Loftslagsaðgerðir íslenskra stjórnvalda eru ekki í samræmi við nýjustu vísindagögn. Í tilefni af viðvörun IPCC, milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, ítrekar Loftslagsráð áskorun til íslenskra stjórnvalda um að framfylgja af mun meiri festu þeim ákvörðunum sem þegar hafa verið teknar og hraða frekari stefnubreytingum og aðgerðum í loftslagsmálum. „Markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030 eru óljós og ófullnægjandi. Nauðsynlegt er að stjórnvöld skýri og útfæri þessi markmið nánar.“
Þetta kemur fram í áliti Loftslagsráðs sem samþykkt var á fundi þess 9. júní.
Að mati Loftlagsráðs er framkvæmd aðgerðaáætlunar íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum ómarkviss. Auka þurfi samdrátt hratt með „samstilltu og vel skipulögðu átaki allra“. Til að ná því markmiði þurfi að fara af undirbúnings- á framkvæmdastig og meta árangur með mun öflugri greiningum en nú er beitt. „Loftslagsvæn framtíðarsýn kallar á nýjar áherslur í fjárfestingum og nýsköpun sem leggja mun grunn að verðmætasköpun í kolefnishlutlausu hagkerfi,“ segir í álitinu.
Loftslagsráð er sjálfstætt starfandi ráð sem hefur það meginhlutverk að veita stjórnvöldum aðhald með faglegri ráðgjöf um loftslagsmál. Þá er hlutverk ráðsins einnig að hafa yfirsýn yfir fræðslu og miðlun upplýsinga um loftslagsmál til almennings. Ráðið sinnir hlutverki sínu með því að rýna áætlanir stjórnvalda sem snerta loftslagsmál, stuðla að upplýstri umræðu um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka kolefnisbindingu sem og ráðgjöf um aðlögun að loftslagsbreytingum.
Allsherjarmat á hnattrænni stöðu og horfum í loftslagsmálum liggur nú að mestu fyrir, en það er unnið af IPCC sem er alþjóðleg stofnun sem Ísland er fullgildur aðili að. „Samkvæmt því mati stefnir í mun háskalegri röskun en þegar hefur orðið á þeim stöðugleika í veðurfari sem einkennt hefur síðustu árþúsundir,“ minnir Loftslagsráð á í áliti sínu. Losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu fer enn vaxandi og hefur aldrei verið meiri.
„Slík röskun er ekki óumflýjanleg,“ bendur Loftslagsráð þó á. „Ráðast þarf í kerfislægar breytingar svo sem með umbyltingu orkukerfa, samgöngukerfa, skipulags borga, fjármálakerfa sem og í opinberri hagstjórn. Stjórnvöld verða án tafar að skapa umgjörð sem stuðlar að jákvæðum breytingum með markvissri stefnumótun. Mikilvægt er að stjórnvöld nýti þá víðtæku reynslu og þekkingu sem til staðar er hér á landi sem og erlendis til að hraða aðgerðum.“
Skýrslum IPCC er ætlað að upplýsa þá sem taka ákvarðanir og móta stefnu í loftslagsmálum um vísindalega þekkingu á sviði loftslagsbreytinga. Loftslagsráð segir að líta megi á mat 3. vinnuhóps IPCC sem efnivið sem nýta eigi hér á landi til að auka árangur í baráttunni við loftslagsvána.
Helstu skilaboð skýrslu vinnuhópsins, sem kom út í apríl eru:
- Losun hefur aukist á heimsvísu og hefur hún aldrei verið meiri, en hægt hefur á aukningunni að meðaltali síðasta áratug að hluta til vegna stjórnvaldsaðgerða.
- Fyrirliggjandi aðgerðir á heimsvísu sem og landsframlög til loftslagsmála (NDC) duga ekki til að halda hitastigshækkun innan við 2°C og eru fjarri því að ná að halda hækkun við 1,5°C þar sem hámarki í losun gróðurhúsalofttegunda þarf að ná árið 2025. Metnaður þarf því að aukast mikið og árangur aðgerða að margfaldast.
- Hægt er að ná umtalsverðum samdrætti með mótvægisaðgerðum sem byggja á tækni sem er þegar til. Áframhaldandi tækniþróun er þó afar mikilvæg.
- Margar mótvægisaðgerðir eru nú þegar samkeppnishæfar svo sem notkun endurnýjanlegrar orku í raforkuframleiðslu í stað jarðefnaeldsneytis og hefur kostnaður dregist mjög mikið saman síðustu ár.
- Víðfeðmar kerfisbreytingar þurfa að eiga sér stað til að styðja við mótvægisaðgerðir innan geira. Hegðunar- og lífsstílsbreytingar geta einnig skilað miklum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda (GHL).
- Mikilvægt er að beita bæði reglugerðum og hagrænum stjórntækjum til að hvetja til innleiðingar mótvægisaðgerða og til að draga úr hindrunum þeirra. Samhæfa þarf fjármál hins opinbera við aðgerðir í loftslagsmálum.
- Mikilvægt er að ráðast í heildstæða stefnumótun í málaflokknum.
- Aðgerðir sem miða að því að draga úr losun GHL og auka bindingu til að halda hitastigshækkun innan 2 °C munu draga lítið úr hagvexti. En þegar fjölbreyttur ávinningur mótvægisaðgerða er tekinn til greina verður efnahagslegur ávinningur af aðgerðum og lífsgæði batna.
- Samlegðaráhrif eru á milli mótvægisaðgerða sem draga úr losun eða auka bindingu og sjálfbærrar þróunar en mikilvægt er að meta áhrif mótvægisaðgerða á náttúru og umhverfi (svo sem á líffræðilegan fjölbreytileika) og samfélag (svo sem jöfnuð).
- Skilvirk stefnumörkun, innleiðing sem og til að tryggja samfélagslega sátt um aðgerðir byggir á þátttöku og samvinnu stjórnvalda og fjölbreyttra aðila svo sem almennings og atvinnulífs.