Franska sjónvarpsstöðin BFMTV náði tali við Cherif Kouachi, annan bræðranna sem frömdu árásina á höfuðstöðvar Charlie Hebdo á fimmtudag þar sem tólf manns voru myrtir, í síma á meðan að hann og bróðir hans héldu manni í gíslingu í lítilli prentsmiðju skammt frá París. Fréttamaður stöðvarinnar, Igor Sahiri, ræddi við Kouachi í gærmorgun. Í samtalinu segir Cherif Kouachi að bræðurnir séu verndarar spámannsins Múhammeðs og að AL Kaída í Jemen hefði sent þá.
Bræðurnir voru báðir drepnir í áhlaupi lögreglu síðdegis í gær, föstudag. Samtímis var ráðist inn í verslun í austurhluta Parísar, sem rekin er af gyðingum, þar sem önnur gíslataka var í gangi. Þar höfðu Amedy Coulibaly og Hayat Boumeddiene tekið minnst sex gísla. Coulibaly er talinn hafa myrt lögreglukonu daginn áður og hafði hótað að myrða gísla sína ef reynt yrði að handsama Kouachi bræður. Coulibaly var drepinn í áhlaupi lögreglu en hann hafði áður drepið fjóra gísla. Því hafa alls 17 manns látist í hryðjuverkaárásum í París undanfarna daga. Boumeddiene er enn leitað.
Fréttastöðin ræddi líka við Coulibaly skömmu áður en hann var drepinn. Hann sagði meðal annars að hann og Kouachi bræðurnir hefði „samstillt“ aðgerðir sínar.
Hægt er að sjá upptöku af samtölum BFMTV við mennina hér að neðan.
https://www.youtube.com/watch?v=6MDz2yaf-9k