Hlutfall þeirra sem landsmanna sem telja að umræða um #Metoo-hreyfinguna sé jákvæð fyrir íslenskt samfélag hefur dregist umtalsvert saman frá árinu 2018, þegar fyrsta bylgja hennar reið yfir landið. Þá sögðust 70,5 prósent aðspurðra telja hana jákvæða en í nýrri könnun Maskínu, sem framkvæmd var núna í janúar, mældist það hlutfall 60,4 prósent. Mest fjölgar í hópi þeirra sem hafa ekki afgerandi skoðun á umræðunni en þeim sem telja hana neikvæða fjölgar úr 12,9 í 15,5 prósent.
Nokkuð afgerandi munur er á afstöðu eftir því hvaða stjórnmálaflokk aðspurðir í könnuninni myndu kjósa ef kosið yrði í dag. Kjósendur Miðflokksins eru neikvæðastir í garð umræðunnar um #Metoo-hreyfinguna og einungis 19,5 prósent þeirra telja hana jákvæða fyrir íslenskt samfélag. Kjósendur Sjálfstæðisflokks og Flokks fólksins skera sig einnig úr en rúmlega 38 prósent þeirra telja umræðu um #Metoo-hreyfinguna jákvæða.
Menntun virðist líka skipta umtalsverðu máli sem breyta þegar viðhorf til #Metoo-hreyfingarinnar er skoðað. Þannig segjast 74,1 prósent allra svarenda sem eru með háskólagráðu að þeir telji umræðu um hana jákvæða fyrir íslenskt samfélag en einungis 48,3 prósent þeirra sem eru með grunnskólapróf sem æðstu menntun. Á meðal þeirra sem hafa lokið framhaldsskólaprófi eða iðnmenntun mælist jákvæðnin í garð #Metoo-umræðunnar 57,4 prósent.
Nokkuð afgerandi munur er á afstöðu kynjanna til málsins, en 54,3 prósent karla segjast telja umræðuna jákvæða fyrir íslenskt samfélag á meðan að 66,9 prósent kvenna eru á þeirri skoðun.
Munurinn á afstöðu kynslóða er einnig nokkuð skýr, samkvæmt niðurstöðu könnunar Maskínu. Þannig telja 71,9 prósent aðspurðra í aldurshópnum 18 til 29 ára að umræðan um #Metoo-hreyfinguna sé jákvæð fyrir íslenskt samfélag en 51 prósent þeirra sem eru 60 ára og eldri.
Könnunin fór fram dagana 14. til 19. janúar 2022 og voru svarendur 815 talsins.