Mynd: Bára Huld Beck

Sagan af því hvernig Valur varð ríkasta íþróttafélag á Íslandi

Knattspyrnufélagið Valur er ríkasta íþróttafélag á Íslandi. Sú staða gerir Val kleift að bjóða upp á aðstöðu, aðstæður og launagreiðslur sem önnur íþróttafélög geta illa eða ekki keppt við. Niðurstaðan er sú að Valur er í fremstu röð á öllum vígstöðum helstu hópíþrótta á Íslandi hjá báðum kynjum og hirðir hvern titilinn á fætur öðrum.

Sagan á bak­við hinn mikla upp­gang Vals er stór og mik­il. Hún teygir sig aftur fyrir síð­ustu ald­ar­mót og felur í sér margar hraða­hindr­anir og allskyns átök, bæði inn­an­búðar meðal Vals­manna og við aðra sem vildu standa í vegi fyrir veg­ferð­inni af ýmsum ástæð­um. Hér verður öll þessi saga rak­in.

Fyrsti kafli: Aðdrag­and­inn

Á árunum 1990-1992 hafði karla­lið Vals í knatt­spyrnu unnið þrjá bik­ar­meist­aratitla í röð og tekið þátt í Evr­ópu­keppni. Hand­boltalið Vals var líka það besta á Íslandi á tíunda ára­tugnum og vann hvern Íslands­meistar­tit­il­inn á fætur öðr­um. Sögu­lega var félagið stór­veldi.

En fjár­hagur Vals var í mol­um. Skuldir söfn­uð­ust upp ár frá ári og voru að sliga allan rekst­ur.

Knatt­spyrnu­deildin var í verstum mál­um, enda fjár­frek­ust. Sú staða fór að end­ur­spegl­ast í frammi­stöð­unni á vell­inum og árið 1999 náði þetta nið­ur­læg­ing­ar­skeið félags­ins full­komnun þegar Valur féll úr efstu deild knatt­spyrnu karla í fyrsta sinn í sögu sinni.

Það sem gerði fallið enn verra var að Íslands­meist­ara­tit­ill­inn það árið fór til stór­veldis þess tíma, nágranna Vals úr vest­urbæ Reykja­vík­ur, KR.

Ári áður hafði KR gert eitt­hvað sem var ekki þekkt í íslenskum íþrótta­heimi. Nokkrir gall­harðir stuðn­ings­menn stofn­uðu eign­ar­halds­fé­lagið KR-­sport sem hafði þann til­gang að styðja við rekstur knatt­spyrnu­deildar KR, og í raun taka yfir rekstur henn­ar. Skráðir stofn­endur voru tveir, Björgólfur Guð­munds­son og Haukur Gunn­ars­son.

Inn í félagið var greitt hlutafé sem síðan átti að vera hægt að ávaxta og nota ágóð­ann af því til að styrkja fjár­hags­lega rekstur knatt­spyrnu­liðs KR. Á meðal fjár­fest­inga sem KR-­sport réðst í var að kaupa þrjá veit­inga­staði á Eiðis­torgi: Rauða ljón­ið, Kon­íaks­stof­una og Sex Baujuna. Lík­ast til má deila um ágæti þeirrar fjár­fest­ing­ar.

Ýmsir harðir stuðn­ings­menn Vals, sem áttu fjár­muni og fullt af vilja til að gera vel fyrir félagið sitt, horfðu til þess að KR-­leiðin gæti verið leið sem nýst gæti þeim.

Á annan tug kjöl­festu­fjár­festa

Í byrjun des­em­ber 1999 var félagið Vals­menn hf. stofnað til að „vera sjálf­stæður fjár­hags­legur bak­hjarl fyrir Knatt­spyrnu­fé­lagið Val“. Alls lögðu á annan tug ein­stak­linga fram eina milljón króna í fyrstu. Þeir urðu svo­kall­aðir „kjö­festu­fjár­fest­ar“ í hinu nýja félagi. Á meðal þeirra sem til­heyrðu þeim hópi var margt þjóð­þekkt fólk. Helstu drif­kraft­arnir voru ann­ars vegar Grímur Sæmund­sen, fyrr­ver­andi leik­maður Vals og nú helsti eig­andi og stjórn­andi Bláa lóns­ins, og Helgi Magn­ús­son, stór­tækur fjár­festir sem um ára­bil var einnig stjórn­ar­for­maður Líf­eyr­is­sjóðs verzl­un­ar­manna. Á meðal ann­arra sem lögðu fram milljón krónur voru Guðni Bergs­son, ein ást­sæl­asti sonur Vals og þá enn atvinnu­maður í knatt­spyrnu, og fjöl­miðla­mað­ur­inn Ingvi Hrafn Jóns­son, sem á síð­ustu árum er best þekktur fyrir rekstur sjón­varps­stöðv­ar­innar sál­ugu ÍNN.

Grímur Sæmundsen, forstjóri og einn helsti eigandi Bláa lónsins, hefur leikið eitt af lykilhlutverkunum í þróun Vals síðustu áratugi.
Mynd: Hringbraut

Fleiri velunn­urum Vals var í kjöl­farið boðið að leggja til lægri fjár­hæð­ir. Alls söfn­uð­ust hluta­fjár­vil­yrði fyrir 50 millj­ónum króna og á end­anum inn­heimt­ust 43 millj­ónir króna af þeim. Flestir lögðu til mjög lágar upp­hæð­ir, um tíu þús­und krón­ur.

Í fyrstu stjórn Vals­manna hf. sátu Brynjar Harð­ar­son, fyrr­ver­andi hand­bolta­leik­maður hjá Val og íslenska lands­lið­inu sem var for­mað­ur, Helgi Magn­ús­son, Elías Her­geirs­son, Frið­rik Soph­us­son, fyrr­ver­andi ráð­herra og áhrifa­maður í stjórn­málum um ára­bil, Stefán Gunn­ars­son, Kjartan G. Gunn­ars­son og Örn Gúst­afs­son.

Fyrsti skráði fram­kvæmda­stjór­inn var lög­mað­ur­inn Brynjar Níels­son, síðar þing­maður Sjálf­stæð­is­flokks og mik­ill Vals­ari.

Brynjar Harð­ar­son tók þó fljót­lega við öllum rekstri félags­ins sem snérist um að fjár­festa hluta­féð. Það var meðal ann­ars gert með kaupum á stóru aug­lýs­inga­skilti sem sett var upp við Hlíð­ar­enda og kaupum á verð­bréf­um.

Þessi fyrstu ár var ávöxt­unin nokkrar millj­ónir króna á ári. Það var vissu­lega búbót fyrir skuldum hlaðið félag en var ekki að fara að umbylta rekstr­inum á Hlíð­ar­enda.

Áttu landið

Valur var í þeirri ein­stöku stöðu að eiga landið sem félagið stund­aði starf­semi sína, á Hlíð­ar­enda. Það hafði átt það frá því maí­mán­uði 1939. Það reynd­ist á end­anum mesta lukka Vals að hafa fest sér þetta land sem um 90 árum síðar varð eitt verð­mætasta bygg­ing­ar­land í höf­uð­borg lands­ins.

Vals­menn hf. höfðu áhuga á að nýta sér þessa ein­stöku stöðu til að styrkja Val og bæta aðstöðu félags­ins. Fyrsta skrefið sem stigið var til þess var að gera samn­ing við Reykja­vík­ur­borg hinn 11. maí 2002 um Hlíð­ar­enda­svæð­ið. Sam­kvæmt honum lét Valur hluta af erfða­festu­landi Vals undir umferð­ar­mann­virki sem tengd­ust m.a. legu nýju Hring­braut­ar­innar og stórt svæði sem átti að skipu­leggja sem lóðir með­fram Flug­vall­ar­vegi og Hlíð­ar­fæti. Sam­hliða var gerður lóða­leigu­samn­ingur um það svæði sem íþrótta­svæði Vals stendur á.

Á þessum tíma skuld­aði Valur um 200 millj­ónir króna og við blasti að umtals­verða fjár­muni þurfti til að fjár­festa í bættri aðstöðu á svæði félags­ins. Samn­ing­ur­inn sem gerður var við Reykja­vík­ur­borg var metin á tæpan einn millj­arð króna. Þá fjár­muni átti að fá með því að selja bygg­inga­rétt af lóð­unum sem Valur lét frá sér í sam­komu­lag­inu og við­bót­ar­lóðum sem Reykja­vík átti við svæð­ið.

Fjár­mun­irnir áttu að not­ast ann­ars vegar til að greiða niður skuldir Vals og hins vegar að fjár­magna 780 milljón króna upp­bygg­ingu mann­virkja. Á meðal þess sem átti að byggja var íþrótta­hús með áfastri útistúku og aðal­leik­vangur við hlið þess. Mann­virki sem í dag eru ris­inn og bera nöfnin Origo-höll­inn og Origo-­völl­ur­inn.

Annar kafli: Fjár­fest­ingin og póli­tíski glund­roð­inn

Sér­stök bygg­inga­nefnd Reykja­vík­ur­borgar og Vals sá um sölu bygg­inga­rétt­ar­ins. Hún gerði samn­ing við kaup­anda af honum hinn 11. maí 2005. Kaup­and­inn var Vals­menn hf. og kaup­verðið var 485 millj­ónir króna ásamt kaup­rétti á bygg­inga- og lóða­rétt­indum fyrir 385 millj­ónir króna. Auk þess átti kaup­and­inn að greiða gatna­gerð­ar­gjöld. Heild­ar­verðið var því um 900 millj­ónir króna.

Valur skuldaði um 200 milljónir króna snemma á þessari öld og fáir sýnilegir valkostir voru út úr stöðunni.
Mynd: Bára Huld Beck

Vals­menn greiddu um 400 millj­ónir króna út til hinnar sam­eig­in­legu bygg­inga­nefndar og restin átti að greið­ast þegar lóða­leigu­samn­ingar væru til­bún­ir. Fjár­mun­irnir nýtt­ust til að greiða niður alla skuldir Vals og sem eig­in­fjár­fram­lag inn í bygg­ingu íþrótta­mann­virkja.

En hvernig gat félag stuðn­ings­manna Vals, sem hafði safnað undir 50 millj­ónum króna í hluta­fé, greitt mörg hund­ruð millj­ónir króna fyrir bygg­inga­rétt? Það gat það með sama hætti og flestir aðrir sem létu hluti ger­ast á þessum árum gerðu það, með því að fá fjár­mun­ina að láni.

Frjálsi fjár­fest­inga­bank­inn, sem síðar fór á hausinn, sá um að lána fjár­mun­ina.

Fyr­ir­komu­lagið var auð­vitað áhættu­samt og ljóst að Vals­menn, sem höfðu þarna skuld­sett sig veru­lega, þurftu að hafa tekjur af því fljót­lega ef ekki ætti illa að fara. Upp­haf­lega stóð til að fram­kvæmdir myndu hefj­ast þá strax um haustið 2005 en í sept­em­ber það ár bað þáver­andi skipu­lags­ráð Reykja­víkur Vals­menn um að hinkra aðeins. Fyrir dyrum væri sam­keppni um skipu­lag Vatns­mýri og vilji væri fyrir því að Hlíð­ar­enda­svæðið yrði hluti af því deiliskipu­lagi sem smíðað yrði í kjöl­far henn­ar.

Vals­menn sam­þykktu að fresta fram­kvæmdum til allt að loka árs 2007 gegn því að fá aukin bygg­inga­rétt á Hlíð­ar­enda­svæð­inu og gegn lof­orði Reykja­vík­ur­borgar um að félagið yrði ekki fyrir frek­ari fjár­hags­legum skaða vegna seink­unar á fram­kvæmdum og breyt­inga á skipu­lagi.

Sam­komu­lagið gerði að lokum ráð fyrir sér­stökum tafa­bót­um, tíu millj­ónum króna á mán­uði, ef tafir yrðu á lúkn­ingu deiliskipu­lags og frá­gangi lóð­ar­leigu­samn­inga umfram 15. júlí 2007.

Póli­tískur stóla­leikur hindrar fram­gang

Á versta mögu­lega tíma fyrir Vals­menn varð hins vegar póli­tískur glund­roði í borg­ar­stjórn Reykja­víkur næstu miss­er­in. Eftir borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­arnar 2006 lauk tólf ára valda­tíma R-list­ans og Sjálf­stæð­is­menn tóku við ásamt Birni Inga Hrafns­syni, sem þá var stjórn­mála­maður í Fram­sókn­ar­flokkn­um. Vil­hjálmur Þ. Vil­hjálms­son var gerður að borg­ar­stjóra og sat sem slíkur í rúmt ár, eða fram í októ­ber 2007 þegar meiri­hlut­inn sprakk vegna REI-­máls­ins.

Fjórir borgarstjórar voru í Reykjavík á innan við einu ári. Ólafur F. Magnússon var einn þeirra, en hann sat þó einungis í nokkra mánuði.
Mynd: Skjáskot

Við tók meiri­hluti Sam­fylk­ing­ar, Vinstri grænna, Fram­sóknar og Frjáls­lynda flokks­ins og óháðra með Dag B. Egg­erts­son sem borg­ar­stjóra. Að 100 dögum liðnum ákvað Ólafur F. Magn­ús­son, borg­ar­full­trúi Frjáls­lynda flokks­ins og óháðra, að slíta þeim meiri­hluta og mynda nýjan með Sjálf­stæð­is­flokki gegn því að verða sjálfur borg­ar­stjóri. Sá meiri­hluti lifði í tæpa fimm mán­uði þangað til að Óskar Bergs­son, sem hafði tekið við borg­ar­full­trúa­sæti Björns Inga, mynd­aði nýjan meiri­hluta með Sjálf­stæð­is­flokki og Hanna Birna Krist­jáns­dóttir varð borg­ar­stjóri síð­ustu tæpu tvö ár kjör­tíma­bils­ins.

Allt þetta gerði Vals­mönnum afar erfitt fyr­ir. Glund­roð­inn, og mis­mun­andi afstaða hvers meiri­hluta fyrir sig gagn­vart upp­bygg­ingu í Vatns­mýri, gerði það að verkum að tafir urðu á end­an­legu deiliskipu­lagi Hlíð­ar­enda­svæð­is, sem leiddu til tafa á upp­bygg­ingu íþrótta­að­stöðu á Hlíð­ar­enda og til þess að ekki var hægt að hefja fram­kvæmdir á lóðum Vals­manna hf. eins og ráð­gert hafði ver­ið.

Sum­arið 2008 var staða Vals­manna hf. orðin nokkuð svört. Ekk­ert bólaði á deiliskipu­lagi og félagið gat ekki þjón­u­stað skuldir sín­ar. Dag­inn áður en að Ólafur F. Magn­ús­son var lát­inn hætta sem borg­ar­stjóri, þann 20. ágúst 2008, gerði borgin nýjan samn­ing við Vals og Vals­menn um að taka á sig allskyns kostnað vegna fram­kvæmda á Hlíð­ar­enda­svæð­inu og greiða Vals­mönnum hf. alls 120 milj­ónir króna í tveimur greiðsl­um.

Enn fremur var kveðið á um að breyt­ingum á deiliskipu­lagi og útgáfu nýrra lóð­ar­leigu­samn­inga skyldi lokið eigi síðar en 31. októ­ber 2009. Fram til þess að lóð­ar­leigu­samn­ingar hefðu verið gefnir út skyldi Reykja­vík­ur­borg greiða tafa­bætur og Vals­menn hf. skyldu end­ur­greiða Reykja­vík­ur­borg yfir­teknar og útlagðar fjár­hæðir í tveimur greiðsl­um, sex og tólf mán­uðum eftir útgáfu lóð­ar­leigu­samn­inga.

Svo kom hrun.

Þriðji kafli: Hrunið og neyð­ar­brautin

Þegar ósköpin dundu yfir íslenska þjóð haustið 2008 voru lán Vals­manna hf. við Frjálsa fjár­fest­inga­bank­ann í erlendum gjald­miðl­um. Til að bæta gráu ofan á svart end­uðu leif­arnar af Frjálsa fjár­fest­inga­bank­anum inni í hinum alræmda Dróma, sem gerði þær upp ásamt eft­ir­stand­andi búi SPRON. Drómi hafði orð á sér fyrir að vera það slitabú sem erf­ið­ast var í öllum við­ræð­um. Fyrir því fengu Vals­menn að finna.

Í árs­lok 2009 voru skuldir Vals­manna hf. sam­kvæmt árs­reikn­ingi bók­færðar á 2,9 millj­arða króna. Ekk­ert bólaði á fram­kvæmdum á Hlíð­ar­enda­svæð­inu sem áttu að not­ast til að greiða þessar skuldir og síðan að styrkja rekstur Vals.

Það sem hélt lífi í félag­inu var að Reykja­vík­ur­borg greiddi taf­ar­bæt­ur. Í lok árs 2010 hafði borgin alls greitt 470 millj­ónir króna til Vals­manna en tók þá ein­hliða ákvörðun um að borga ekki meira. Á þeim tíma tók enda nýtt deiliskipu­lag gildi í borg­inni sem náði yfir bygg­ing­ar­svæði Vals­manna. Deilur félags­ins við Dróma gerðu það hin vegar að verkum að ekki var hægt að gefa út lóða­leigu­samn­inga.

Þessi patt­staða stóð meira og minna fram á árið 2013. Þá náð­ist, með aðkomu nokk­urra lyk­il­manna úr hlut­hafa­hópi Vals­manna hf., að fá rík­is­bank­ann Lands­bank­ann til að lána félag­inu sam­tals 1.125 millj­ónir króna til að gera loka­upp­gjör við Dróma. Sam­hliða var veði lyft af lóðum á Hlíð­ar­enda­svæð­inu og hægt var að gefa út lóða­leigu­samn­inga.

Það sumar var svo samið við Reykja­vík­ur­borg um loka­greiðslu vegna sam­komu­lags­ins sem gert var 2005 upp á 385 millj­ónir króna í fjórum jöfnum greiðslum sam­hliða útgáfu bygg­inga­leyfis á hverri af fjórum bygg­ing­ar­lóðum félags. Borgin féll frá verð­bótum sem safn­ast höfðu upp og Vals­menn féllu frá frek­ari kröfum um taf­ar­bætur með drátt­ar­vöxt­um.

Vals­menn héldu að þeir væru komnir á græna grein. Þeir hófust handa við að skipu­leggja upp­bygg­ingu Hlíð­ar­enda­svæð­is­ins og væntu þess að nýtt deiliskipu­lag sem heim­il­aði þá upp­bygg­ingu myndi falla til þá og þeg­ar. Um 600 íbúða upp­bygg­ing var í píp­unum auk atvinnu­hús­næð­is.

Þá birt­ist enn ein hindr­un­in: Hjartað í Vatns­mýr­inni og aðrir vinir Reykja­vík­ur­flug­vall­ar.

Hjartað í Vatns­mýr­inni

Til þess að fram­kvæmd­irnar gætu haf­ist þurfti að loka flug­­braut 06/24 á Reykja­vík­­­ur­flug­velli, sem heitir einnig norð­austur suð­vest­­ur­-braut og hefur á liðn­­um árum iðu­­lega verið nefnd neyð­­ar­braut í opin­berri umræð­u.

Hin svokallaða neyðarbraut.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Fyr­ir­hugað hafði verið árum saman að loka braut­inni.

Árið 2005 und­ir­­rit­uðu þá­ver­andi borg­­ar­­stjóri Stein­unn Val­­dís Ósk­­ar­s­dóttir og þáver­andi sam­­göng­u­ráð­herra Sturla Böðv­­­ar­s­­son sam­komu­lag um sam­­göng­u­mið­­stöð sem rísa skyldi í Vatns­­­mýr­inni. Hún átti að rísa þar sem braut 06/24 er. Árið 2009 und­ir­­rit­uðu Krist­ján L. Möll­er, þá­ver­andi sam­­göng­u­ráð­herra, og Hanna Birna Krist­jáns­dótt­ir, þáver­and­i ­borg­­ar­­stjóri, sam­komu­lag um að brautin ætti að loka, en þó var sá fyr­ir­vari á því sam­komu­lagi að það myndi rísa sam­­göng­u­mið­­stöð við enda brautar 06/24.  

Í októ­ber 2013 und­ir­­rit­aði Hanna Birna, þá inn­­an­­rík­­is­ráð­herra, og Jón Gnarr, þáver­andi borg­­ar­­stjóri, sam­­þykkt um að ljúka vinnu við end­­ur­­skoðun á deiliskipu­lagi fyrir Reykja­vík­­­ur­flug­­völl. Þeg­ar því yrði lokið átti að til­­kynna um lokun braut­­ar­inn­­ar. Í des­em­ber 2013 óskað­i inn­­an­­rík­­is­ráðu­­neytið eftir því að und­ir­­bún­­ingur yrði hafin að lokun flug­­braut­­ar­inn­­ar.

Árið 2015 var neyð­ar­brautin hins vegar enn opin. Þótt jarð­vinna hefði getað haf­ist á Hlíð­ar­enda­svæð­inu neit­aði Sam­göngu­stofa verk­tökum að koma fyrir bygg­ing­ar­krönum á svæð­inu og því var ekki hægt að hefja upp­bygg­ingu. Eina íbúða­bygg­ingin sem var risin var blokk sem Vals­menn byggðu sjálfir og eiga enn að stórum hluta.

Ljóst var að átök voru milli ríkis og borgar um málið og sam­tökin Hjartað í Vatns­mýr­inni, sem börð­ust gegn því að Reykja­vík­ur­flug­völlur verði fluttur börð­ust með mik­illi hörku gegn því að fram­kvæmdir Vals­manna yrðu að veru­leika. Umræðan fór fram á miklum til­finn­inga­nótum og því meðal ann­ars haldið fram að lífum yrði ógnað ef hin svo­kall­aða neyð­ar­braut myndi verða aflögð. Sam­tökin vildu að Alþingi myndi taka skipu­lags­valdið af borg­ar­yf­ir­völd­um, sem þau sögðu að færu gegn vilja meiri­hluta þjóð­ar­innar sem vildi hafa flug­völl áfram í Vatns­mýr­inni, og koma í veg fyrir óaft­ur­kræfar fram­kvæmdir Vals­manna. Þau söfn­uðu meðal ann­ars tæp­lega 70 þús­und und­ir­skriftum þeirra sem kröfð­ust þess að flug­völl­ur­inn yrði áfram í Vatns­mýr­inni.

Flug­brautin notuð sem víg­lína

Dagur B. Egg­erts­son borg­ar­stjóri sagði í fréttum Stöðvar 2 í nóv­em­ber 2015 að ríkið væri ekki að standa við sinn hluta ­samn­ings varð­andi Rekyja­vík­­­ur­flug­­völl og skipu­lag í Vatns­­­mýr­inni. Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, þáver­andi for­sæt­is­ráð­herra, hafði nokkru áður sagt í ræðu á flokks­þingi Fram­sóknar að öllum ætti að vera það „ljóst að grípa þarf til varna fyrir Reykja­vík­­­ur­flug­­völl og koma í veg fyrir að borg­­ar­yf­­ir­völd grafi stöðugt undan flug­­vell­inum og beiti brögðum til að losna við hann.“

Brynjar Harð­ar­son, fram­kvæmda­stjóri Vals­manna, hélt erindi á opnum fundi um upp­bygg­ingu íbúð­ar­hús­næðis síðla árs 2015. Þar var hann harð­orður um stöð­una sem var uppi. „Þessi flug­­braut er notuð sem víg­lína í deilu um til­­vist Reykja­vík­­­ur­flug­vall­­ar. Rang­túlk­­anir um ­mik­il­vægi henn­­ar, hvort sem er fyrir völl­inn í heild sinni, sjúkra­flug eða rang­­nefni eins og að kalla braut­ina neyð­­ar­braut hefur verið end­­ur­­tekið efni í fjöl­miðlum lands­­manna.

Þessar deilur stefna nú upp­­hafi bygg­inga­fram­­kvæmda á Hlíð­­ar­end­­areit í óvissu með til­­heyr­andi skaða fyrir fjölda aðila. Stað­­reynd­in er sú að Hlíð­­ar­end­­areitur getur og mun byggj­­ast upp í sátt við Reykja­vík­­­ur­flug­­völl. Það er ennþá tími til að snúa mál­inu á rétta braut og ­forða mála­­ferlum með til­­heyr­andi fjá­hags­skaða fyrir lóð­­ar­eig­end­­ur, verk­taka, ­fjölda hönn­uða og Reykja­vík­­­ur­­borg. En ekki síst fyrir ungt fólk á höf­uð­­borg­­ar­­svæð­inu sem fær ekki rúm­­lega 400 litlar íbúðir inn á íbúða­­mark­að­inn verði þessi deila ekki leyst. Og loks fyrir rík­­is­­sjóð því það er hann sem mun þurfa að bera skaða­­bóta­á­­byrgð­ina af því að hafa skor­­ast undan því að standa við und­ir­­rit­aða samn­inga.“

Dóm­stólar útkljá málið

Það var í höndum inn­an­rík­is­ráð­herra að taka ákvörðun um að loka hinni svoköll­uðu neyð­ar­braut sam­kvæmt bind­andi lof­orði um slíkt sem Hanna Birna Krist­jáns­dótt­ir, þáver­andi inn­an­rík­is­ráð­herra, og Jón Gnarr, þáver­andi borg­ar­stjóri, und­ir­rit­uðu 25. októ­ber 2013.

Hanna Birna tók hins vegar ekki þá ákvörðun á meðan að hún sat í ráð­herra­stólnum og eftir að hún sagði af sér vegna Leka­máls­ins ákvað Reykja­vík­ur­borg, með stuðn­ingi Vals­manna, að stefna rík­inu til að láta það efna sam­komu­lag­ið.

Hér­aðs­dómur dæmdi í mál­inu í mars 2016 og komst að þeirri nið­ur­stöðu að loka ætti neyð­ar­braut­inni. Hæsti­réttur Íslands stað­festi þann dóm í júní sama ár og flug­braut­inni var lokað nokkrum vikum síð­ar.

Vals­menn gátu lokst haf­ist handa við að selja bygg­inga­rétti á Hlíð­ar­enda­land­inu og fram­kvæmdir við að byggja allt að 700 íbúðir á reitum í hinu nýja hverfi. Fyrstu íbúð­irnar fóru í sölu fyrir um ári síðan og hverfið er hratt að taka á sig mynd. Það verður ekki aftur snúið með upp­bygg­ingu þess úr þessu.

Fjórði kafli: Borg­ara­stríð í Val

Þegar Vals­menn hf. urðu til var sam­komu­lag milli þeirra stuðn­ings­manna félags­ins sem stóðu að fram­kvæmd­inni og lögðu til hlutafé að þeim pen­ingum sem félagið myndi eign­ast yrði aldrei eytt. Þ.e. að það yrði aldrei gengið á höf­uð­stól­inn þótt hann myndi vaxa, heldur ætti að ávaxta hann og nota ávinn­ing­inn af því til að styrkja starf­semi Vals. Eng­inn ein­stak­lingur átti að græða á þessu, heldur ein­ungis Knatt­spyrnu­fé­lagið Val­ur.

Upphaflega áttu Valsmenn að snúast um að styrkja Val. Síðar vildi hluti þeirra hagnast persónulega á fjárfestingum félagsins.
Mynd: Bára Huld Beck.

Síðla árs 2013 var stofnuð sjálfs­eign­ar­stofn­un, Hlíð­ar­endi ses, af Knatt­spyrnu­fé­lag­inu Val. Mark­mið hennar var að halda utan um, byggja upp, varð­veita og við­halda þeim eignum og rétt­indum sem orðið höfðu til í stóra Vals-­meng­inu árin á undan í þágu vaxtar og við­gangs Knatt­spyrnu­fé­lags­ins Vals.

Hug­myndin var sem­sagt að koma eign­ar­haldi á öllum mann­virkjum Vals og þeim eign­um, bæði óbyggðum reitum og fjár­mun­um, sem safn­ast höfðu saman í Vals­mönnum inn í sjálfs­eign­ar­stofn­un­ina, og út úr hluta­fé­laga­fyr­ir­komu­lag­inu. Þá gæti eng­inn reynt, nokkru sinni, að ráð­stafa þessu fé með öðrum hætti en til Vals.

Það dróst hins vegar árum saman að færa eign­irnar yfir í Hlíð­ar­enda ses og það var ekki fyrr en á árinu 2017 sem raun­veru­legur skriður komst á mál­ið. Þá var gert þrí­hliða sam­komu­lag milli stofn­un­ar­in­ar, Vals­manna hf. og Knatt­spyrnu­fé­lags­ins Vals.

Í maí 2018 var samið um end­an­legt upp­gjör skuld­ar­innar við Vals­menn hf. með yfir­töku Hlíð­ar­enda ses á hluta af eignum Vals­manna hf.

Sumir Vals­menn vildu fá arð­inn til sín

Í milli­tíð­inni hafði hins vegar mikið gengið á. Til að sýna for­dæmi þá seldi hóp­ur­inn sem hafði sett milljón krónur hver inn í Vals­menn um ald­ar­mótin sína hluti í Vals­mönnum inn í Hlíð­ar­enda ses. Það var gert á geng­inu 5, en það gengi var ákveðið þannig að verð­gildi þeirra fjár­muna sem greiddir höfðu verið inn um ald­ar­mótin myndi halda sér. Þ.e. raun­virði pen­ing­anna sem menn fengu greitt til baka var það sama og þeir settu inn.

Lang­flestir hlut­hafar Vals­manna tóku þess­ari leið vel og seldu Hlíð­ar­enda ses. hluti sína á þessum for­send­um. Sjö hlut­hafar reynd­ust hins vegar vera á móti þess­ari ráð­stöfum og vildu fá mun hærra gengi, eða 15. Til að setja þá upp­hæð í sam­hengi þá hefði allir hóp­ur­inn sem greiddi inn 43 millj­ónir króna til Vals­manna í byrjun sam­tals fengið um 650 millj­ónir króna ef það gengi hefði verið sam­þykkt. Sá sem lagði til eina milljón króna hefði fengið 15 millj­ónir króna útgreidd­ar. Í for­svari fyrir hópnum voru Stefán B. Gunn­ars­son, fyrr­ver­andi hand­bolta­maður í Val, og end­ur­skoð­and­inn Guð­mundur Þ. Frí­manns­son.

Þessi hópur hafði enn fremur sam­band við fleiri hluta­hafa og fékk þá til liðs við sig. Saman gerðu þeir hlut­hafa­sam­komu­lag sem gat stillt stjórn og stjórn­endum Vals­manna upp við vegg. Hörð og til­finn­inga­rík átök urðu í kjöl­far­ið.

Á end­anum ákváðu „kjöl­festu­fjár­fest­arn­ir“ í Vals­mönn­um, sem þegar höfðu selt sinn hlut inn í sjálfs­eign­ar­stofn­un­ina án ágóða að höggva á þennan hnút og kaupa menn­ina sem vildu hærra verð út.

Vals­hjartað stofnað

Þann 18. sept­em­ber 2017 var haldin stofn­fundur nýs hluta­fé­lags sem fékk nafnið Vals­hjartað hf. Alls lögðu 39 manns í púkkið og söfn­uðu alls 45,5 millj­ónum króna. Þar á meðal voru Grímur Sæmund­sen, Helgi Magn­ús­son, Ólafur Gúst­afs­son, Brynjar Harð­ar­son, Karl Axels­son, Frið­rik Soph­us­son, Hall­dór Ein­ars­son (Hen­son), Jakob Sig­urðs­son, Þor­grímur Þrá­ins­son og félag sem Dagur Sig­urðs­son á ásamt bræðrum sínum og for­eldr­um.

Vals­hjartað tók auk þess lán og keypti á end­anum út óánægju­hóp­inn á um 100 millj­ónir króna.

Hin mikla uppbygging sem verið hefur á Hlíðarenda hefur leitt af sér að Valssamstæðan á milljarða króna í eignum.
Mynd: Bára Huld Beck.

Hópur Vals­manna hafði þannig fengið að hagn­ast veru­lega á við­skiptum sem áttu upp­haf­lega ein­ungis að vera til þess fallin að styðja við Val. Og hópur ann­arra Vals­manna hafði tekið á sig þá fjár­hags­legu byrði að stofna félag fyrir eigið fé og skuld­setja það, til að losna við hina óánægju. Mikil beiskja er til staðar vegna þessa.

Fimmti kafli: Vel­gengni og vel­megun

Staðan í dag er því þannig að þrátt fyrir miklar áskor­anir og erf­ið­leika hefur stofnun Vals­manna hf., og þær ákvarð­anir félags­ins að ráð­ast í fast­eigna­við­skipti á Hlíð­ar­enda, skilað því að Knatt­spyrnu­fé­lagið Valur er lang­rík­asta íþrótta­fé­lag á Íslandi.

Upp­hæð­irnar sem runnið hafa inn til Knatt­spyrnu­fé­lags­ins Vals frá styrkt­ar­fé­lögum á und­an­förnum árum hlaupa á hund­ruð millj­ónum króna alls og hafa gert Vals­mönnum kleift að vera annað hvort bestir eða á meðal þeirra bestu í öllum helstu hóp­í­þróttum beggja kynja hér­lend­is: knatt­spyrnu, hand­bolta og körfu­bolta.

Hægt hefur verið að semja við eft­ir­sótta leik­menn, borga þeim laun sem aðrir geta ekki keppt við og jafn­vel boðið hluta þeirra að búa í ein­hverjum þeirra íbúða sem Vals­sam­steypan á enn á Vals­svæð­inu. Þetta er bæði gert með fjár­munum sem runnið hafa til Vals vegna fjár­fest­inga á Hlíð­ar­enda­svæð­inu en auk þess hafa sumir mjög fjár­sterkir stuðn­ings­menn tekið að sér að greiða kostnað við valda, og dýra leik­menn, úr eigin vasa.

Þá hefur Valur getað fjár­fest í afreks­stefnu sem er lík­lega sú metn­að­ar­fyllsta á Íslandi, og dregur að leik­menn sem alist hafa upp í öðrum íþrótta­fé­lög­um. Hæfir þjálf­arar sækja í að vinna hjá Val vegna þess að aðstaðan hjá félag­inu er ein­stök, æfinga­tím­inn er boð­legri en víða ann­ars­staðar og Valur getur alltaf borgað laun á réttum tíma, sem er sann­ar­lega ekki eitt­hvað sem er raunin hjá mörgum öðrum íþrótta­fé­lög­um.

Stefna á að vera stór­veldi í öllum hóp­í­þróttum

Árang­ur­inn hefur ekki látið á sér standa og skýrasta birt­ing­ar­mynd þess er karla­lið félags­ins í knatt­spyrnu sem hefur unnið fjóra titla á fjórum árum, þar á meðal Íslands­meist­ara­tit­ill­inn síð­ustu tvö ár. Þótt hökt hafi verið á gengi liðs­ins í fyrstu umferð­unum í ár blasir við að leik­manna­hóp­ur­inn sem var settur saman er þess eðlis að stefnt var að árangri í Evr­ópu­keppni, auk sig­urs í öllum inn­lendum keppn­um. Jafn aug­ljóst er á kvenna­liði Vals í knatt­spyrnu, sem er þétt­skipað risa­nöfn­um, að það stefnir á að vinna allt sem um er keppt í sum­ar.

Karlalið Vals í knattspyrnu varð Íslandsmeistari árin 2017 og 2018.
Mynd: Skjáskot/RÚV

Karla- og kvenna­lið Vals hafa landað stórum titl­um, bæði Íslands- og bik­ar­meist­aratitl­um, á und­an­förnum árum og í ár varð kvenna­lið Vals Íslands-, Bik­ar- og Deild­ar­meist­ari í körfu­bolta með Hel­enu Sverr­is­dótt­ur, bestu körfu­bolta­konu lands­ins, í far­ar­broddi. Karla­lið Vals í körfu­bolta hélt sæti sínu í efstu deild og við­mæl­endur Kjarn­ans sem þekkja vel til í körfu­bolta­heim­inum búast við að liðið styrki sig veru­lega fyrir næsta tíma­bil til að keppa ofar í deild­inni.

Millj­arða­eignir

Sjálfs­eigna­stofn­unin Hlíð­ar­endi, sem hefur tekið við hlut­verki Vals­manna hf., á að geta stutt gríð­ar­lega vel við bakið á félag­inu í fram­tíð­inni ef haldið er vel á spil­un­um. Stofn­unin átti, sam­kvæmt árs­reikn­ingi, 68,5 pró­sent hlut í Vals­mönnum og áður­nefnt Vals­hjarta 10,7 pró­sent hlut í því félagi í árs­lok 2017. Eign­ar­hlutur Hlíð­ar­enda ses hefur auk­ist síðan þá enda hafa fleiri útistand­andi hlut­hafar Vals­manna selt sinn hlut. Það sem eftir stendur er að mestu minni hlut­ir, og virði hvers telst í tugum þús­unda. Mikil handa­vinna fylgir því að gera þá alla upp og ekki hefur verið lagt í hana. Eignir Hlíð­ar­enda ses voru bók­færðar á 1,6 millj­arð króna í árs­lok 2017 og eigið fé stofn­un­ar­innar var 1,3 millj­arður króna. Eignir Vals­manna hf. voru á sama tíma bók­færðar á 2,5 millj­arða króna og eigið fé félags­ins var þá sam­tals 722 millj­ónir króna. Þá eiga Vals­menn helm­ings­hlut í hlut­deild­ar­fé­lag­inu Hlíð­ar­fæti, en hinn helm­ing­ur­inn var seldur til fjár­festa sem standa að félag­inu F-reitur ehf. á árinu 2017. Eignir Hlíð­ar­fóts voru metnar á 722 millj­ónir króna í árs­lok 2017 en félagið að fullu skuld­sett á móti.

Vals­menn hafa selt bygg­inga­rétti, byggt á Hlíð­ar­enda­svæð­inu, annað hvort sjálfir eða í sam­vinnu við aðra, hafa gert samn­inga við Reykja­vík­ur­borg sem tryggt hafa ótrú­lega upp­bygg­ingu mann­virkja á svæði Vals og sitja enn á bygg­inga­rétti sem á eftir að selja.

Heim­ild­ar­menn Kjarn­ans segja að virði þeirra heild­ar­eigna sem sitji eftir vegna alls þessa ævin­týris sé nú áætlað um fimm millj­arðar króna. Á móti þeim eru þó ein­hverjar skuld­ir. Það er ágætis ávöxtun á þeim 43 millj­ónum króna sem greiddar voru inn í byrj­un.

Um leið hafa Vals­menn líka skilað ýmsu til baka til sam­fé­lags­ins. Félagið greiddi Reykja­vík­ur­borg háar fjár­hæðir fyrir bygg­ing­ar­rétt­inn á sínum tíma og hefur auk þess greitt um 400 millj­ónir króna í skatta á síð­ustu árum.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar