Eignir Íslamska ríkisins, ISIS, í Írak voru í júní í fyrra metnar á 875 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur tæplega 114 milljörðum íslenskra króna, en samtökin eru talin ná til sín um einni milljón Bandaríkjadala, um 130 milljónum króna, á hverjum degi þessi misserin. Þetta kemur fram í fréttaskýringu um fjármögnun ISIS í New York Times í dag.
Stærstu hlut fjármagnsins sem ISIS hefur komist yfir er í gegnum fjárkúgunaraðferðir og skatta á eignir, á þeim svæðum þar sem ISIS fer með stjórn, einkum á stórum iðnaðarsvæðum í Írak. Í fyrra er talið að heildartekjur ISIS hafi verið um 1,2 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur um 160 milljörðum króna.
Þar af komu 600 milljónir Bandaríkjadala í gegnum fjárkúganir og skattlagningu, en starfsmenn sem eru á vegum hins opinbera í Írak, á svæðum þar sem ISIS fer með stjórn, þurfa að greiða 50 prósent skatt af launum sínum og öðrum tekjum. Fyrirtæki greiða síðan um 20 prósent skatt beint til ISIS, segir í umfjöllun New York Times. Þá komu um 100 milljónir Bandaríkjadala í gegnum olíulindir sem ISIS ræður yfir, en undanfarna sex mánuði hefur Bandaríkjaher linnulítið gert loftárásir á ýmsa innviði sem samtökin ráða yfir, og þannig veikt þau.
ISIS eru hins vegar talin hafa stolið meira en 500 milljónum Bandaríkjadala frá opinberum bönkum í Írak.