Ábatinn af útflutningi íslenskrar orku til annarra landa gæti verið verulegur, en til þess að hann sé vel heppnaður þarf sátt að ríkja um nýtingu orkunnar hérlendis og skiptingu ábatans af útflutningnum. Þetta skrifar Daði Már Kristófersson, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands og varaformaður Viðreisnar, í grein sinni í síðasta tölublaði Vísbendingar, sem kom út á föstudaginn.
Stærri markaður og betri nýting með útflutningi
Í grein sinni segir Daði Már að kostirnir við að flytja út raforku væru margþættir. Fyrir það fyrsta jykist verðmæti raforkuframleiðslunnar hérlendis, þar sem fleiri væru tilbúnir að greiða fyrir hana, en auk þess yrði nýting orkunnar mun betri en hún er þessa stundina.
Hann segir að lokuð raforkukerfi, líkt og það íslenska, þurfi að framleiða umframorku svo að nægilegt framboð verði tryggt fyrir ófyrirsjáanlegum sveiflum í eftirspurn. Með útflutningi væri þó hægt að selja þessa umframorku þegar hennar er ekki þörf innanlands.
Því til stuðnings bendir Daði á bætta nýtingu á raforku í Svíþjóð og Noregi, en bæði löndin reiða sig mikið á raforku sem framleidd er með vatnsafli, líkt og Ísland, og flytja út orkuna sína til annarra landa.
Grundvöllur fyrir aukna vind- og sólarorkuframleiðslu
Til viðbótar við stærri markað og betri nýtingu nefnir Daði einnig að útflutningur á vatnsafli geti búið til grundvöll fyrir aðra umhverfisvæna orkuframleiðslu.
Samkvæmt honum er gjarnan erfitt að reiða sig á ýmsum grænum orkugjöfum, líkt og vindorku og sólarorku, þar sem orkan er ekki alltaf til staðar og þegar hún er það er framleiðslugetan ósveigjanleg. Með meiri innflutningi á stöðugri og sveigjanlegri orku, líkt og vatnsaflsorku, væri hins vegar kominn grundvöllur fyrir framleiðslu slíkrar orku.
Daði segir innflutning Dana á norskri vatnsaflsorku hafi verið lykilforsenda fyrir uppbyggingu vindorku þar í landi, en án innflutningsins væru líklega færri vindmyllur í Danmörku.
Sátt um virkjanir og skiptingu ábatans nauðsynleg
Hins vegar bendir Daði á að ábatinn af útflutningi raforku færi eftir því hversu mikið yrði framleitt af henni hérlendis og að aukin framleiðsla fæli í sér rask og umhverfiskostnað. Samkvæmt honum þyrfti að meta þennan umhverfiskostnað með skipulegum hætti og bera hann saman við tekjumöguleikana sem nýjar virkjanaframkvæmdir fælu í sér. Hann segir núverandi mat á umhverfiskostnaði virkjana vera „óbeint og því miður of pólitískt.“
Daði segir að sátt þurfi að vera um þá orkunýtingu sem er æskileg ef flytja ætti raforkuna út. Til þess að ná þeirri sátt þurfi að setja í lög að mat á umhverfiskostnaði verði borinn saman við væntan hagnað á nýjum virkjunum.
Til viðbótar segir Daði að tryggja þurfi sátt um hvernig ábatanum af útflutningi orkunnar yrði skipt á milli landsmanna. Tryggja þurfi að neytendur, sem beri skarðan hlut frá borði vegna hærra raforkuverðs, fái hagnaðinn í sinn vasa. „Ekki má endurtaka mistökin sem gerð hafa verið í annarri auðlindanýtingu á Íslandi þar sem ábatinn fer til fárra,“ bætir hann við.
Hægt er að lesa grein Daða Más í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.