Utanríkisráðuneytið telur sér ekki fært að svara fyrirspurn Kjarnans um fjölda vegabréfa sem gefin hafa verið út á grunni reglugerðar sem var breytt í apríl. Í svari frá ráðuneytinu segir að ekki sé hægt að svara fyrirspurninni með vísan til 9. og 10. grein upplýsingalaga en greinarnar fjalla um takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna annars vegar og takmarkanir á upplýsingarétti vegna almannahagsmuna hins vegar.
Þann 26. apríl var í dómsmálaráðuneytinu samþykkt breyting á reglugerð nr. 560/2009 um íslensk vegabréf en tvær greinar bættust við reglugerðina í kjölfar breytingarinnar. Fyrri greinin veitir utanríkisráðherra heimild til að óska eftir að Útlendingastofnun gefi út vegabréf til útlendings ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.
Getur gilt í eitt ár
„Í því tilviki getur Útlendingastofnun veitt slíkt vegabréf til útlendings þótt viðkomandi uppfylli ekki kröfu 16. gr. um að hann sé löglega búsettur á Íslandi. Gildi vegabréfs fyrir útlending má binda við tiltekið svæði. Gildistími vegabréfs ræðst af þeim ástæðum sem gera útgáfu þess nauðsynlega en skal þó aldrei vera lengri en tólf mánuðir,“ segir í fyrri greininni sem bætt var við reglugerðina.
Sú síðari veitir utanríkisráðherra heimild til að fela sendiskrifstofum Íslands og kjörræðismönnum að gefa út neyðarvegabréf til útlendinga ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi og að fengnu samþykki útlendingastofnunar. Hámarksgildistími slíkra vegabréfa er einn mánuður en ræðst annars „af þeim ástæðum sem gera útgáfu þess nauðsynlega“.
Kjarninn falaðist eftir upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu um útgáfu vegabréfa á grunni þessara breytinga og sendi ráðuneytinu almenna fyrirspurn í tveimur liðum. Spurningarnar sem sendar voru til ráðuneytisins voru eftirfarandi: „Hversu mörg vegabréf hafa verið gefin út á grunni þessarar reglugerðarbreytingar?“ og „Hvenær voru þau vegabréf gefin út?“
Mikilvægir einka- og almannahagsmunir takmarki aðgengi
Líkt og áður segir sá ráðuneytið sér ekki fært að svara fyrirspurninni á grunni 9. og 10. greinar upplýsingalaga og upplýsingabeiðni Kjarnans var þar af leiðandi synjað. Þá var í svarinu bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar um upplýsingamála en kærufrestur er 30 dagar.
Í 9. grein upplýsingalaga er fjallað um takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna en hún hljóðar svo: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga [virka] fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.“
Í 10. grein upplýsingalaga er fjallað um heimild til að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjist. Greinin er í sex liðum og þar segir að hafi gögn að geyma upplýsingar um eftirfarandi, þá sé heimilt að takmarka aðgang að þeim:
- öryggi ríkisins eða varnarmál,
- samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir,
- efnahagslega mikilvæga hagsmuni ríkisins,
- viðskipti stofnana og fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga að því leyti sem þau eru í samkeppni við aðra,
- fyrirhugaðar ráðstafanir eða próf á vegum hins opinbera ef þau yrðu þýðingarlaus eða skiluðu ekki tilætluðum árangri væru þau á almannavitorði,
- umhverfismál ef birting gagnanna getur haft alvarleg áhrif á vernd þess hluta umhverfisins sem upplýsingarnar varða, t.d. heimkynni fágætra tegunda lífvera, steinda, steingervinga og bergmyndana.