Milla Ósk Magnúsdóttir er orðin aðstoðarmaður nýs heilbrigðisráðherra, Willums Þórs Þórssonar, samkvæmt starfsmannaskrá heilbrigðisráðuneytisins.
Hún var ráðin aðstoðarmaður Lilju Alfreðsdóttur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu á síðasta kjörtímabili eftir að hafa verið ráðin þangað fyrir tveimur árum síðan. Áður hafði Milla starfað hjá RÚV í áratug sem fréttamaður, aðstoðarframleiðandi frétta og dagskrárgerðarkona í útvarpi og sjónvarpi.
Hrannar Pétursson, hinn aðstoðarmaður Lilju á síðasta kjörtímabili, hefur horfið til annarra starfa og því er Lilja án opinberra aðstoðarmanna sem stendur.
Breytingar hjá Katrínu
Að minnsta kosti þrír ráðherrar halda báðum sínum aðstoðarmönnum frá síðasta kjörtímabili. Það eru Bjarni Benediktsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og Ásmundur Einar Daðason. Hersir Aron Sigurgeirsson og Páll Ásgeir Guðmundsson eru aðstoðarmenn Bjarna, Ingveldur Sæmundsdóttir og Sigtryggur Magnason aðstoða Sigurð Inga og Sóley Ragnarsdóttir og Arnar Þór Sævarsson eru áfram aðstoðarmenn Ásmundar Einars.
Iðunn Garðarsdóttir mun halda áfram að aðstoða Svandísi Svavarsdóttur í ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarmála en Birgir Jakobsson, fyrrverandi landlæknir sem aðstoðaði hana í heilbrigðisráðuneytinu, er ekki lengur á starfsmannaskrá stjórnarráðsins.
Katrín Jakobsdóttir hefur misst annan aðstoðarmann sinn, Lísu Kristjánsdóttur, á önnur mið en Bergþóra Benediktsdóttir heldur áfram sem hinn aðstoðarmaður forsætisráðherra. Auk þess eru þrír aðrir aðstoðarmenn ríkisstjórnar starfandi í forsætisráðuneytinu samkvæmt starfsmannaskrá: Henný Hinz er aðstoðarmaður ríkisstjórnar á sviði vinnumarkaðs-, efnahags- og loftlagsmála, Lára Björg Björnsdóttir er aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum og Róbert Marshall er upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar.
Guðlaugur Þór og Guðmundur Ingi án aðstoðarmanna
Guðlaugur Þór Þórðarson, ráðherra loftslags-, umhverfis- og orkumála, þarf að finna sér tvo nýja aðstoðarmenn þar sem báðir hans hafa hætt störfum. Diljá Mist Einarsdóttir er orðin þingmaður og Borgar Þór Einarsson var skipaður varaframkvæmdastjóri Uppbyggingasjóðs EES skömmu eftir síðustu kosningar og áður en ráðherrakapallinn var lagður.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nú utanríkisráðherra, missti líka báða aðstoðarmenn sína þegar Hildur Sverrisdóttir var kjörin á þing og Ólafur Teitur Guðnason ákvað að láta gott heita. Hún réð Þórlind Kjartansson í aðra stöðuna í gær.
Eydís Arna Líndal fylgir Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur áfram í vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu en hún þarf að ráða annan aðstoðarmann í stað Hreins Loftssonar, sem varð eftir í dómsmálaráðuneytinu.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson á einnig eftir að manna aðstoðarmannastöður sínar í nýju ráðuneyti en Orri Páll Jóhannsson, sem aðstoðaði hann í umhverfisráðuneytinu á síðasta kjörtímabili, var kjörinn á þing fyrir Vinstri græna í nýliðnum kosningum.
Geta orðið allt að 27 talsins
Lögum um Stjórnarráð Íslands var breytt árið 2011 með þeim hætti að heimild til að fjölga aðstoðarmönnum ráðherra var útvíkkuð þannig að hver og einn þeirra má ráða tvo slíka. Auk þess var sett inn heimild fyrir ríkisstjórnina að ráða þrjá aðstoðarmenn til viðbótar ef þörf krefur. Alls má ríkisstjórnin því ráða 27 aðstoðarmenn sem stendur. Laun og starfskjör aðstoðarmanna ráðherra miðast við kjör skrifstofustjóra í ráðuneytum samkvæmt ákvörðunum kjararáðs.
Rekstur ríkisstjórnar Íslands, sem í felast launagreiðslur ráðherra og aðstoðarmanna þeirra, er áætlaður 714,9 milljónir króna á næsta ári samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi. Það er um fimm prósent meiri kostnaður en áætlun vegna ársins 2021 gerir ráð fyrir, en þá á reksturinn að kosta 681,3 milljónir króna.
Á fyrsta heila ári fyrri ríkisstjórnarinnar Katrínar Jakobsdóttur við völd, árið 2018, var kostnaður vegna launa ráðherra og aðstoðarmanna áætlaður 461 milljónir króna. Kostnaðurinn á næsta ári er því 55 prósent hærri í krónum talið.
Kostnaðurinn á þessu fyrsta starfsári ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks reyndist á endanum hærri, eða 597 milljónir króna. Því hefur kostnaðurinn vegna launa ráðherra og aðstoðarmanna þeirra alls vaxið um 117,9 milljónir króna frá 2018, eða 20 prósent.