Mynd: Bára Huld Beck

Sagan af því hvernig Valur varð ríkasta íþróttafélag á Íslandi

Knattspyrnufélagið Valur er ríkasta íþróttafélag á Íslandi. Sú staða gerir Val kleift að bjóða upp á aðstöðu, aðstæður og launagreiðslur sem önnur íþróttafélög geta illa eða ekki keppt við. Niðurstaðan er sú að Valur er í fremstu röð á öllum vígstöðum helstu hópíþrótta á Íslandi hjá báðum kynjum og hirðir hvern titilinn á fætur öðrum.

Sagan á bak­við hinn mikla upp­gang Vals er stór og mik­il. Hún teygir sig aftur fyrir síð­ustu ald­ar­mót og felur í sér margar hraða­hindr­anir og allskyns átök, bæði inn­an­búðar meðal Vals­manna og við aðra sem vildu standa í vegi fyrir veg­ferð­inni af ýmsum ástæð­um. Hér verður öll þessi saga rak­in.

Fyrsti kafli: Aðdrag­and­inn

Á árunum 1990-1992 hafði karla­lið Vals í knatt­spyrnu unnið þrjá bik­ar­meist­aratitla í röð og tekið þátt í Evr­ópu­keppni. Hand­boltalið Vals var líka það besta á Íslandi á tíunda ára­tugnum og vann hvern Íslands­meistar­tit­il­inn á fætur öðr­um. Sögu­lega var félagið stór­veldi.

En fjár­hagur Vals var í mol­um. Skuldir söfn­uð­ust upp ár frá ári og voru að sliga allan rekst­ur.

Knatt­spyrnu­deildin var í verstum mál­um, enda fjár­frek­ust. Sú staða fór að end­ur­spegl­ast í frammi­stöð­unni á vell­inum og árið 1999 náði þetta nið­ur­læg­ing­ar­skeið félags­ins full­komnun þegar Valur féll úr efstu deild knatt­spyrnu karla í fyrsta sinn í sögu sinni.

Það sem gerði fallið enn verra var að Íslands­meist­ara­tit­ill­inn það árið fór til stór­veldis þess tíma, nágranna Vals úr vest­urbæ Reykja­vík­ur, KR.

Ári áður hafði KR gert eitt­hvað sem var ekki þekkt í íslenskum íþrótta­heimi. Nokkrir gall­harðir stuðn­ings­menn stofn­uðu eign­ar­halds­fé­lagið KR-­sport sem hafði þann til­gang að styðja við rekstur knatt­spyrnu­deildar KR, og í raun taka yfir rekstur henn­ar. Skráðir stofn­endur voru tveir, Björgólfur Guð­munds­son og Haukur Gunn­ars­son.

Inn í félagið var greitt hlutafé sem síðan átti að vera hægt að ávaxta og nota ágóð­ann af því til að styrkja fjár­hags­lega rekstur knatt­spyrnu­liðs KR. Á meðal fjár­fest­inga sem KR-­sport réðst í var að kaupa þrjá veit­inga­staði á Eiðis­torgi: Rauða ljón­ið, Kon­íaks­stof­una og Sex Baujuna. Lík­ast til má deila um ágæti þeirrar fjár­fest­ing­ar.

Ýmsir harðir stuðn­ings­menn Vals, sem áttu fjár­muni og fullt af vilja til að gera vel fyrir félagið sitt, horfðu til þess að KR-­leiðin gæti verið leið sem nýst gæti þeim.

Á annan tug kjöl­festu­fjár­festa

Í byrjun des­em­ber 1999 var félagið Vals­menn hf. stofnað til að „vera sjálf­stæður fjár­hags­legur bak­hjarl fyrir Knatt­spyrnu­fé­lagið Val“. Alls lögðu á annan tug ein­stak­linga fram eina milljón króna í fyrstu. Þeir urðu svo­kall­aðir „kjö­festu­fjár­fest­ar“ í hinu nýja félagi. Á meðal þeirra sem til­heyrðu þeim hópi var margt þjóð­þekkt fólk. Helstu drif­kraft­arnir voru ann­ars vegar Grímur Sæmund­sen, fyrr­ver­andi leik­maður Vals og nú helsti eig­andi og stjórn­andi Bláa lóns­ins, og Helgi Magn­ús­son, stór­tækur fjár­festir sem um ára­bil var einnig stjórn­ar­for­maður Líf­eyr­is­sjóðs verzl­un­ar­manna. Á meðal ann­arra sem lögðu fram milljón krónur voru Guðni Bergs­son, ein ást­sæl­asti sonur Vals og þá enn atvinnu­maður í knatt­spyrnu, og fjöl­miðla­mað­ur­inn Ingvi Hrafn Jóns­son, sem á síð­ustu árum er best þekktur fyrir rekstur sjón­varps­stöðv­ar­innar sál­ugu ÍNN.

Grímur Sæmundsen, forstjóri og einn helsti eigandi Bláa lónsins, hefur leikið eitt af lykilhlutverkunum í þróun Vals síðustu áratugi.
Mynd: Hringbraut

Fleiri velunn­urum Vals var í kjöl­farið boðið að leggja til lægri fjár­hæð­ir. Alls söfn­uð­ust hluta­fjár­vil­yrði fyrir 50 millj­ónum króna og á end­anum inn­heimt­ust 43 millj­ónir króna af þeim. Flestir lögðu til mjög lágar upp­hæð­ir, um tíu þús­und krón­ur.

Í fyrstu stjórn Vals­manna hf. sátu Brynjar Harð­ar­son, fyrr­ver­andi hand­bolta­leik­maður hjá Val og íslenska lands­lið­inu sem var for­mað­ur, Helgi Magn­ús­son, Elías Her­geirs­son, Frið­rik Soph­us­son, fyrr­ver­andi ráð­herra og áhrifa­maður í stjórn­málum um ára­bil, Stefán Gunn­ars­son, Kjartan G. Gunn­ars­son og Örn Gúst­afs­son.

Fyrsti skráði fram­kvæmda­stjór­inn var lög­mað­ur­inn Brynjar Níels­son, síðar þing­maður Sjálf­stæð­is­flokks og mik­ill Vals­ari.

Brynjar Harð­ar­son tók þó fljót­lega við öllum rekstri félags­ins sem snérist um að fjár­festa hluta­féð. Það var meðal ann­ars gert með kaupum á stóru aug­lýs­inga­skilti sem sett var upp við Hlíð­ar­enda og kaupum á verð­bréf­um.

Þessi fyrstu ár var ávöxt­unin nokkrar millj­ónir króna á ári. Það var vissu­lega búbót fyrir skuldum hlaðið félag en var ekki að fara að umbylta rekstr­inum á Hlíð­ar­enda.

Áttu landið

Valur var í þeirri ein­stöku stöðu að eiga landið sem félagið stund­aði starf­semi sína, á Hlíð­ar­enda. Það hafði átt það frá því maí­mán­uði 1939. Það reynd­ist á end­anum mesta lukka Vals að hafa fest sér þetta land sem um 90 árum síðar varð eitt verð­mætasta bygg­ing­ar­land í höf­uð­borg lands­ins.

Vals­menn hf. höfðu áhuga á að nýta sér þessa ein­stöku stöðu til að styrkja Val og bæta aðstöðu félags­ins. Fyrsta skrefið sem stigið var til þess var að gera samn­ing við Reykja­vík­ur­borg hinn 11. maí 2002 um Hlíð­ar­enda­svæð­ið. Sam­kvæmt honum lét Valur hluta af erfða­festu­landi Vals undir umferð­ar­mann­virki sem tengd­ust m.a. legu nýju Hring­braut­ar­innar og stórt svæði sem átti að skipu­leggja sem lóðir með­fram Flug­vall­ar­vegi og Hlíð­ar­fæti. Sam­hliða var gerður lóða­leigu­samn­ingur um það svæði sem íþrótta­svæði Vals stendur á.

Á þessum tíma skuld­aði Valur um 200 millj­ónir króna og við blasti að umtals­verða fjár­muni þurfti til að fjár­festa í bættri aðstöðu á svæði félags­ins. Samn­ing­ur­inn sem gerður var við Reykja­vík­ur­borg var metin á tæpan einn millj­arð króna. Þá fjár­muni átti að fá með því að selja bygg­inga­rétt af lóð­unum sem Valur lét frá sér í sam­komu­lag­inu og við­bót­ar­lóðum sem Reykja­vík átti við svæð­ið.

Fjár­mun­irnir áttu að not­ast ann­ars vegar til að greiða niður skuldir Vals og hins vegar að fjár­magna 780 milljón króna upp­bygg­ingu mann­virkja. Á meðal þess sem átti að byggja var íþrótta­hús með áfastri útistúku og aðal­leik­vangur við hlið þess. Mann­virki sem í dag eru ris­inn og bera nöfnin Origo-höll­inn og Origo-­völl­ur­inn.

Annar kafli: Fjár­fest­ingin og póli­tíski glund­roð­inn

Sér­stök bygg­inga­nefnd Reykja­vík­ur­borgar og Vals sá um sölu bygg­inga­rétt­ar­ins. Hún gerði samn­ing við kaup­anda af honum hinn 11. maí 2005. Kaup­and­inn var Vals­menn hf. og kaup­verðið var 485 millj­ónir króna ásamt kaup­rétti á bygg­inga- og lóða­rétt­indum fyrir 385 millj­ónir króna. Auk þess átti kaup­and­inn að greiða gatna­gerð­ar­gjöld. Heild­ar­verðið var því um 900 millj­ónir króna.

Valur skuldaði um 200 milljónir króna snemma á þessari öld og fáir sýnilegir valkostir voru út úr stöðunni.
Mynd: Bára Huld Beck

Vals­menn greiddu um 400 millj­ónir króna út til hinnar sam­eig­in­legu bygg­inga­nefndar og restin átti að greið­ast þegar lóða­leigu­samn­ingar væru til­bún­ir. Fjár­mun­irnir nýtt­ust til að greiða niður alla skuldir Vals og sem eig­in­fjár­fram­lag inn í bygg­ingu íþrótta­mann­virkja.

En hvernig gat félag stuðn­ings­manna Vals, sem hafði safnað undir 50 millj­ónum króna í hluta­fé, greitt mörg hund­ruð millj­ónir króna fyrir bygg­inga­rétt? Það gat það með sama hætti og flestir aðrir sem létu hluti ger­ast á þessum árum gerðu það, með því að fá fjár­mun­ina að láni.

Frjálsi fjár­fest­inga­bank­inn, sem síðar fór á hausinn, sá um að lána fjár­mun­ina.

Fyr­ir­komu­lagið var auð­vitað áhættu­samt og ljóst að Vals­menn, sem höfðu þarna skuld­sett sig veru­lega, þurftu að hafa tekjur af því fljót­lega ef ekki ætti illa að fara. Upp­haf­lega stóð til að fram­kvæmdir myndu hefj­ast þá strax um haustið 2005 en í sept­em­ber það ár bað þáver­andi skipu­lags­ráð Reykja­víkur Vals­menn um að hinkra aðeins. Fyrir dyrum væri sam­keppni um skipu­lag Vatns­mýri og vilji væri fyrir því að Hlíð­ar­enda­svæðið yrði hluti af því deiliskipu­lagi sem smíðað yrði í kjöl­far henn­ar.

Vals­menn sam­þykktu að fresta fram­kvæmdum til allt að loka árs 2007 gegn því að fá aukin bygg­inga­rétt á Hlíð­ar­enda­svæð­inu og gegn lof­orði Reykja­vík­ur­borgar um að félagið yrði ekki fyrir frek­ari fjár­hags­legum skaða vegna seink­unar á fram­kvæmdum og breyt­inga á skipu­lagi.

Sam­komu­lagið gerði að lokum ráð fyrir sér­stökum tafa­bót­um, tíu millj­ónum króna á mán­uði, ef tafir yrðu á lúkn­ingu deiliskipu­lags og frá­gangi lóð­ar­leigu­samn­inga umfram 15. júlí 2007.

Póli­tískur stóla­leikur hindrar fram­gang

Á versta mögu­lega tíma fyrir Vals­menn varð hins vegar póli­tískur glund­roði í borg­ar­stjórn Reykja­víkur næstu miss­er­in. Eftir borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­arnar 2006 lauk tólf ára valda­tíma R-list­ans og Sjálf­stæð­is­menn tóku við ásamt Birni Inga Hrafns­syni, sem þá var stjórn­mála­maður í Fram­sókn­ar­flokkn­um. Vil­hjálmur Þ. Vil­hjálms­son var gerður að borg­ar­stjóra og sat sem slíkur í rúmt ár, eða fram í októ­ber 2007 þegar meiri­hlut­inn sprakk vegna REI-­máls­ins.

Fjórir borgarstjórar voru í Reykjavík á innan við einu ári. Ólafur F. Magnússon var einn þeirra, en hann sat þó einungis í nokkra mánuði.
Mynd: Skjáskot

Við tók meiri­hluti Sam­fylk­ing­ar, Vinstri grænna, Fram­sóknar og Frjáls­lynda flokks­ins og óháðra með Dag B. Egg­erts­son sem borg­ar­stjóra. Að 100 dögum liðnum ákvað Ólafur F. Magn­ús­son, borg­ar­full­trúi Frjáls­lynda flokks­ins og óháðra, að slíta þeim meiri­hluta og mynda nýjan með Sjálf­stæð­is­flokki gegn því að verða sjálfur borg­ar­stjóri. Sá meiri­hluti lifði í tæpa fimm mán­uði þangað til að Óskar Bergs­son, sem hafði tekið við borg­ar­full­trúa­sæti Björns Inga, mynd­aði nýjan meiri­hluta með Sjálf­stæð­is­flokki og Hanna Birna Krist­jáns­dóttir varð borg­ar­stjóri síð­ustu tæpu tvö ár kjör­tíma­bils­ins.

Allt þetta gerði Vals­mönnum afar erfitt fyr­ir. Glund­roð­inn, og mis­mun­andi afstaða hvers meiri­hluta fyrir sig gagn­vart upp­bygg­ingu í Vatns­mýri, gerði það að verkum að tafir urðu á end­an­legu deiliskipu­lagi Hlíð­ar­enda­svæð­is, sem leiddu til tafa á upp­bygg­ingu íþrótta­að­stöðu á Hlíð­ar­enda og til þess að ekki var hægt að hefja fram­kvæmdir á lóðum Vals­manna hf. eins og ráð­gert hafði ver­ið.

Sum­arið 2008 var staða Vals­manna hf. orðin nokkuð svört. Ekk­ert bólaði á deiliskipu­lagi og félagið gat ekki þjón­u­stað skuldir sín­ar. Dag­inn áður en að Ólafur F. Magn­ús­son var lát­inn hætta sem borg­ar­stjóri, þann 20. ágúst 2008, gerði borgin nýjan samn­ing við Vals og Vals­menn um að taka á sig allskyns kostnað vegna fram­kvæmda á Hlíð­ar­enda­svæð­inu og greiða Vals­mönnum hf. alls 120 milj­ónir króna í tveimur greiðsl­um.

Enn fremur var kveðið á um að breyt­ingum á deiliskipu­lagi og útgáfu nýrra lóð­ar­leigu­samn­inga skyldi lokið eigi síðar en 31. októ­ber 2009. Fram til þess að lóð­ar­leigu­samn­ingar hefðu verið gefnir út skyldi Reykja­vík­ur­borg greiða tafa­bætur og Vals­menn hf. skyldu end­ur­greiða Reykja­vík­ur­borg yfir­teknar og útlagðar fjár­hæðir í tveimur greiðsl­um, sex og tólf mán­uðum eftir útgáfu lóð­ar­leigu­samn­inga.

Svo kom hrun.

Þriðji kafli: Hrunið og neyð­ar­brautin

Þegar ósköpin dundu yfir íslenska þjóð haustið 2008 voru lán Vals­manna hf. við Frjálsa fjár­fest­inga­bank­ann í erlendum gjald­miðl­um. Til að bæta gráu ofan á svart end­uðu leif­arnar af Frjálsa fjár­fest­inga­bank­anum inni í hinum alræmda Dróma, sem gerði þær upp ásamt eft­ir­stand­andi búi SPRON. Drómi hafði orð á sér fyrir að vera það slitabú sem erf­ið­ast var í öllum við­ræð­um. Fyrir því fengu Vals­menn að finna.

Í árs­lok 2009 voru skuldir Vals­manna hf. sam­kvæmt árs­reikn­ingi bók­færðar á 2,9 millj­arða króna. Ekk­ert bólaði á fram­kvæmdum á Hlíð­ar­enda­svæð­inu sem áttu að not­ast til að greiða þessar skuldir og síðan að styrkja rekstur Vals.

Það sem hélt lífi í félag­inu var að Reykja­vík­ur­borg greiddi taf­ar­bæt­ur. Í lok árs 2010 hafði borgin alls greitt 470 millj­ónir króna til Vals­manna en tók þá ein­hliða ákvörðun um að borga ekki meira. Á þeim tíma tók enda nýtt deiliskipu­lag gildi í borg­inni sem náði yfir bygg­ing­ar­svæði Vals­manna. Deilur félags­ins við Dróma gerðu það hin vegar að verkum að ekki var hægt að gefa út lóða­leigu­samn­inga.

Þessi patt­staða stóð meira og minna fram á árið 2013. Þá náð­ist, með aðkomu nokk­urra lyk­il­manna úr hlut­hafa­hópi Vals­manna hf., að fá rík­is­bank­ann Lands­bank­ann til að lána félag­inu sam­tals 1.125 millj­ónir króna til að gera loka­upp­gjör við Dróma. Sam­hliða var veði lyft af lóðum á Hlíð­ar­enda­svæð­inu og hægt var að gefa út lóða­leigu­samn­inga.

Það sumar var svo samið við Reykja­vík­ur­borg um loka­greiðslu vegna sam­komu­lags­ins sem gert var 2005 upp á 385 millj­ónir króna í fjórum jöfnum greiðslum sam­hliða útgáfu bygg­inga­leyfis á hverri af fjórum bygg­ing­ar­lóðum félags. Borgin féll frá verð­bótum sem safn­ast höfðu upp og Vals­menn féllu frá frek­ari kröfum um taf­ar­bætur með drátt­ar­vöxt­um.

Vals­menn héldu að þeir væru komnir á græna grein. Þeir hófust handa við að skipu­leggja upp­bygg­ingu Hlíð­ar­enda­svæð­is­ins og væntu þess að nýtt deiliskipu­lag sem heim­il­aði þá upp­bygg­ingu myndi falla til þá og þeg­ar. Um 600 íbúða upp­bygg­ing var í píp­unum auk atvinnu­hús­næð­is.

Þá birt­ist enn ein hindr­un­in: Hjartað í Vatns­mýr­inni og aðrir vinir Reykja­vík­ur­flug­vall­ar.

Hjartað í Vatns­mýr­inni

Til þess að fram­kvæmd­irnar gætu haf­ist þurfti að loka flug­­braut 06/24 á Reykja­vík­­­ur­flug­velli, sem heitir einnig norð­austur suð­vest­­ur­-braut og hefur á liðn­­um árum iðu­­lega verið nefnd neyð­­ar­braut í opin­berri umræð­u.

Hin svokallaða neyðarbraut.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Fyr­ir­hugað hafði verið árum saman að loka braut­inni.

Árið 2005 und­ir­­rit­uðu þá­ver­andi borg­­ar­­stjóri Stein­unn Val­­dís Ósk­­ar­s­dóttir og þáver­andi sam­­göng­u­ráð­herra Sturla Böðv­­­ar­s­­son sam­komu­lag um sam­­göng­u­mið­­stöð sem rísa skyldi í Vatns­­­mýr­inni. Hún átti að rísa þar sem braut 06/24 er. Árið 2009 und­ir­­rit­uðu Krist­ján L. Möll­er, þá­ver­andi sam­­göng­u­ráð­herra, og Hanna Birna Krist­jáns­dótt­ir, þáver­and­i ­borg­­ar­­stjóri, sam­komu­lag um að brautin ætti að loka, en þó var sá fyr­ir­vari á því sam­komu­lagi að það myndi rísa sam­­göng­u­mið­­stöð við enda brautar 06/24.  

Í októ­ber 2013 und­ir­­rit­aði Hanna Birna, þá inn­­an­­rík­­is­ráð­herra, og Jón Gnarr, þáver­andi borg­­ar­­stjóri, sam­­þykkt um að ljúka vinnu við end­­ur­­skoðun á deiliskipu­lagi fyrir Reykja­vík­­­ur­flug­­völl. Þeg­ar því yrði lokið átti að til­­kynna um lokun braut­­ar­inn­­ar. Í des­em­ber 2013 óskað­i inn­­an­­rík­­is­ráðu­­neytið eftir því að und­ir­­bún­­ingur yrði hafin að lokun flug­­braut­­ar­inn­­ar.

Árið 2015 var neyð­ar­brautin hins vegar enn opin. Þótt jarð­vinna hefði getað haf­ist á Hlíð­ar­enda­svæð­inu neit­aði Sam­göngu­stofa verk­tökum að koma fyrir bygg­ing­ar­krönum á svæð­inu og því var ekki hægt að hefja upp­bygg­ingu. Eina íbúða­bygg­ingin sem var risin var blokk sem Vals­menn byggðu sjálfir og eiga enn að stórum hluta.

Ljóst var að átök voru milli ríkis og borgar um málið og sam­tökin Hjartað í Vatns­mýr­inni, sem börð­ust gegn því að Reykja­vík­ur­flug­völlur verði fluttur börð­ust með mik­illi hörku gegn því að fram­kvæmdir Vals­manna yrðu að veru­leika. Umræðan fór fram á miklum til­finn­inga­nótum og því meðal ann­ars haldið fram að lífum yrði ógnað ef hin svo­kall­aða neyð­ar­braut myndi verða aflögð. Sam­tökin vildu að Alþingi myndi taka skipu­lags­valdið af borg­ar­yf­ir­völd­um, sem þau sögðu að færu gegn vilja meiri­hluta þjóð­ar­innar sem vildi hafa flug­völl áfram í Vatns­mýr­inni, og koma í veg fyrir óaft­ur­kræfar fram­kvæmdir Vals­manna. Þau söfn­uðu meðal ann­ars tæp­lega 70 þús­und und­ir­skriftum þeirra sem kröfð­ust þess að flug­völl­ur­inn yrði áfram í Vatns­mýr­inni.

Flug­brautin notuð sem víg­lína

Dagur B. Egg­erts­son borg­ar­stjóri sagði í fréttum Stöðvar 2 í nóv­em­ber 2015 að ríkið væri ekki að standa við sinn hluta ­samn­ings varð­andi Rekyja­vík­­­ur­flug­­völl og skipu­lag í Vatns­­­mýr­inni. Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, þáver­andi for­sæt­is­ráð­herra, hafði nokkru áður sagt í ræðu á flokks­þingi Fram­sóknar að öllum ætti að vera það „ljóst að grípa þarf til varna fyrir Reykja­vík­­­ur­flug­­völl og koma í veg fyrir að borg­­ar­yf­­ir­völd grafi stöðugt undan flug­­vell­inum og beiti brögðum til að losna við hann.“

Brynjar Harð­ar­son, fram­kvæmda­stjóri Vals­manna, hélt erindi á opnum fundi um upp­bygg­ingu íbúð­ar­hús­næðis síðla árs 2015. Þar var hann harð­orður um stöð­una sem var uppi. „Þessi flug­­braut er notuð sem víg­lína í deilu um til­­vist Reykja­vík­­­ur­flug­vall­­ar. Rang­túlk­­anir um ­mik­il­vægi henn­­ar, hvort sem er fyrir völl­inn í heild sinni, sjúkra­flug eða rang­­nefni eins og að kalla braut­ina neyð­­ar­braut hefur verið end­­ur­­tekið efni í fjöl­miðlum lands­­manna.

Þessar deilur stefna nú upp­­hafi bygg­inga­fram­­kvæmda á Hlíð­­ar­end­­areit í óvissu með til­­heyr­andi skaða fyrir fjölda aðila. Stað­­reynd­in er sú að Hlíð­­ar­end­­areitur getur og mun byggj­­ast upp í sátt við Reykja­vík­­­ur­flug­­völl. Það er ennþá tími til að snúa mál­inu á rétta braut og ­forða mála­­ferlum með til­­heyr­andi fjá­hags­skaða fyrir lóð­­ar­eig­end­­ur, verk­taka, ­fjölda hönn­uða og Reykja­vík­­­ur­­borg. En ekki síst fyrir ungt fólk á höf­uð­­borg­­ar­­svæð­inu sem fær ekki rúm­­lega 400 litlar íbúðir inn á íbúða­­mark­að­inn verði þessi deila ekki leyst. Og loks fyrir rík­­is­­sjóð því það er hann sem mun þurfa að bera skaða­­bóta­á­­byrgð­ina af því að hafa skor­­ast undan því að standa við und­ir­­rit­aða samn­inga.“

Dóm­stólar útkljá málið

Það var í höndum inn­an­rík­is­ráð­herra að taka ákvörðun um að loka hinni svoköll­uðu neyð­ar­braut sam­kvæmt bind­andi lof­orði um slíkt sem Hanna Birna Krist­jáns­dótt­ir, þáver­andi inn­an­rík­is­ráð­herra, og Jón Gnarr, þáver­andi borg­ar­stjóri, und­ir­rit­uðu 25. októ­ber 2013.

Hanna Birna tók hins vegar ekki þá ákvörðun á meðan að hún sat í ráð­herra­stólnum og eftir að hún sagði af sér vegna Leka­máls­ins ákvað Reykja­vík­ur­borg, með stuðn­ingi Vals­manna, að stefna rík­inu til að láta það efna sam­komu­lag­ið.

Hér­aðs­dómur dæmdi í mál­inu í mars 2016 og komst að þeirri nið­ur­stöðu að loka ætti neyð­ar­braut­inni. Hæsti­réttur Íslands stað­festi þann dóm í júní sama ár og flug­braut­inni var lokað nokkrum vikum síð­ar.

Vals­menn gátu lokst haf­ist handa við að selja bygg­inga­rétti á Hlíð­ar­enda­land­inu og fram­kvæmdir við að byggja allt að 700 íbúðir á reitum í hinu nýja hverfi. Fyrstu íbúð­irnar fóru í sölu fyrir um ári síðan og hverfið er hratt að taka á sig mynd. Það verður ekki aftur snúið með upp­bygg­ingu þess úr þessu.

Fjórði kafli: Borg­ara­stríð í Val

Þegar Vals­menn hf. urðu til var sam­komu­lag milli þeirra stuðn­ings­manna félags­ins sem stóðu að fram­kvæmd­inni og lögðu til hlutafé að þeim pen­ingum sem félagið myndi eign­ast yrði aldrei eytt. Þ.e. að það yrði aldrei gengið á höf­uð­stól­inn þótt hann myndi vaxa, heldur ætti að ávaxta hann og nota ávinn­ing­inn af því til að styrkja starf­semi Vals. Eng­inn ein­stak­lingur átti að græða á þessu, heldur ein­ungis Knatt­spyrnu­fé­lagið Val­ur.

Upphaflega áttu Valsmenn að snúast um að styrkja Val. Síðar vildi hluti þeirra hagnast persónulega á fjárfestingum félagsins.
Mynd: Bára Huld Beck.

Síðla árs 2013 var stofnuð sjálfs­eign­ar­stofn­un, Hlíð­ar­endi ses, af Knatt­spyrnu­fé­lag­inu Val. Mark­mið hennar var að halda utan um, byggja upp, varð­veita og við­halda þeim eignum og rétt­indum sem orðið höfðu til í stóra Vals-­meng­inu árin á undan í þágu vaxtar og við­gangs Knatt­spyrnu­fé­lags­ins Vals.

Hug­myndin var sem­sagt að koma eign­ar­haldi á öllum mann­virkjum Vals og þeim eign­um, bæði óbyggðum reitum og fjár­mun­um, sem safn­ast höfðu saman í Vals­mönnum inn í sjálfs­eign­ar­stofn­un­ina, og út úr hluta­fé­laga­fyr­ir­komu­lag­inu. Þá gæti eng­inn reynt, nokkru sinni, að ráð­stafa þessu fé með öðrum hætti en til Vals.

Það dróst hins vegar árum saman að færa eign­irnar yfir í Hlíð­ar­enda ses og það var ekki fyrr en á árinu 2017 sem raun­veru­legur skriður komst á mál­ið. Þá var gert þrí­hliða sam­komu­lag milli stofn­un­ar­in­ar, Vals­manna hf. og Knatt­spyrnu­fé­lags­ins Vals.

Í maí 2018 var samið um end­an­legt upp­gjör skuld­ar­innar við Vals­menn hf. með yfir­töku Hlíð­ar­enda ses á hluta af eignum Vals­manna hf.

Sumir Vals­menn vildu fá arð­inn til sín

Í milli­tíð­inni hafði hins vegar mikið gengið á. Til að sýna for­dæmi þá seldi hóp­ur­inn sem hafði sett milljón krónur hver inn í Vals­menn um ald­ar­mótin sína hluti í Vals­mönnum inn í Hlíð­ar­enda ses. Það var gert á geng­inu 5, en það gengi var ákveðið þannig að verð­gildi þeirra fjár­muna sem greiddir höfðu verið inn um ald­ar­mótin myndi halda sér. Þ.e. raun­virði pen­ing­anna sem menn fengu greitt til baka var það sama og þeir settu inn.

Lang­flestir hlut­hafar Vals­manna tóku þess­ari leið vel og seldu Hlíð­ar­enda ses. hluti sína á þessum for­send­um. Sjö hlut­hafar reynd­ust hins vegar vera á móti þess­ari ráð­stöfum og vildu fá mun hærra gengi, eða 15. Til að setja þá upp­hæð í sam­hengi þá hefði allir hóp­ur­inn sem greiddi inn 43 millj­ónir króna til Vals­manna í byrjun sam­tals fengið um 650 millj­ónir króna ef það gengi hefði verið sam­þykkt. Sá sem lagði til eina milljón króna hefði fengið 15 millj­ónir króna útgreidd­ar. Í for­svari fyrir hópnum voru Stefán B. Gunn­ars­son, fyrr­ver­andi hand­bolta­maður í Val, og end­ur­skoð­and­inn Guð­mundur Þ. Frí­manns­son.

Þessi hópur hafði enn fremur sam­band við fleiri hluta­hafa og fékk þá til liðs við sig. Saman gerðu þeir hlut­hafa­sam­komu­lag sem gat stillt stjórn og stjórn­endum Vals­manna upp við vegg. Hörð og til­finn­inga­rík átök urðu í kjöl­far­ið.

Á end­anum ákváðu „kjöl­festu­fjár­fest­arn­ir“ í Vals­mönn­um, sem þegar höfðu selt sinn hlut inn í sjálfs­eign­ar­stofn­un­ina án ágóða að höggva á þennan hnút og kaupa menn­ina sem vildu hærra verð út.

Vals­hjartað stofnað

Þann 18. sept­em­ber 2017 var haldin stofn­fundur nýs hluta­fé­lags sem fékk nafnið Vals­hjartað hf. Alls lögðu 39 manns í púkkið og söfn­uðu alls 45,5 millj­ónum króna. Þar á meðal voru Grímur Sæmund­sen, Helgi Magn­ús­son, Ólafur Gúst­afs­son, Brynjar Harð­ar­son, Karl Axels­son, Frið­rik Soph­us­son, Hall­dór Ein­ars­son (Hen­son), Jakob Sig­urðs­son, Þor­grímur Þrá­ins­son og félag sem Dagur Sig­urðs­son á ásamt bræðrum sínum og for­eldr­um.

Vals­hjartað tók auk þess lán og keypti á end­anum út óánægju­hóp­inn á um 100 millj­ónir króna.

Hin mikla uppbygging sem verið hefur á Hlíðarenda hefur leitt af sér að Valssamstæðan á milljarða króna í eignum.
Mynd: Bára Huld Beck.

Hópur Vals­manna hafði þannig fengið að hagn­ast veru­lega á við­skiptum sem áttu upp­haf­lega ein­ungis að vera til þess fallin að styðja við Val. Og hópur ann­arra Vals­manna hafði tekið á sig þá fjár­hags­legu byrði að stofna félag fyrir eigið fé og skuld­setja það, til að losna við hina óánægju. Mikil beiskja er til staðar vegna þessa.

Fimmti kafli: Vel­gengni og vel­megun

Staðan í dag er því þannig að þrátt fyrir miklar áskor­anir og erf­ið­leika hefur stofnun Vals­manna hf., og þær ákvarð­anir félags­ins að ráð­ast í fast­eigna­við­skipti á Hlíð­ar­enda, skilað því að Knatt­spyrnu­fé­lagið Valur er lang­rík­asta íþrótta­fé­lag á Íslandi.

Upp­hæð­irnar sem runnið hafa inn til Knatt­spyrnu­fé­lags­ins Vals frá styrkt­ar­fé­lögum á und­an­förnum árum hlaupa á hund­ruð millj­ónum króna alls og hafa gert Vals­mönnum kleift að vera annað hvort bestir eða á meðal þeirra bestu í öllum helstu hóp­í­þróttum beggja kynja hér­lend­is: knatt­spyrnu, hand­bolta og körfu­bolta.

Hægt hefur verið að semja við eft­ir­sótta leik­menn, borga þeim laun sem aðrir geta ekki keppt við og jafn­vel boðið hluta þeirra að búa í ein­hverjum þeirra íbúða sem Vals­sam­steypan á enn á Vals­svæð­inu. Þetta er bæði gert með fjár­munum sem runnið hafa til Vals vegna fjár­fest­inga á Hlíð­ar­enda­svæð­inu en auk þess hafa sumir mjög fjár­sterkir stuðn­ings­menn tekið að sér að greiða kostnað við valda, og dýra leik­menn, úr eigin vasa.

Þá hefur Valur getað fjár­fest í afreks­stefnu sem er lík­lega sú metn­að­ar­fyllsta á Íslandi, og dregur að leik­menn sem alist hafa upp í öðrum íþrótta­fé­lög­um. Hæfir þjálf­arar sækja í að vinna hjá Val vegna þess að aðstaðan hjá félag­inu er ein­stök, æfinga­tím­inn er boð­legri en víða ann­ars­staðar og Valur getur alltaf borgað laun á réttum tíma, sem er sann­ar­lega ekki eitt­hvað sem er raunin hjá mörgum öðrum íþrótta­fé­lög­um.

Stefna á að vera stór­veldi í öllum hóp­í­þróttum

Árang­ur­inn hefur ekki látið á sér standa og skýrasta birt­ing­ar­mynd þess er karla­lið félags­ins í knatt­spyrnu sem hefur unnið fjóra titla á fjórum árum, þar á meðal Íslands­meist­ara­tit­ill­inn síð­ustu tvö ár. Þótt hökt hafi verið á gengi liðs­ins í fyrstu umferð­unum í ár blasir við að leik­manna­hóp­ur­inn sem var settur saman er þess eðlis að stefnt var að árangri í Evr­ópu­keppni, auk sig­urs í öllum inn­lendum keppn­um. Jafn aug­ljóst er á kvenna­liði Vals í knatt­spyrnu, sem er þétt­skipað risa­nöfn­um, að það stefnir á að vinna allt sem um er keppt í sum­ar.

Karlalið Vals í knattspyrnu varð Íslandsmeistari árin 2017 og 2018.
Mynd: Skjáskot/RÚV

Karla- og kvenna­lið Vals hafa landað stórum titl­um, bæði Íslands- og bik­ar­meist­aratitl­um, á und­an­förnum árum og í ár varð kvenna­lið Vals Íslands-, Bik­ar- og Deild­ar­meist­ari í körfu­bolta með Hel­enu Sverr­is­dótt­ur, bestu körfu­bolta­konu lands­ins, í far­ar­broddi. Karla­lið Vals í körfu­bolta hélt sæti sínu í efstu deild og við­mæl­endur Kjarn­ans sem þekkja vel til í körfu­bolta­heim­inum búast við að liðið styrki sig veru­lega fyrir næsta tíma­bil til að keppa ofar í deild­inni.

Millj­arða­eignir

Sjálfs­eigna­stofn­unin Hlíð­ar­endi, sem hefur tekið við hlut­verki Vals­manna hf., á að geta stutt gríð­ar­lega vel við bakið á félag­inu í fram­tíð­inni ef haldið er vel á spil­un­um. Stofn­unin átti, sam­kvæmt árs­reikn­ingi, 68,5 pró­sent hlut í Vals­mönnum og áður­nefnt Vals­hjarta 10,7 pró­sent hlut í því félagi í árs­lok 2017. Eign­ar­hlutur Hlíð­ar­enda ses hefur auk­ist síðan þá enda hafa fleiri útistand­andi hlut­hafar Vals­manna selt sinn hlut. Það sem eftir stendur er að mestu minni hlut­ir, og virði hvers telst í tugum þús­unda. Mikil handa­vinna fylgir því að gera þá alla upp og ekki hefur verið lagt í hana. Eignir Hlíð­ar­enda ses voru bók­færðar á 1,6 millj­arð króna í árs­lok 2017 og eigið fé stofn­un­ar­innar var 1,3 millj­arður króna. Eignir Vals­manna hf. voru á sama tíma bók­færðar á 2,5 millj­arða króna og eigið fé félags­ins var þá sam­tals 722 millj­ónir króna. Þá eiga Vals­menn helm­ings­hlut í hlut­deild­ar­fé­lag­inu Hlíð­ar­fæti, en hinn helm­ing­ur­inn var seldur til fjár­festa sem standa að félag­inu F-reitur ehf. á árinu 2017. Eignir Hlíð­ar­fóts voru metnar á 722 millj­ónir króna í árs­lok 2017 en félagið að fullu skuld­sett á móti.

Vals­menn hafa selt bygg­inga­rétti, byggt á Hlíð­ar­enda­svæð­inu, annað hvort sjálfir eða í sam­vinnu við aðra, hafa gert samn­inga við Reykja­vík­ur­borg sem tryggt hafa ótrú­lega upp­bygg­ingu mann­virkja á svæði Vals og sitja enn á bygg­inga­rétti sem á eftir að selja.

Heim­ild­ar­menn Kjarn­ans segja að virði þeirra heild­ar­eigna sem sitji eftir vegna alls þessa ævin­týris sé nú áætlað um fimm millj­arðar króna. Á móti þeim eru þó ein­hverjar skuld­ir. Það er ágætis ávöxtun á þeim 43 millj­ónum króna sem greiddar voru inn í byrj­un.

Um leið hafa Vals­menn líka skilað ýmsu til baka til sam­fé­lags­ins. Félagið greiddi Reykja­vík­ur­borg háar fjár­hæðir fyrir bygg­ing­ar­rétt­inn á sínum tíma og hefur auk þess greitt um 400 millj­ónir króna í skatta á síð­ustu árum.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar