Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, vildi fá mynd af sér að „planka“ á meðan að forystufólk í Bændasamtökum Íslands og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og innviðaráðherra, héldu á henni í móttöku Framsóknarflokksins vegna Búnaðarþings fyrir átta dögum síðan.
Samkvæmt frétt Stundarinnar sem birtist í gærkvöldi á Sigurður Ingi að hafa brugðist við þeirri beiðni með því að segja: „á að mynda mig með þeirri svörtu“.
Myndina, sem var tekin í kjölfarið, má sjá hér að ofan. Hún komst í dreifingu seint í gærkvöldi og er nú aðgengileg víða á netinu. Þar sjást þeir Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, fyrrverandi formaður Bændasamtaka Íslands, Höskuldur Sæmundsson, sérfræðingur á markaðssviði og Ásgeir Helgi Jóhannsson, lögfræðingur samtakanna, halda á Vigdísi en Sigurður Ingi sést fyrir aftan Ásgeir.
Sigurður Ingi hefur neitað að staðfesta hver ummælin voru nákvæmlega en beðist afsökunar á þeim í yfirlýsingu sem birtist á mánudag og sagst hafa látið „óviðurkvæmileg orð“ falla í garð Vigdísar.
Aðstoðarmaður Sigurðar Inga, Ingveldur Sæmundsdóttir, sagði við DV á sunnudag að það væri „algjört bull“ að ummælin hefðu fallið. Hún hefði verið edrú ogstaðið við hlið Sigurðar Inga þegar til stóð að taka myndina. Líkt og sést á myndinni hér að ofan stóð Ingveldur ekki við hlið Sigurðar Inga þegar myndin var tekin, en heimildir Kjarnans herma að ummælin hafi verið látin falla við þær aðstæður sem birtast á myndinni.
Viðbrögð sem eldast ekki vel
Hefð er fyrir því að sumir stjórnmálaflokkar haldi einhverskonar samkvæmi í kringum Búnaðarþing Bændasamtaka Íslands og bjóði forystumönnum þeirra, og öðrum. Þingið var sett síðastliðinn fimmtudag og í móttöku sem Framsóknarflokkurinn hélt fyrir fundarmenn um kvöldið varð ofangreint atvik.
Umfjöllun um uppákomuna birtist fyrst í Orðinu á götunni á Eyjunni, slúðurvettvangi sem heyrir undir DV þar sem skrifað er nafnlaust, á sunnudag klukkan 15:30. Klukkutíma og þremur mínútum síðar birtist frétt á vef DV þar sem Ingveldur Sæmundsdóttir, pólitískur aðstoðarmaður Sigurðar Inga til margra ára, þvertók fyrir að yfirmaður hennar hefði viðhaft rasísk ummæli. „Þetta er algjört bull,“ sagði Ingveldur. Hún hefði verið edrú og staðið við hlið Sigurðar Inga þegar til stóð að taka umrædda mynd með Vigdísi. Ingveldur sagði að Sigurði Inga hefði ekki litist vel á hugmyndina og sagt að hann vildi ekki halda á Sjálfstæðismanni.
Þessi viðbrögð reyndust ekki eldast vel þegar Vigdís gaf sjálf út yfirlýsingu á mánudag þar sem hún sagði að „afar særandi ummæli“ hefðu verið látin falla og að hún hefði heyrt þau, sem og fleira starfsfólk Bændasamtakanna. Hún sagði að hún hefði aldrei talið að hún þyrfti að setjast niður og skrifa yfirlýsingu af þessu tagi. „Aðstoðarmaður ráðherrans var ekki við hlið hans þegar ummælin voru látin falla, eins og hún hefur haldið fram en myndir úr þessari myndatöku sýna það án alls vafa. Það er særandi þegar reynt er að gera lítið úr upplifun minni og þegar beinlínis rangar skýringar eru notaðar við það. Ég stend með sjálfri mér þegar kemur að þessu, ég veit hvað ég heyrði, ég veit hvað var sagt. Ég neita að bera ábyrgð á þeim orðum sem ráðherrann viðhafði í minn garð. Duldir fordómar eru gríðarlegt samfélagsmein og grassera á öllum stigum samfélagsins. Þeir smætta verk einstaklinga og gjörðir niður í lit eða kyn.“
Aldrei hélt ég að ég þyrfti að setjast niður og skrifa svona yfirlýsingu. Ég hef aldrei látið húðlit, kynþátt, kynferði...
Posted by Vigdís Häsler on Monday, April 4, 2022
„Óviðurkvæmileg orð“
Sigurður Ingi og aðstoðarmenn hans höfðu ekki svarað fjölmiðlafólki allan sunnudag og mánudag. Eftir yfirlýsingu Vigdísar brást hann þó við og birti stöðuuppfærslu á Facebook, fjórum dögum eftir að ummælin voru látin falla og sólarhring eftir að fjölmiðlar fjölluðu fyrst um þau. Þar sagðist hann hafa tamið sér að koma jafnt fram við alla. „En mér verður á eins og öðrum. Það þykir mér miður. Í kvöldverðarboði Framsóknar fyrir fulltrúa á Búnaðarþingi síðastliðið fimmtudagskvöld, lét ég óviðurkvæmileg orð falla í garð framkvæmdastjóra Bændasamtakanna. Á þeim orðum biðst ég innilegrar afsökunar. Í lífinu er maður alltaf að læra á sjálfan sig. Sárt er þó að sá lærdómur bitni á tilfinningum annarra.“
Ég er alinn upp við það og það er mín lífsskoðun að allir séu jafnir. Þess vegna hef ég tamið mér að koma jafnt fram við...
Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Monday, April 4, 2022
Ingveldur, aðstoðarkona hans sem hafði sagt að atvikið sem Sigurður Ingi baðst afsökunar á hefði aldrei átt sér stað, svaraði fyrirspurn RÚV á þann veg að hún hefði svarað DV að hún hefði verið að „segja frá því sem ég heyrði og varð vitni að og var það ekki borið undir ráðherra.“
Vigdís og Sigurður Ingi ætla að hittast á fund í dag. Með á fundinum verður einnig stjórn Bændasamtakanna. Í samtali við RÚV í gær sagðist Vigdís vona að fundurinn yrði til þess að hún gæti lagt málið til hliðar en það væri þó alfarið í höndum Sigurðar Inga. Vigdís sagði enn fremur að hún hafi fengið mikið af skilaboðum síðustu daga, meðal annars frá foreldrum ættleiddra barna, og ljóst sé að hverskonar rasismi fær að viðgangast víða.