Miðstjórn ASÍ mótmælir áformum stjórnvalda sem ganga út á að velta kostnaði við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í sjávarútvegi á ríkissjóð „og þar með almenning á Íslandi.“ Í ályktun frá miðstjórninni er vísað í skýrslu starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra um græn skref í sjávarútvegi sem kom út þann 10. júní þar sem finna má tillögur að leiðum til að draga úr losun frá sjávarútvegi.
„Tillögurnar fela einkum í sér beitingu hagrænna hvata, í formi skattalegra ívilnana, styrkja og fjárfestingar, til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í sjávarútvegi,“ segir í ályktun ASÍ. Á sama tíma leggist aukinn kostnaður á almenning í baráttunni við loftslagsvána: „Á sama tíma og stjórnvöld áforma að beita fjárhagslegum hvötum til að auðvelda sjávarútveginum að draga úr losun felast aðgerðir stjórnvalda gagnvart almenningi einkum í íþyngjandi aðgerðum svo sem álögum í formi kolefnisgjalds.“
Miðstjórnin leggur áherslu að „hugmyndafræði réttlátra umskipta sé höfð að leiðarljósi við útfærslu og framkvæmd aðgerða í loftslagsmálum,“ eins og það er orðað í ályktuninni. Þar segir að réttlát umskipti feli í sér „að aðgerðir í loftslagsmálum byggi á réttlæti og stuðli að jöfnuði og að þeim tækifærum og byrðum sem umskiptin fela í sér, sé skipt með sanngjörnum hætti.“
Útgerðin hafi bolmagn til að standa straum af kostnaði
Að mati miðstjórnar eru sjávarútvegsfyrirtækin vel í stakk búin til þess að standa straum af kostnaði sem fylgir því að fjárfesta í grænum lausnum og minnka eldsneytisnotkun, sjávarútvegurinn skili gríðarlegum hagnaði á hverju ári á sama tíma og greinin njóti ávinnings af lágum veiðigjöldum. Miðstjórnin bendir einnig á að það sé hagsmunamál fyrir sjávarútveginn að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Súrnun sjávar sé hraðari í nágrenni Íslands en víðast hvar annars staðar og því líklegt að áhrif súrnunar komi fyrr fram hér á landi en að jafnaði í heimshöfunum.
„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands styður markmið stjórnvalda um samdrátt í útlosun gróðurhúsalofttegunda en mótmælir því að enn á ný séu uppi áform um að tryggja sjávarútveginum sérkjör á kostnað almennings í landinu. Til að sátt ríki um aðgerðir í loftslagsmálum verða þær að vera réttlátar og stuðla að jöfnuði og velferð. Hið sama á við um nýtingu á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar og þann hagnað sem hún skapar,“ segir í niðurlagi ályktunarinnar.
Losun frá skipum og höfnum 596 þúsund tonn árið 2018
Orkuskipti í sjávarútvegi er ein af þeim aðgerðum sem finna má í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Þar segir að langstærstur hluti losunar gróðurhúsalofttegunda frá skipum og höfnum sé frá fiskiskipum sem brenna jarðefnaeldsneyti. Losun frá skipum og höfnum var 769 þúsund tonn árið 2005 en hún var komin niður í 596 þúsund tonn árið 2018.
Í áðurnefndri skýrslu um græn skref í sjávarútvegi er lagt til markmið um að losun gróðurhúsalofttegunda vegna fiskiskipa sem kaupa eldsneyti verði árið 2030 orðin helmingur af því sem hún var árið 2005. Til þess að ná því markmiði eru lagðar fram nokkrar tillögur, til að mynda skattalega hvata sem geta stuðlað að auknum fjárfestingum í umhverfisvænni lausnum. Önnur tillaga snýr að endurbættu styrkjakerfi sem styðji við nýsköpun, orkustýringu og orkuskipti á hafi.