Í fyrstu mælingu Gallup eftir að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, sem samanstendur af Vinstri grænum, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, var mynduð síðla árs 2017 mældist stuðningur við ríkisstjórnina 74,1 prósent. Hann dalaði svo hægt og rólega með hverri könnuninni og var kominn undir 50 prósent í júlí 2018.
Í nýafstöðnum kosningum hélt ríkisstjórnin samt sem áður velli og bætti við sig þingmönnum. Vinstri græn töpuðu fylgi og fengu þremur þingmönnum færri en flokkurinn fékk 2017, þótt eiginlega hafi þau einungis tapað einum þingmanni frá því sem var við lok síðasta kjörtímabils þar sem tveir höfðu þegar yfirgefið þingflokkinn vegna andstöðu við ríkisstjórnarsamstarfið. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði smávægilegu fylgi en hélt sínum þingmannafjöldi, og bætti svo við sig einum nýjum eftir kosningar þegar Birgir Þórarinsson flutti sig þangað úr Miðflokknum. Framsóknarflokkurinn var eini stjórnarflokkurinn sem bætti við sig fylgi og þingmönnum hans fjölgaði um fimm.
Stjórnarsáttmáli mögulega kynntur í næstu viku
Horfa ber þó til þess að enn á eftir að kynna stjórnarsáttmála stjórnarinnar. Í vikunni staðfestu formenn allra stjórnarflokkanna að vinna við gerð hans væri langt kominn og að stefnt væri að því að mynda nýja ríkisstjórn í næstu viku.
Forsætisráðherra staðfesti þetta í samtali við Kjarnann en hún sagði þó að óvissa með talningu í Norðvesturkjördæmi hefði sett svip sinn á viðræðurnar.
Hún nefndi enn fremur að þetta væru þrír ólíkir flokkar og auðvitað ekki með sömu stefnuskrá. „Það er krefjandi verkefni að búa til stjórnarsáttmála þó að við séum búin að vinna lengi saman. Svo þekkjumst við náttúrulega miklu betur en fyrir fjórum árum. Við vitum hvar pyttirnir eru.“
Búist er við breytingu á verkefnum ráðuneyta og jafnvel þeim möguleika að ráðuneytum verði fjölgað. Þá hafa, samkvæmt heimildum Kjarnans, verið ræddir ýmsir möguleikar um það hvernig ráðherrastólum verði skipt milli stjórnarflokkanna.
Litlar breytingar á fylgi flokka
Könnun Gallup, sem gerð var 4. til 31. október og var með heildarúrtaksstærð upp á 8.899 og þátttökuhlutfall var 50,6 prósent, sýndi ekki miklar breytingar á sameiginlegu fylgi stjórnarflokkanna þriggja. Alls segjast 53,4 prósent kjósenda að þeir myndu kjósa þá í dag en flokkarnir fengu samanlagt 54,3 prósent atkvæða í kosningunum í lok september.
Sú breyting verður á fylgi þeirra að Vinstri græn bæta lítillega við sig en Sjálfstæðisflokkur tapar fylgi. Breytingarnar eru þó það litlar að þær eru nánast innan skekkjumarka. Framsóknarflokkurinn stendur í stað.
Hjá stjórnarandstöðuflokkunum eru einu markverðu breytingarnar frá síðustu kosningum þær að Píratar bæta við sig fylgi en Miðflokkur og Flokkur fólksins dala lítillega.
Þó ber að hafa það í huga að Píratar hafa haft tilhneigingu til að mælast með meira fylgi í könnunum en þeir fá í kosningum og að Sjálfstæðisflokkurinn fær oft meira upp úr kjörkössunum en kannanir benda til. Ástæðuna má rekja til þess að væntanlegir kjósendur Sjálfstæðisflokks skila sér betur á kjörstað en þeir sem segjast ætla að kjósa Pírata í könnunum.