Núvirtur ábati af því að láta ferjurnar Herjólf og Sævar ganga fyrir rafmagni að hluta til eða að öllu leyti er um sjö milljarðar króna umfram kostnað samkvæmt útreikningum Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Mat Hagfræðistofnunar nær til árabilsins 2019 til 2040. Herjólfur siglir nú þegar að mestu á rafmagni en stefnt er að því að hanna nýja Hríseyjarferju árið 2024 og gerir Hagfræðistofnun ráð fyrir því í útreikningum sínum að hún muni taka við af núverandi ferju árið 2029. Stefnt er að því að nýja ferjan muni einungis ganga fyrir rafmagni í áætlunarsiglingum milli Hríseyjar og Árskógssands.
Í skýrslu Hagfræðistofnunar er mat lagt á þær aðgerðir sem finna má í aðgerðaáætlun Stjórnvalda í loftslagsmálum. Í aðgerðaáætluninni eru kynntar 48 aðgerðir en í skýrslunni er mat lagt á kostnað og ábata 23 þeirra. Ekki er lagt mat á 25 aðgerðir vegna þess að sumar þeirra eru enn í mótun eða í undirbúningi og áhrif annarra aðgerða sem ekki er lagt mat á eru óljós. Meðal þeirra aðgerða sem mat er lagt á er orkuskipti ferja sem eru hluti af þjóðvegakerfinu.
Líkt og áður segir gengur Herjólfur fyrir rafmagni að stórum hluta og von er á nýrri Hríseyjarferju. Óvíst er hvenær hún kemst á flot en Hagfræðistofnun gerir ráð fyrir að ferjan verði farin að sigla árið 2029, fimm árum eftir að hönnun ferjunnar hefst. Hönnun Herjólfs hófst árið 2014 og hann hóf siglingar fimm árum síðar. „Ekki hefur verið hugað að orkuskiptum í hinum ferjunum þremur, Grímseyjarferjunni Sæfara, Mjóafjarðarferju og Breiðafjarðarferjunni Baldri og því er ekki fjallað um þær hér,“ segir í skýrslunni.
Herjólfur brennir 2.500 lítrum af olíu á viku samanborið við 55 þúsund áður
Herjólfur sem nú siglir milli lands og eyja er tvinnskip og gengur því bæði fyrir rafmagni og olíu. Að jafnaði brennir Herjólfur 2.500 lítrum af olíu á viku á ferðum sínum en ef hann væri einungis knúinn með olíu myndi hann brenna 35 þúsund lítrum á viku. Til samanburðar brenndi gamli Herjólfur 55 þúsund lítrum af olíu á viku. Nýi Herjólfur losar því ríflega 4.500 færri koltvísýringsígildistonnum á ári heldur en sá gamli. Ábatinn af minni losun koltvísýrings nemur 18-70 milljónum króna á ári frá 2019 til 2030 miðað við núverandi verð og spá um verð á markaði Evrópusambandsins með losunarheimildir.
Við þetta bætist sparnaður við rekstur enda er rafmagnið mun ódýrara en olían. „. Ef Herjólfur gengi einungis fyrir olíu mundi það kosta 248 milljónir fyrsta árið og síðan þeim mun meira eftir því sem olíuverð hækkar. Þar sparast allt frá rúmum 240 milljónum króna á ári upp í tæpar 400 milljónir miðað við áætlaða olíunotkun og verðhækkun á olíu. Rafmagnið kostar hins vegar um 33 milljónir á ári miðað við 7,8 krónur á kWh og 4.200.000 kWh á ári.“
Þannig er núvirtur ábati af því láta Herjólf ganga fyrir rafmagni 3,7 milljarðar umfram kostnað en gert er ráð fyrir að skipið endist í 20 ár.
Rafvæðing geti styrkt byggðir
Núvirtur ábati af nýjum Sævari er metinn 3,1 milljarður samkvæmt útreikningum Hagfræðistofnunar. Sömu forsendur liggja að baki um verð á rafmagni, olíu og losunarheimildum. Munur er á siglingaáætlun skipanna og er Herjólfur að meðaltali 22 prósentum lengur í siglingum á degi hverjum. Sævar mun aftur á móti einungis vera knúinn rafmagni ólíkt Herjólfi.
Við rafvæðingu þessara ferja sparast 8.500 tonn á ári af koltvísýringsígildum þegar nýr Sævar verður kominn á flot. Þangað til sparast 4.500 tonn á hverju ári. „Í heildina sparast um 175 þúsund tonn á árunum 2020 til 2049. Ábati umfram kostnað er um 30 þúsund krónur á hvert tonn af koltvísýringsígildum sem sparast og er það áður en áhrif af losun kolefnis eru metin til fjár,“ segir í skýrslunni.
Við mat á félagslegum áhrifum aðgerða í loftslagsmálum segir að orkuskipti ferja geti styrkt þær byggðir þar sem ferjusiglinganna nýtur við. „Ódýrara virðist vera að knýja ferjur með rafmagni en olíu. Ef minni rekstrarkostnaður skilar sér í lægra fargjaldi njóta íbúar í grennd við ferjurnar þess mest. Straumur ferðamanna gæti líka aukist og byggðin styrkst við það.“