„Tryggðin við gamla kerfið, fjórflokkakerfið, er greinilega enn mjög mikil,“ sagði fulltrúi Kvennalistans svekkt í sjónvarpssal á kosningakvöld árið 1991, þegar fyrstu tölur úr flestum kjördæmum landsins höfðu skilað sér í hús.
Fjórflokkurinn; Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur og Alþýðubandalagið, hafði þá sameiginlega hlotið næstum 9 af hverjum 10 atkvæðum sem höfðu verið talin í fyrsta kastinu, öllu meira en hafði verið raunin fjórum árum fyrr er flokkarnir fjórir fengu einungis um 75 prósent atkvæða – sem heyrði til tíðinda.
Þessi tryggð við fjórflokkinn, eins og fjórir rótgrónustu flokkar landsins og arftakar þeirra eru enn oft kallaðir, var ekkert nýtt og hélst lengi enn. Á undanförnum áratug hafa hlutirnir þó breyst ansi hratt og nýir flokkar náð að setja mark sitt á íslensk stjórnmál svo um munar.
Niðurstaða alþingiskosninganna í gær var sú að flokkarnir fjórir fá samanlagt sína næstverstu niðurstöðu frá upphafi, 64,2 prósent. Flokkar sem stofnaðir hafa verið á undanförnum áratug fá á móti vel rúmlega þriðjungsfylgi.
Versta niðurstaðan 2016
Í kosningunum árin 2007 og 2009 fengu Sjálfstæðisflokkur, Samfylking, Vinstri græn og Framsókn samanlagt um 90 prósent atkvæða eins og oftast hafði verið raunin um áratugaskeið.
Í kosningunum árið 2013 féll samanlagt fylgi fjórflokksins hins vegar niður í 74,9 prósent og síðan þá hefur það enn dvínað.
Fjórflokkurinn fékk einungis 62,1 prósent atkvæða í kosningunum 2016, sem er versta samanlagða niðurstaða þessara flokka frá upphafi, en rétti ögn úr kútnum og fékk 65 prósent í kosningunum 2017. Núna árið 2021 er niðurstaðan síðan afar svipuð og síðast, sem áður segir.