Bandaríski afþreyingarrisinn Netflix á nú í samningaviðræðum við kínverskt fjarskiptafyrirtæki í von um að komast til landsins með þjónustu sína. Gríðarlegir hagsmunir eru í húfi því stafræni efnisveitumarkaðurinn á netinu í Kína veltir tæplega sex milljörðum Bandaríkjadala árlega. Fréttamiðillinn Bloomberg greinir frá málinu.
Netflix nýtur stuðnings Jack Ma, stofnanda og stjórnarformanns Alibaba, sem er stærsta netfyrirtæki landsins, í samningaviðræðunum ásamt öðrum væntanlegum fjárfestum. Aðspurð um tenginguna og þreifingarnar við Kína sagði talskona Netflix að fyrirtækið stefni á að ná hnattrænni útbreiðslu í lok árs 2016.
Þurfa að lúta ritstjórnarstefnu kínverskra stjórnvalda
Spár gera ráð fyrir að eftirspurn í Kína eftir afþreyingaefni á netinu muni allt að því þrefaldast til ársloka 2018. Samstarf við þarlent fjarskiptafyrirtæki er mikilvægt fyrir Netflix vegna strangra skilyrða kínverskra stjórnvalda við útgáfu leyfa til efnisveitna á netinu. Afþreyingarrisinn leitar því eftir samstarfsaðila sem hafi nú þegar tryggt sér leyfi til að bjóða upp á efni fyrir öll tæki.
Ljóst er að Netflix mun þurfa að fara eftir strangri ritskoðunarstefnu kínverskra stjórnvalda, nái fyrirtækið fótfestu þar í landi. Þannig þurfa kínversk stjórnvöld að fara yfir efni afþreyingarrisans, bæði gamalt og nýtt, áður en það er birt og klippa út það sem þeim þykir óæskilegt að borgarar sínir berji augum. Þetta þýðir auðvitað að töluverður dráttur mun verða á því að nýir þættir, í framleiðslu Netflix, komi fyrir sjónir áskrifenda efnisveitunnar þar sem þeir þurfa áður að vera samþykktir til sýninga.