Búist er við því að útgjöld ríkissjóðs á vinnumarkaði og í atvinnuleysisbætur dragist saman um rúman þriðjung í ár, þrátt fyrir að meira atvinnuleysi sé spáð heldur en í fyrra. Einnig er gert ráð fyrir samdrætti í málaflokknum árin 2022 og 2023, en talið er við að hann verði um 100 milljörðum krónum minni árið 2023 en hann var í fyrra. Þetta kemur fram í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2021-2024
Mikil aukning frá 2017
Samkvæmt áætluninni hefur mikil aukning átt sér stað í útgjöldum hins opinbera í félags- húsnæðis- og tryggingarmálum frá árinu 2017, meðal annars vegna hækkun frítekjumarks atvinnutekna aldraðra, lengingu fæðingarorlofs, aukinna stofnframlaga til byggingar leiguhúsnæðis fyrir tekjulága, auk nýsamþykktra laga um hlutdeildarlán.
Einnig skrifar ríkisstjórnin að framlög til málefna aldraðra og öryrkja hafi aukist um 27 milljarða króna á tímabilinu, meðal annars vegna hækkunar á bótum almannatrygginga, fjölgunar á lífeyrisþegum og breytinga sem hafa falist í að draga úr krónu á móti krónu skerðingum.
Samdráttur næstu árin
Samkvæmt fjármálaáætluninni fyrir næstu fjögur árin er hins vegar búist við 11 prósenta samdrætti í málaflokknum í ár, úr 373 milljörðum króna í 333 milljarða króna. Þyngst vega þar útgjöld hins opinbera á vinnumarkaðinn og í atvinnuleysisbætur, en gert er ráð fyrir að sá liður minnki um tæpa 53 milljarða króna í ár, úr 148 milljörðum í 95 milljarða.
Samkvæmt nýjustu þjóðhagsspá Hagstofu er þó búist við að ársmeðaltal atvinnuleysis verði meira í ár heldur en í fyrra. Í ár er gert ráð fyrir að atvinnuleysið nái 7,8 prósentum, en að meðaltali náði það 6,4 prósentum.
Á næstu árum er svo búist við að útgjöld hins opinbera á vinnumarkaðnum dragist enn frekar saman, en samkvæmt fjármálaáætluninni munu þau minnka um rúman þriðjung árið 2022. Árið 2023 er svo gert ráð fyrir enn frekari samdrætti í málaflokknum, en þar er búist við útgjöldin nemi um 50 milljarða króna, sem er tæpur þriðjungur af útgjöldunum árið 2020.
23 milljarðar í hlutabætur
Ríkisstjórnin hefur ráðist í fjölda aðgerða á vinnumarkaði til að sporna gegn áhrifum yfirstandandi kreppu. Einna stærst er hin svokallaða hlutabótaleið, sem vinnuveitendur geta að öllu óbreyttu sótt um til 31. maí í ár. Á síðasta ári voru 23,5 milljarðar króna greiddir út í hlutabætur, en gert var ráð fyrir að þær myndu nema 34 milljörðum króna.