Nýtt deiliskipulag KR-svæðisins við Frostaskjól var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar í síðustu viku. Miklar breytingar verða á svæðinu ef skipulagið kemst til framkvæmda. Til stendur að reisa þar knatthús auk þess sem gert er ráð fyrir því að aðalknattspyrnuvelli félagsins verði snúið og um hundrað íbúðir byggðar, með verslunar- og atvinnuhúsnæði á jarðhæðum, í kringum hálfan völlinn.
Knattspyrnufélag Reykjavíkur skipuleggur svæðið og mun fyrirhuguð uppbygging húsnæðis verða á þeirra vegum. Eins og erkifjendurnir í Val mun KR því geta nýtt ágóðann af fasteignauppbyggingunni í þágu félagsins, þó að uppbyggingin við Frostaskjól sé á mun minni skala en sú sem hefur átt sér stað á vegum Valsmanna á Hlíðarenda og gert það félag að ríkasta íþróttafélagi á Íslandi.
Nokkuð bar á áhyggjum af bílastæðaskorti í kringum svæðið, í innsendum athugasemdum íbúa í grenndinni til skipulagsyfirvalda í borginni. Húsfélögin við Meistaravelli 31, 33 og 35 sendu til dæmis inn erindi, þar sem því var komið á framfæri að íbúar teldu að það þyrfti að „grafa dýpra og gera bílastæðakjallara sem tekur 400 bíla undir KR svæðinu,“ nánar tiltekið undir knattspyrnuvellinum.
„Með 400 stæða bílakjallara undir KR vellinum væruð þið að hugsa til framtíðar en ekki til fortíðar,“ sagði í umsögn eins íbúa á Meistaravöllum fyrir hönd húsfélaganna. Alls gerir deiliskipulagstillagan ráð fyrir því að 120 bílastæði verði inni á reitnum, þar af 71 stæði í norðvesturhluta reitsins, fjærst fyrirhuguðum íbúarhúsum. Við nýju íbúðarhúsin er aðallega gert ráð fyrir bílastæðum í götunni.
Því segjast íbúar á Kaplaskjólsvegi sem sendu inn athugasemd hafa „miklar áhyggjur“ af. „Í dag er þegar lagt mjög þétt við allar aðliggjandi götur KR-svæðisins þegar keppnisleikir fara fram, jafnvel í merkt einkastæði. Ómögulegt er að skilja hvernig svona fá bílastæði til viðbótar við þau sem þegar eru eiga að þjóna þeim 100 íbúðum sem fyrirhugað er að byggja sem og þjónustunni og íþróttamannvirkjunum öllum,“ sagði í athugasemd íbúanna.
Sjá fyrir sér verulega íþyngjandi umferðarálag
Stjórnir tveggja húsfélaga við Flyðrugranda (2-10 og 12-20) sögðust svo telja að áætluð bílastæðaþörf væri „stórlega vanmetin“ og að afleiðingarnar komi til með að verða þær „að skortur á bílastæðum og umferðarálag verði verulega íþyngjandi“ fyrir íbúa í húsunum og annarri nærliggjandi byggð.
Í athugasemdum húsfélaganna var því einnig komið áleiðis að byggingaráformin sem KR hefur í huga á lóðinni séu „yfirþyrmandi“ og bent á að gert sér ráð fyrir samfelldri 145 metra langri húsaröð meðfram Flyðrugrandanum og 140 metra langri húsalengju meðfram Kaplaskjólsvegi. Samkvæmt deiliskipulagstillögunni geta húsin að hámarki orðið 18,9 metra há þar sem þau eru hæst.
„Í húsunum tveimur við Flyðrugranda 2-20 eru um 140 íbúðir. Í húsinu að Flyðrugranda 2-10 koma íbúar flestra íbúða sem snúa að KR-svæði til með að horfa inn í þennan langa og himinháa húsvegg. Íbúar þar munu algjörlega tapa sýn á kennileyti til suðurs bæði náttúruleg og manngerð. Mun húsalengjan varpa alskugga á flestar þessara sólríku íbúða hússins í allt að þrjá mánuði á tímabilinu frá byrjun nóvember til loka janúar,“ segir í athugasemdum húsfélaganna við Flyðrugrandann.
Bílastæðafjöldi í samræmi við samgöngumat
Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar var í síðustu viku lagt fram skjal með ofangreindum athugasemdum og fleirum til, auk svara skipulagsyfirvalda borgarinnar við þeim. Hvað bílastæði varðar vísaði borgin til þess í svörum sínum að unnið hefði verið samgöngumat fyrir KR-svæðið, sem tilgreindi „þann bílastæðafjölda sem er æskilegur skv. viðmiðum borgarinnar um reglur um bíla- og hjólastæði.“
„Vissulega má til sanns vegar færa að eðli svæðisins sem íþróttasvæði er þannig að á vissum tímum mun mikill fjöldi gesta sækja svæðið. Á það helst við um íþróttaviðburði en einnig aðra stærri viðburði, s.s. tónleika og aðrar skemmtanir og uppákomur. Yfirleitt er um að ræða viðburði sem standa yfir í nokkrar klukkustundir og skapa umtalsverða umferð. Ljóst er að við slíkar aðstæður getur umferð við og um svæðið og næsta nágrennis orðið umtalsverð og reynt á afkastagetu innviða. Samgöngumatið skilgreinir og leggur til að umsjónaraðilar KR og Reykjavíkurborgar hafi til taks áætlun sem miðar að því að stjórna umferð og notkun innviða svæðisins þegar stærri viðburðir fara fram. Á það t.d. við um hvar gestir geti lagt bifreiðum, hvaða fararmátar eru heppilegir til að komast að svæðinu o.s.frv.. Með viðeigandi skipulagi og upplýsingagjöf má lágmarka álag sem viðburðir hafa á innviði og þjónustustig gatnakerfisins. Gestir geta verið hvattar til að nýta sér vistvæna ferðmáta til þess að nálgast viðburði og að vel sé skilgreint hvar mögulegt sé að leggja ökutækjum, t.d. við skóla og aðrar opinberar byggingar sem eru yfirleitt minna notaðar þegar stærri viðburðir fara fram (stæði í borgarlandi),“ segir í svari borgarinnar um bílastæðamálin, en Efla verkfræðistofa vann samgöngumatið sem vísað er til.
Með því að búa í borg þá…
Athugasemdum um að nýbyggingarnar á KR-svæðinu myndu rýra útsýni einhverra íbúa í grenndinni var svo flestum svarað með stöðluðum hætti.
„Með því að búa í borg þá geta íbúar ávallt átt von á því að nánasta umhverfi þeirra taki breytingum sem haft geta í för með sér skerðingu á útsýni, aukið skuggavarp, umferðaraukningu eða aðrar breytingar. Verði menn að sæta því að með almennum takmörkunum þá geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum þar sem réttur íbúa til óbreytts útsýnis er ekki bundin í lög,“ sagði í svari borgarinnar við nokkrum athugasemdanna.
Íbúum var svo bent á að þeir gætu leitað réttar síns, ef þeir teldu skipulagsákvarðanir borgarinnar vera að valda sér tjóni.
Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn sátu hjá
Við afgreiðslu deiliskipulagsins var það samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar í umhverfis- og skipulagsráði, en tveir fulltrúar Sjálfstæðisflokks og fulltrúi Vinstri grænna í ráðinu sátu hjá.
Í bókun meirihlutaflokkanna fjögurra sagði meðal annars að tillögurnar gerðu ráð fyrir stórbættri íþróttaaðstöðu fyrir hverfið, þær myndu fjölga íbúum og efla þannig verslun og þjónustu á svæðinu. Bílastæðamálin væru svo í samræmi við bílastæðastefnu borgarinnar.
Líf Magneudóttir fulltrúi Vinstri grænna í ráðinu sagðist fagna því að KR-ingar fengju betri íþróttaaðstöðu, en sagði hins vegar „eitt og annað í útfærslu íbúðahúsanna sem gæti farið betur“ og kaus því að sitja hjá, þrátt fyrir að styðja hugmyndir að uppbyggingu á þessu svæði.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, þau Hildur Björnsdóttir og Kjartan Magnússon, sögðust fagna löngu tímabærri uppbyggingu íþróttamannvirkja fyrir KR en sögðust þó „harma“ að félagið þyrfti að „láta af hendi mögulegt framtíðarsvæði til íþróttauppbyggingar, svo fjármagna megi fyrirhuguð mannvirki.“
„Betur færi á því að félagið fengi samskonar stuðning til uppbyggingar aðstöðu og önnur hverfisfélög innan borgarinnar,“ sögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks, sem einnig undirstrikuðu „mikilvægi þess að sjónarmiðum íbúa verði mætt, og að innviðir hverfisins verði efldir svo vel megi taka á móti nýjum íbúum sem óhjákvæmilega munu fylgja uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á svæðinu.“
Kolbrún Baldursdóttir áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins í ráðinu sagðist í bókun sinni taka undir margar athugasemdir sem bárust frá íbúum í grenndinni, um þrengsl oog skort á bílastæðum. „Horfast verður í augu við raunveruleikann. Bílastæðavandi er einnig í nærliggjandi götum. Skoða þarf að draga úr byggingarmagni og fjölga bílastæðum,“ sagði í bókun Kolbrúnar.