Á síðustu árum hafa einkafyrirtæki í stórauknum mæli annast þjónustu við aldraða í Danmörku sem áður var eingöngu á könnu sveitarfélaganna. Tilgangurinn var að ná fram hagkvæmni og samkeppni. Þetta nýja fyrirkomulag hefur reynst misjafnlega og fyrirhugaður sparnaður iðulega haft í för með sér aukinn kostnað.
Fyrir þremur árum setti danska ríkisstjórnin á laggirnar nefnd sem ætlað var að gera tillögur um bættan rekstur hins opinbera á fjölmörgum sviðum og skoða sérstaklega þá þætti sem æskilegt og hagkvæmt væri að færa frá ríki og sveitarfélögum til einkafyrirtækja. Tilgangurinn var að auka framleiðni og hagkvæmni en rannsóknir sýndu að Danir höfðu dregist aftur úr nágannaþjóðunum og dregið hafði úr samkeppnishæfni. Nefndin sem fékk nafnið Produktivitetskommission var skipuð níu sérfræðingum úr ýmsum áttum. Henni var ætlað að vinna hratt og fyrst og fremst að koma með tillögur eða ábendingar en ekki útfærslur. Meðal þess sem nefndin lagði til var að einkafyrirtækjum yrði gefinn kostur á að annast ýmis konar þjónustu við aldraða, ekki síst heimaþjónustu sem hefur aukist mjög á undanförnum árum, með tilheyrandi kostnaði. Þessi aukna þjónusta helst í hendur við sístækkandi hóp aldraðra. Í Danmörku hefur á undanförnum árum farið fram mikil umræða um þessi mál.
Margir vildu taka að sér þjónustuna
Árið 2013 var einkafyrirtækjum gert kleift að taka að sér heimaþjónustuna, eftir útboð. Fjölmörg fyrirtæki, stór og smá, sýndu þessari starfsemi áhuga. Sum urðu til í tengslum við útboðin, önnur höfðu sinnt skyldum verkefnum. Mörg sveitarfélög gengu til samninga við einkafyrirtæki um heimaþjónustuna. Í flestum tilvikum var gengið til samninga við fyrirtæki sem best höfðu boðið, það er lægsta verðið, enda var yfirlýstur tilgangur útboðanna sparnaður og hagkvæmni.
Ánægja og efasemdir
Margir stjórnmálamenn lýstu mikilli ánægju með að hægt væri að nýta betur takmarkaða fjármuni, meðal annars þáverandi þingflokksformaður Venstre og núverandi utanríkisráðherra, Kristian Jensen.
Ekki voru allir jafn ánægðir og meðal annars lýsti Einingarlistinn sig algjörlega mótfallinn útboðsleiðinni. Talsmaður flokksins, Johanne Schmidt-Nielsen, sagði í viðtölum að rétt væri að stíga varlega til jarðar, alltof margir væru með gróðaglýju í augum. Hún benti að á Svíar hefðu slæma reynslu af einkarekstri í þjónustu við eldri borgara, mörg fyrirtæki hefðu komist í þrot en eigendurnir áður verið búnir að koma miklu fé undan. Útkoman einfaldlega lakari þjónusta, aukinn kostnaður og óvissa.
Erfiður rekstur og mörg fyrirtæki í þrot
Ekki voru liðnir margir mánuðir frá því að einkafyrirtækin tóku að sinna heimaþjónustunni þangað til í ljós kom að hjá mörgum þeirra gekk ekki allt sem skyldi. Mörg stóðu á afar veikum fjárhagslegum grunni og höfðu algjörlega vanmetið kostnaðinn sem starfseminni fylgdi, óveðursskýin hrönnuðust upp eins og það er orðað. Strax árið 2013 (sama árið og einkareksturinn hófst) urðu nokkur fyrirtæki gjaldþrota og nú hafa tæplega tuttugu fyrirtæki sem sinnt hafa einkaþjónustunni komist í þrot og mörg önnur standa tæpt.
Sveitarfélögin sitja uppi með vandann
Á undanförnum vikum hafa þrjú tiltölulega stór fyrirtæki sem sinna heimaþjónustu orðið gjaldþrota. Þetta hefur beint athygli fjölmiðla að rekstrinum og Sophie Löhde heilbrigðisráðherra, sem jafnframt fer með málefni aldraðra, hefur sagt í viðtölum að þessi mál séu afar snúin og vandmeðfarin. „Mér virðist augljóst að mörg sveitarfélög hafi ekki vandað valið á fyrirtækjunum nægilega vel og ekki gengið úr skugga um hvort þau hefðu burði til að sinna þjónustunni“ sagði ráðherrann í viðtali við Danska sjónvarpið.
Ekki búið að reikna út hagkvæmnina
Komið hefur í ljós að þegar sveitarfélögunum var heimilað að bjóða út heimaþjónustuna var ekki búið að reikna út hvort útboðsleiðin væri í raun hagkvæmari. Þeir sem gagnrýndu útboðin héldu því fram að sveitarfélögin væru best til fallin að annast þjónustuna og ekki væri mögulegt að gera hlutina með ódýrari hætti. Nú er komið í ljós að gagnrýnendur höfðu ýmislegt til síns máls. Þótt einkafyrirtæki byðu þjónustuna fyrir, í mörgum tilvikum, lítið lægri upphæð en sveitarfélögin hafa gjaldþrotin orðið til þess að kostnaðurinn verður nú mun hærri en áður. Ástæðurnar eru þær að sveitarfélögin hafa orðið að grípa til alls kyns skyndilausna til að bjarga málum þegar allt hefur verið komið í óefni.
Tillögur
Eins og áður sagði standa mörg fyrirtæki sem sinna einkaþjónustu við aldraða tæpt og heilbrigðisráðherrann hefur sagt að þeim fyrirtækjum muni líklega fjölga á næstu mánuðum. Nauðsynlegt sé að móta stefnu um hvernig skuli bregðast við. Fyrst og fremst vegna fólksins. Þeir sem komnir eru á efri ár setji öryggi og festu framar öllu öðru. Það eigi samfélagið að tryggja. Til að svo megi verða hefur embætti ríkislögmanns (kammeradvokaten, einkafyrirtæki sem vinnur fyrir ríkið) samið leiðbeiningar og ráðleggingar um hvernig staðið skuli að útboðum, hvaða atriða þurfi að líta til við slík útboð til að reyna að tryggja að ekkert fari úrskeiðis. Leiðbeiningarnar eru ítarlegar (36 blaðsíður) en hvort þær muni duga er of snemmt að segja til um. Hinu má slá föstu: öldruðum Dönum fjölgar ört. Það er reyndar sama sagan í mörgum öðrum Evrópuríkjum. Fyrrverandi ráðherra í Danmörku sagði um þetta mál að ekki sværi seinna vænna að leita lausna, fjölgun aldraðra væri ein mesta áskorun sem landið hefði staðið frammi fyrir. Eins og mörg önnur lönd. Undir þetta geta eflaust margir tekið.