Stjórnir MP banka hf. og Virðingar hf. hafa ákveðið að taka upp formlegar viðræður um sameiningu félaganna. Þetta kemur fram í sameiginlegri fréttatilkynningu frá félögunum. „Með sameiningu MP banka og Virðingar yrði til öflugt fjármálafyrirtæki sem væri leiðandi á fjárfestingabankamarkaði og einn stærsti aðili í eignastýringu á Íslandi. Ekki er hægt að segja til um hve langan tíma viðræður munu taka, en allt kapp verður lagt á að hraða þeim eins og hægt er,“ segir í tilkynningunni.
Eins og greint hefur verið frá í Kjarnanum síðustu tvær vikur hafa hluthafar Virðingar og MP banka átt í óformlegum viðræðum um sameiningu í sumar, auk þess sem horft hefur verið til sameiningar við önnur fyrirtæki á fjármálamarkaði, meðal annars Íslensk verðbréf.
Virðing er alhliða verðbréfafyrirtæki sem veitir fjárfestingatengda þjónustu á sviði eignastýringar, markaðsviðskipta, fyrirtækjaráðgjafar og reksturs framtakssjóða, að því er segir í tilkynningu. Virðing hefur starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki og starfar undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins.
MP banki hf. á rætur sínar að rekja til ársins 1999 og starfa um 70 starfsmenn hjá bankanum. MP banki sérhæfir sig í að veita alhliða þjónustu á sviði eignastýringar og fjárfestingarbankastarfsemi ásamt því að veita íslenskum fjárfestum, sparifjáreigendum og atvinnulífi sérhæfða bankaþjónustu, að því er segir í tilkynningu. Afkomueiningar MP banka eru eignastýring, banki og markaðir.
Formaður stjórnar MP banka er Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og sendiherra, en formaður stjórnar Virðingar er Kristín Pétursdóttir. Hún er jafnframt stærsti hluthafi Virðingar.