Magnús Júlíusson, aðstoðarmaður Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sækist eftir stjórnarsetu í Festi en tilnefningarnefnd fyrirtækisins hefur tilnefnt níu í stjórn félagsins fyrir komandi hluthafafund þann 14. júlí næstkomandi og er Magnús á meðal þeirra.
Hann tók nýlega sæti í stjórn Rio Tinto á Íslandi sem fulltrúi ríkisins en hann segir í samtali við Kjarnann að eðlilegt sé að aðstoðarmenn sinni slíkri stjórnarsetu ef hún er á vegum ríkisins og ekki sé greitt fyrir hana sérstaklega. Önnur stjórnarseta sé það ekki.
Í nýlegum lögum um varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands segir að störf æðstu stjórnenda og aðstoðarmanna ráðherra teljist full störf. Þeim sé óheimilt að sinna aukastörfum samhliða störfum í Stjórnarráði Íslands.
Samkvæmt lögunum getur ráðherra veitt undanþágu ef fyrirhugað aukastarf telst til mannúðarstarfa, kennslu- eða fræðistarfa, vísindarannsókna, listsköpunar eða annarra og tilfallandi starfa svo fremi að það hafi ekki áhrif á störf viðkomandi í Stjórnarráði Íslands og greiðslur fyrir aukastörfin teljast innan hóflegra marka.
„Það er alveg skýrt að þetta fer ekki saman“
Magnús segir að stjórnarseta í Festi samræmist ekki þessum lögum. „Það er alveg ljóst að stjórnarseta í Festi fer ekki saman við starf aðstoðarmanns, ef af því yrði.“
Þegar hann er spurður hvort hann ætli þá að hætta sem aðstoðarmaður ráðherra ef hann færi í stjórn Festi þá segir hann að lögin séu alveg skýr með það að undanþágan í lögunum gildi ekki um stjórnarsetu í Festi. Undanþágan sem hægt er að fá samkvæmt lögum gildi einungis um ákveðin störf eins og áður segir. „Það er alveg skýrt að þetta fer ekki saman og ég mun hætta sem aðstoðarmaður hljóti ég kjör í stjórnina.“
Festi greiddi yfir 700 milljónir fyrir Íslenska orkumiðlun
Í skýrslu tilnefninganefndar Festis segir að tilnefning Magnúsar til stjórnarsetu byggi á því að hann hafi mikla þekkingu á orkumarkaði, sjálfbærni, umhverfismálum, stjórnsýslu og uppbyggingu fyrirtækja.
Þar er byggt á því að Magnús stofnaði á sínum tíma, ásamt fjárfestinum Bjarna Ármannssyni, félagið Íslensk orkumiðlun sem byrjaði að selja íslenskum neytendum raforku árið 2017. Ásamt Bjarna og Magnúsi voru hluthafar Kaupfélag Skagfirðinga og Ísfélag Vestmannaeyja og síðar Festi. Festi keypti félagið síðan að fullu undir lok árs 2020 og greiddi 722,5 milljónir króna fyrir félagið, sem síðar féll undir N1 og fékk síðla árs 2021 nafnið N1 Rafmagn.
Verðmatið á félaginu á þeim tíma er það var selt var alls 850 milljónir króna, sem vakti nokkra athygli, enda var hátt í 70 prósent af bókfærðu virði félagsins óefnislegar eignir í formi viðskiptavildar. Ekki lá fyrir í hverju nákvæmlega þessu verðmæta viðskiptavild fælist.
Stundin fjallaði um náin tengsl lykilleikenda í þessum viðskiptum þegar þau áttu sér stað, en Eggert Þór Kristófersson. sem nýlega var sagt upp störfum sem forstjóra Festi, er vinur og fyrrverandi viðskiptafélagi Bjarna Ármannssonar, og var á árum áður framkvæmdastjóri fjárfestingarfélags Bjarna, sem er einmitt sama fyrirtæki og Festi keypti hlutinn í Íslenskri orkumiðlun af.
Þáverandi stjórnarformaður Festi, Þórður Már Jóhannesson, sem lét af störfum fyrr á þessu ári í kjölfar ásakana um kynferðisbrot, hefur einnig verið viðskiptafélagi Bjarna og þekkt hann frá því á uppvaxtarárum þeirra á Akranesi, eins og bloggarinn Guðmundur Hörður Guðmundsson vakti athygli á í færslu sinni um málið, sem sett var fram undir fyrirsögninni „Vinsamlegt verðmat“.
Sjávarsýn, fjárfestingafélag Bjarna, á 1,03 prósent hlut í Festi. Magnús var um tíma deildarstjóri orkusviðs N1 eftir kaup Festis á Íslenskri orkumiðlun. Hann hætti störfum í lok síðasta árs og tók við sem aðstoðarmaður Áslaugar Örnu fyrr á þessu ári.
Tveir fulltrúar í stjórn Rio Tinto á vegum íslenska ríkisins
Magnús tók sæti í stjórn Rio Tinto á Íslandi í maí síðastliðnum og segir hann við Kjarnann að sú stjórnarseta sé út frá stofnsamningi við ríkið þar sem ríkið skipar fulltrúa.
Á vef Rio Tinto á Íslandi kemur fram að stjórn fyrirtækisins sé skipuð sjö einstaklingum. Fjórir stjórnarmenn auk stjórnarformanns sitja í stjórninni fyrir hönd eigenda en ríkisstjórn Íslands á tvo fulltrúa í stjórninni samkvæmt upphaflegum samningi við stjórnvöld um stofnun fyrirtækisins.
„Ég er í stjórninni sem fulltrúi íslenska ríkisins, tilnefndur af ráðherra, og þar hafa verið skrifstofustjórar og ýmsir verið í gegnum tíðina.“ Hann segir að það sé partur af hlutverki ríkisins að vera með stjórnarmann þar.
Hann segist ekki sjá að um hagsmunaárekstur sé að ræða að vera stjórnarmaður í Rio Tinto og aðstoðarmaður iðnaðarráðherra. „Það hefur ekki verið talin ástæða fyrir því hingað til,“ segir hann og bendir á að samningur ríkisins við Rio Tinto hafi verið gerður fyrir rúmum 50 árum síðan og renni sitt skeið á næstu árum.