Ríkisstjórnin segir að auka þurfi framboð íbúða til að mæta uppsafnaðri og fyrirsjáanlegri þörf á húsnæðismarkaði. Þrátt fyrir það munu opinber framlög til húsnæðis- og skipulagsmála, sem veitt eru til að tryggja framboð íbúða fyrir viðkvæma hópa, dragast saman um átta prósent að raunvirði á næsta ári. Þetta kemur fram í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem kom út á þriðjudaginn.
Vilja tryggja öruggt framboð
Samkvæmt áætluninni gegnir húsnæðisstuðningur hins opinbera mikilvægu hlutverki í að tryggja framboð íbúða hvort sem er til eignar eða leigu fyrir viðkvæma hópa á húsnæðismarkaði. Viðvarandi skortur á húsnæði leiði til óstöðugleika í efnahagsstjórn og verðhækkana, en það hafi neikvæð áhrif á fjárhag heimilanna.
Stjórnvöld segja það vera mikilvægt að bæta aðstæður á húsnæðismarkaði, en til þess hafi verið skipaður starfshópur, sem á meðal annars að fjalla um leiðir til að auka framboð á húsnæði. Á meðal aðgerða sem koma til skoðunar eru stofnframlög til óhagnaðardrifinna húsnæðisfélaga, en einnig stuðningur til félagslegra eignar- og kaupleiguíbúða.
Dregið úr stuðningi
Fyrir tveimur árum síðan námu heildarútgjöld í húsnæðis- og skipulagsmál 15,8 milljörðum á núverandi verðlagi. Á mynd hér að neðan er stuðningur síðustu ára borinn saman við væntan stuðning á næstu árum, miðað við útgjaldarammann í fjármálaáætluninni, en líkt og sést á henni henni nemur hann 16,3 milljörðum króna í ár.
Á næstu árum verða svo fjárheimildirnar til nefndarsviðsins tæplega 15 milljarðar króna að raunvirði, en það er samdráttur sem jafngildir rúmum átta prósentum frá útgjöldum þessa árs.
Vonar að áætluninni verði kastað út í hafsauga
Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar vakti athygli á minnkandi stuðningi ríkisstjórnarinnar til húsnæðismála á Alþingi á þriðjudaginn, en þar sagði hann að ríkisstjórnin ætlaði að lækka stofnframlög til almenna íbúðakerfisins um tvo milljarða króna. Með því væri hún að framkalla samdrátt í framboði af félagslegu húsnæði með handafli.
Samkvæmt Jóhanni er þessi samdráttur „algjörlega úr takti við það sem hefur lagt hér upp með og það sem var talað um í kosningabaráttunni í haust,“ líkt og mbl.is greinir frá. „Ég vona að þessari fjármálaáætlun verði nú bara kastað eitthvert út í hafsauga og ný lögð fram,“ sagði hann einnig.