Allur gangur er á því er hvort lífeyrissjóðir landsins, sem lána einstaklingum fyrir húsnæðiskaupum, séu byrjaðir að horfa til fasteignamats ársins 2023 við vinnslu fasteignalána. Kjarninn sendi út fyrirspurnir á flesta lífeyrissjóði sem lána fyrir húsnæðiskaupum og spurði hvort sjóðurinn væri byrjaður að horfa til nýja fasteignamatsins við vinnslu fasteignalána og endurfjármagnanir. Svör bárust frá sjö sjóðum.
Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LV), Brú og Lífsverk eru allir nú þegar byrjaðir til að horfa til fasteignamats ársins 2023 við lánavinnslu sína. Í svari frá LV segir að þetta hafi verið gert síðustu ár.
„Þetta hefur stundum verið rætt og niðurstaðan ávallt verið sú að gera það frá því að það er birt þar sem fasteignamat næsta árs endurspeglar alltaf raunvirði fasteigna,“ segir í svari sjóðsins til Kjarnans.
Í svörum frá Brú og Lífsverki var vísað til tilkynninga á vefjum sjóðanna um að sjóðirnir horfi til nýja fasteignamatsins við lánveitingar.
En ekki allir sjóðirnir fara eins að. Í svari frá Birtu lífeyrissjóði segir að horft sé til þess að byrja að horfa til nýs fasteignamats 1. desember næstkomandi.
„Birta hefur undanfarin ár byrjað að styðjast við fasteignamat næsta árs 1. desember ár hvert. Sjóðurinn styðst við fasteignamat í endurfjármögnunarmálum og við kaupverð í fasteignaviðskiptum, með ákveðnum hliðarskilyrðum varðandi lóða- og brunabótamat. Ég geri ráð að viðmiðunardagsetningin í ár verði líka 1. desember, en þá hefur kærufrestur vegna nýs fasteignamats runnið út,“ segir Sigurbjörn Einarsson lánastjóri sjóðsins í skriflegu svari til Kjarnans.
Bæði LSR og Festa lífeyrissjóður segjast svo lána samkvæmt gildandi fasteignamati hverju sinni og að þeir byrji þess vegna ekki að miða við fasteignamat 2023 fyrr en þann 1. janúar 2023. Gildi-lífeyrissjóður segir að eins og staðan sé í dag muni sjóðurinn „ekki miða við fasteignamat 2023 fyrr en í byrjun árs 2023.“
Bankarnir þrír ekki allir á sömu línu
Eins og Kjarninn sagði frá á fimmtudaginn eru það ekki bara lífeyrissjóðirnir sem mæta breyttu fasteignamati með mismunandi hætti, heldur líka stóru viðskiptabankarnir þrír.
Þar sker Íslandsbanki sig frá hinum tveimur, Landsbankans og Arion banka, með því að vera eini bankinn sem ætlar ekki nú þegar að horfa til fasteignamats ársins 2023 við lánavinnslu sína, heldur bíða til gildistöku nýja fasteignamatsins.
Nýja fasteignamatið er hartnær 20 prósentum hærra en núgildandi fasteignamat að meðaltali, eftir miklar hækkunar húsnæðisverðs um land allt undanfarin misseri.
Einhverjir lántakar gætu nú horft til þess að nýta hið aukna veðrými sem myndast við hækkun fasteignamats til þess að endurfjármagna lán sín, en viðskiptavinir Íslandsbanka þurfa öfugt við viðskiptavini Arion banka og Landsbankans að bíða með það fram yfir næstu áramót.
Fréttin var uppfærð með svari frá Gildi-lífeyrissjóði, sem barst eftir að fréttin fór fyrst í loftið.