Franska skopmyndablaðið Charlie Hebdo kemur út í næstu viku þrátt fyrir hryðjuverkaárásina sem framin var þar í gær. Blaðið verður gefið út í milljón eintökum í stað 60 þúsund eins og venja er. Lögmaður blaðsins staðfesti þetta í dag.
Umfangsmikil leit stendur enn yfir að bræðrunum Cherif og Said Kouachi, sem eru grunaðir um árásina. Óstaðfestar fregnir herma að búið sé að finna bíl sem þeir hafa notað síðan í gær.
Bræðurnir tveir eru sagðir hafa rænt bensínstöð í nágrenni Villers-Cotterets í Aisne-héraði fyrr í dag, áður en keyrðu burt í átt til Parísar. Villers-Cotterets er um 70 kílómetrum frá höfuðborginni.
Þeir stálu mat og bensíni og hleyptu af skotum úr Kalashnikov rifflum að sögn starfsfólks á bensínstöðinni. Þá voru þeir með grímur og búnir að hylja númerin á bílnum, gráum Renault Clio sem þeir eru taldir hafa rænt í París skömmu eftir árásina.
Borgarstjóri Parísar, Anne Hidalgo, hefur tilkynnt að slökkt verði á öllum ljósum Eiffel-turnsins klukkan átta í kvöld. Þá hefur verið boðað til annars samstöðufundar á Lýðveldistorginu, Place de la Republique, klukkan sex í kvöld, en fjöldi fólks kom þar saman í gær.
Tæplega fjögur hundruð manns hafa boðað komu sína á samstöðufund við franska sendiráðið á Íslandi klukkan sex í dag.
Franska lögreglan segir að bræðurnir Said Kouachi og Cherif Kouachi hafi framið ódæðisverkin í og við höfuðstöðvar skopmyndablaðsins Charlie Hebdo í gærmorgun.Tólf létust, þar á meðal ritstjóri blaðsins og þekktustu skopmyndateiknarar þess.
Óttast fleiri árásir
Að sögn forsætisráðherra Frakklands, Manuel Valls, er hætta á fleiri hryðjuverkaárásum megináhyggjuefni stjórnvalda. Fylgst er með öllum meginvegum sem liggja að höfuðborginni auk þess sem öryggisgæsla hefur verið hert til muna víða, meðal annars í almenningsrýmum og við skrifstofur fjölmiðla.
Fréttaritari BBC í París segir að lögreglan óttist nú að mennirnir muni snúa aftur til Parísar og ætli að deyja í annarri árás. Jafnframt segir BBC að ekki sé útilokað að þeir eigi sér samverkamenn, en hafi aðeins verið tveir að verki í árásinni í gær. Þá er einnig talinn möguleiki á hermiárásum.
Lögreglukona var skotin til bana og karl liggur þungt haldinn eftir skotárás í suðurhluta Parísar í morgun, en ekki er vitað hvort tengsl voru á milli árásanna tveggja.
Ritstjóri Charlie Hebdo, Stephane Charbonnier, var meðal þeirra sem voru myrtir. Hann hafði fengið morðhótanir og verið undir lögregluvernd undanfarið. Annar þeirra tveggja lögreglumanna sem voru myrtir í árásinni var lífvörður hans.
Ritstjóri Charlie Hebdo, Stephane Charbonnier, var meðal þeirra sem voru myrtir. Hann hafði fengið morðhótanir og verið undir lögregluvernd undanfarið. Annar þeirra tveggja lögreglumanna sem voru myrtir í árásinni var lífvörður hans.
Í kjölfar árásarinnar í gær hafa hefndarárásir gegn múslimum átt sér stað, án þess þó að fólk hafi særst. Tveimur skotum var hleypt af í bænaherbergi í bænum Port-la-Nouvelle á miðvikudagskvöld. Skotið var á fjölskyldu í bíl sínum í Caromb og gervihandsprengjum var kastað að mosku í Le Mans. Þá voru skemmdarverk unnin á mosku í Poitiers.