Knýja þarf fram breytingar í orkumálum af mun meiri krafti og ákefð en nokkru sinni áður, að mati Berglindar Ránar Ólafsdóttur, framkvæmdastýru Orku náttúrunnar. Samkvæmt henni ættu stjórnendur í samfélaginu í auknum mæli að hlusta á áhyggjur ungs fólks af loftslagsvánni, en breyttar lífsvenjur í kjölfar heimsfaraldursins hafi sýnt að hefðum, verklagi, og rótgrónum ferlum geti verið breytt á skömmum tíma án þess að heimurinn farist.
Þetta kemur fram í grein Berglindar Ránar í síðasta tölublaði Vísbendingar, sem birtist áskrifendum síðasta föstudag.
COVID sýndi hversu hraðar breytingar geta orðið
Í greininni segir hún að flestir stjórnendur fyrirtækja hefðu ekki talið það raunhæft að láta stóran hluta starfsfólks síns vinna heima hjá sér fyrir rúmu ári síðan. Eftir að heimsfaraldurinn skall á hafi þessar breytingar hins vegar átt sér stað með skjótum hætti.
„Þennan lærdóm þurfum við nú að nýta í þágu loftslagsmála,“ skrifar Berglind. „Græn orkuskipti og umbreyting samfélagsins í þágu umhverfismála krefjast mikilla og hraðra breytinga, en við vitum nú að þessar aðgerðir munu ekki valda okkur erfiðleikum, heldur þvert á móti efla okkur og styrkja.“
Virkja eldmóðinn með því að hlusta á unga fólkið
Samkvæmt Berglindi þarf eldmóð til að knýja fram breytingarnar. Hann mætti virkja með því að veita ungu fólki meira vægi í umræðunni, þar sem loftslagsbreytingarnar myndu fyrst og fremst bitna á því. Berglind skorar því stjórnendur fyrirtækjanna til að hlusta á unga fólkið: „Varðveitið þá tilfinningu sem þið upplifið við að hlusta á áhyggjur þess og notið hana til að setja loftslagsmálin inn í kjarna fyrirtækjanna sem þið stýrið eða eigið.“
Hringrásarhagkerfi
Berglind Rán segir hugmyndina um hringrásarhagkerfi vera rammann utan um nýjan hugsunarhátt í orkumálum. Draga þurfi úr framleiðslu og fullnýta þurfi þá orku sem framleidd er. Orkuskipti í samgöngum séu einnig mikilvæg, en innleiða þurfi sömu hugsun á öllum öðrum sviðum samfélagsins líka.