meta áhrif viðskiptanna með Mílu á fjarskiptamarkað og „leggja á, viðhalda eða afturkalla kvaðir sem í gildi eru á viðkomandi markaði, eftir því sem Fjarskiptastofa telur tilefni til,“ eins og það er orðað í umsögn Ljósleiðarans.
Fyrirtækið segir að það sé „umhugsunarefni“ að eins og staðan sé í dag hafi Fjarskiptastofa engar lagaheimildir haft til þess að skoða og meta áhrif kaupanna á Mílu á fjarskiptamarkaði á Íslandi, vill að úr því verði bætt og hvetur umhverfis- og samgöngunefnd þingsins, sem fjallar um málið þessa dagana, til þess að gera það.
Í glærusýningu fyrirtækisins er spurt hvort Fjarskiptastofa sé „áhorfandi“ er kemur að mikilvægustu viðskiptunum á íslenskum fjarskiptamarkaði.