Samtök atvinnulífsins (SA) og Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) segja að úrlausn skuldavanda lítilla og meðalstórra fyrirtækja í ferðaþjónustu sé lykilmál sem verði að taka á. Skuldavandinn muni að öðrum kosti stórhamla uppbyggingu næsta ára.
Fjárhagsstaða margra fyrirtækja í ferðaþjónustu sé afar þröng eftir kórónuveirufaraldurinn þrátt fyrir margvísleg úrræði yfirvalda.
Sum þeirra hafi verið tekjulaus í rúmt ár og safnað skuldum á meðan. „Mörg fyrirtæki eru því stórlöskuð; horfur eru óljósar, skuldir hafa hlaðist upp og erfitt er að ráða starfsfólk með reynslu. Viðskiptasambönd hafa flosnað upp með brotthvarfi reynslufólks bæði hérlendis og hjá viðskiptafyrirtækjum erlendis. Það mun taka töluverðan tíma að byggja netið upp á ný.“
Þetta kemur fram í minnisblaði sem SA og SAF hafa skilað sameiginlega til fjárlaganefndar Alþingis vegna fyrirliggjandi frumvarps til fjáraukalaga.
Svipaðar áhyggjur voru viðraðar á fundi fjármálastöðuleikanefndar Seðlabanka Íslands á fundi hennar um miðjan apríl, en fundargerð þess fundar var birt í upphafi viku.
Þar sagði að ferðaþjónustan og tengdar greinar hafi verið að mestu tekjulausar í yfir 12 mánuði. „Að mati nefndarinnar er mikilvægt að greiðsluvandi fyrirtækja í ferðaþjónustu og tengdum greinum breytist ekki í skuldavanda þegar frystingum líkur. Endurskipulagning útlána kann að vera nauðsynleg í einhverjum tilvikum til að viðspyrnan geti orðið kröftug þegar farsóttinni líkur. Að mati nefndarinnar er útlánaáhætta í bókum bankanna vegna greiðsluerfiðleika í kjölfar farsóttarinnar stærsta einstaka áhættan í efnahagsreikningum bankanna.“
Mikill skuldavandi fyrir COVID-19
Skuldavanda ferðaþjónustunnar má þó ekki einungis rekja til áhrifa kórónuveirufaraldursins. Í skýrslu KPMG um stöðu ferðaþjónustunnar sem unnin var fyrir Ferðamálastofu, og birt var í apríl í fyrra, kom fram að skuldir ferðaþjónustu hefðu aukist um 83 prósent frá árslokum 2015 til ársloka 2019. Á sama tíma jukust tekjur greinarinnar um þrjú prósent.
Þær leiðir sem eru til staðar fyrir kröfuhafa ferðaþjónustufyrirækja, sem eru aðallega íslenskir bankar, til að taka á skuldavanda þeirra eru nokkrar. Bankarnir geta afskrifað hluta skulda án þess að það hafi áhrif á eignarhald fyrirtækjanna. Þeir geta líka breytt hluta krafna sinna í hlutafé í fyrirtækjunum eða einfaldlega tekið þau yfir og selt til annarra eigenda eftir tiltekt.
Vilja að ríkissjóður borgi fyrir frekari markaðssetningu
Í minnisblaði hagsmunavarða atvinnulífsins, sem Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, og Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF, skrifa undir, kalla samtökin eftir því að horft verði til þriggja meginatriða í ferðaþjónustu á næstu mánuðum.
Í fyrsta lagi vilja þau að rekstrarumhverfi fyrirtækja verði einfaldað, að kostnaður við rekstur þeirra verði minnkaður. „Ýmis atriði í rekstrarumhverfinu væri hægt að lagfæra til að ýta undir skilvirkari endurráðningaferil sem leitt getur til heilbrigðari vinnumarkaðar og hraðari efnahagslegrar viðspyrnu.“
Í öðru lagi sé úrlausn skuldavanda lítilla og meðalstórra fyrirtækja í ferðaþjónustu lykilmál sem verði að taka á. Skuldavandinn mun að öðrum kosti stórhamla uppbyggingu til næstu ára. „Þetta er vandi sem hverfur ekki af sjálfu sér og vinnur beint gegn markmiðum um hraða viðspyrnu og virkari vinnumarkað.“
Í þriðja lagi segja hagsmunaverðirnir að stjórnvöld þurfi að horfa til þess hvernig hægt sé að skapa aukin verðmæti úr ferðaþjónustu, ekki endilega með meiri fjölda ferðamanna, með betri og vel fjármagnaðri markaðssetningu. „Hér skiptir sköpum að búið sé að ákvarða með skýrum hætti hvernig markaðssetningu verður háttað inn í næsta haust og vetur þegar fjármagn í átaksverkefninu Saman í sókn klárast í lok ágúst. Ef ekkert er að gert mun markaðssetning Íslands taka skarpa dýfu niður á við einmitt á þeim tíma sem við þörfnumst þess mest inn í veturinn að nýta þá möguleika sem eru í vetrarferðum eftir COVID tímabilið. Alþjóðleg samkeppni um ferðamenn verður hörð. Skýr sýn hvað þetta varðar hefur áhrif á getu fyrirtækja til að halda starfsfólki í vinnu yfir veturinn í stað þess að ráða tímabundið yfir sumartímann og skera svo aftur niður yfir veturinn með tilheyrandi kostnaði fyrir atvinnuleysistryggingakerfið.“