Alls segjast 57,6 prósent svarenda í nýrri könnun Maskínu að þeir vilji Katrínu Jakobsdóttur sem næsta forsætisráðherra. Sá flokksformaður sem kemur henni næst í vinsældum er Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, en 9,8 prósent kjósenda segja að þau vilji sjá hann setjast í forsætisráðherrastólinn. Einungis 7,6 prósent aðspurðra vilja sjá Bjarna Benediktsson, formann stærsta stjórnmálaflokks landsins, leiða næstu ríkisstjórn.
Á meðal stjórnarandstöðuflokkanna er augljós skortur á skýrum leiðtoga hennar en sá frambjóðandi úr þeirra röðum sem mælist með með mestan stuðning í forsætisráðherraembættið er Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sem 6,3 prósent landsmanna vilja sjá gegna því.
Könnunin fór fram daganna 27. september til 7. október, eða eftir að kosningar voru afstaðnar, og voru svarendur alls 946 talsins.
Maskína hefur spurt reglulega um hvern fólk vill sjá sem næsta forsætisráðherra og stuðningur við að Katrín gegni því embætti áfram hefur aldrei mælst meiri í könnunum fyrirtækisins. Í könnun sem framkvæmd var í síðasta mánuði sögðu til að mynda 36 prósent að þeir vildu hana í forsætisráðherrastólinn.
Þeir sem styðja Bjarna, formann Sjálfstæðisflokksins, sem forsætisráðherra hafa hins vegar aldrei verið færri. Frá desember 2020 og fram í september 2021 sögðust á bilinu 12,2 til 16,7 prósent vilja hann sem forsætisráðherra og var hann án undantekninga næstur á eftir Katrínu í vinsældum samkvæmt könnunum Maskínu. Nú hefur Sigurður Ingi hins vegar tekið fram úr honum þrátt fyrir að færri sjái hann fyrir sér sem forsætisráðherra en gerðu það í september.
Sjálfstæðis- og Framsóknarfólk vill frekar Katrínu en eigin formenn
Það kemur lítið á óvart að næstum allir kjósendur Vinstri grænna sem svöruðu könnuninni vilji að Katrín verði næsti forsætisráðherra. Meiri athygli vekur að kjósendur hinna stjórnarflokkanna tveggja, sem reyna nú að semja um áframhaldandi stjórnarsamstarf, vilja mun frekar sjá hana leiða næstu ríkisstjórn en eigin flokksformenn.
Þannig segjast 69 prósent kjósenda Framsóknarflokks, sem fékk 17,3 prósent atkvæða í síðustu kosningum, að þeir vilji Katrínu sem forsætisráðherra en 29 prósent vilja Sigurð Inga. Á meðal kjósenda Sjálfstæðisflokks er staðan sú að 58 prósent styðja Katrínu, formann flokks sem fékk 12,6 prósent atkvæða í nýafstöðnum kosningum, sem næsta forsætisráðherra en 32 prósent nefndu Bjarna, formann flokks sem fékk 24,4 prósent atkvæða.
Katrín nýtur líka hylli hjá stjórnarandstöðuflokkum. Alls segjast til að mynda 57 prósent kjósenda Samfylkingarinnar að þeir vilji hana sem forsætisráðherra en 29 prósent þeirra nefna sinn eigin formann, Loga Einarsson. Þeir sem eru minnst hrifnir af Katrínu sem forsætisráðherra eru kjósendur Miðflokksins, sem beið afhroð í síðustu kosningum, rétt náði inn á þing og hefur þegar misst þriðjung þingflokks síns. Einungis 24 prósent þeirra vilja að Katrín verði forsætisráðherra en 63 prósent segja að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, eigi að setjast í þann stól.