Krónan gerði Íslandi kleift að bjarga sér í efnahagshruninu og er ástæðan fyrir þeim efnahagslega bata sem Íslendingar hafa upplifað á undanförnum árum. Þetta segja Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson, leiðtogar stjórnarflokkanna, í umfjöllun stórblaðsins New York Times um íslenska efnahagshrunið og viðbrögð stjórnvalda við því sem birtist í gær. Sigmundur Davíð segir auk þess að fjármagnshöftin sem sett voru í lok árs 2008, og stendur nú til að losa um, hafi virkað betur en nokkur hefði búist við. Þau séu hins vegar augljóslega ekki varanleg lausn fyrir íslenska hagkerfið.
Ísland meðvitundarlaust úti í horni
Í greininni er saga hrunsins á Íslandi rakin í nokkuð ítarlegu máli. Þar segir að íslensku bankarnir hafi orðið meira en tíu sinnum stærri en þjóðarframleiðsla landsins og þegar að þeir hafi hrunið hafi allt efnahagskerfið hrunið með þeim.
Eitt af því sem Íslendingar hafi ákveðið að gera var að setja upp fjármagnshöft. Greinarhöfundur segir að rökin fyrir því hafi verið afar sterk. "Ef Bandaríkin og Evrópu drukku sig full af ódýru fjármagni, þá var Ísland náunginn í partýinu sem lá meðvitundarlaus úti í horni".
Í kjölfar hrunsins hafi gengið fallið, með tilheyrandi lækkun á raunvirði launa en jákvæðum áhrifum fyrir viðskiptajöfnuð og leitt til minna atvinnuleysi. Í stað þess að skera blóðugt niður hafi verið staðið vörð um helstu innviði velferðarkerfisins á Íslandi og skattar verið hækkaðir til að verja þá stöðu. Þá hafi gengisfellingin gert landið ódýrara heim að sækja sem hafi hjálpað verulega til við að draga að ferðamenn. Auk þess hafi verið boðið upp á niðurgreiðslur á húsnæðisskuldum. Svo hafi Ísland auðvitað gert eitthvað sem fæst önnur lönd gerðu í kjölfar bankahrunsins, að fangelsa bankamenn fyrir efnahagsglæpi.
Allar þessar aðgerðir hafi skilað Íslandi á þann stað sem landið sé í dag, þar sem landið er að upplifa sitt lengsta sjálfbæra hagvaxtarskeið með lágri verðbólgu og kaupmáttaraukningu.
Stóran hluta ástæðunnar sé að finna í tekjum af auknum ferðamannastraumi -fjöldi þeirra hefur tvöfaldast frá árinu 2006 - en einnig vegna þess að það var raunhagkerfi - sem byggist á veiðum á fiski og vinnslu á orku - undirliggjandi á meðan að landið fékk tímabundinn vott af geðveiki og hélt að það gæti orðið alþjóðlegur bankarisi. Vegna þessarra atvinnuvega, sem búa til raunveruleg verðmæti, virkuðu fjármagnshöftin mjög vel.
Rætt við sjö íslenska karlmenn, enga konu
Allir sem rætt er við í greininni, sjö íslenskir karlmenn en engin kona, virðast sammála um að fjármagnshöftin séu hins vegar mjög til trafala í dag. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að fjármagnshöftin hafi virkað betur en nokkur hafi búist við. Þau séu hins vegar augljóslega ekki varanleg lausn fyrir íslenska hagkerfið. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að síðustu ár hafi verið eins og opin kennslustund í umræðunni um hvort að ríki eigi að hafa sinn eigin gjaldmiðil og hvað það þýði að vera hluti af sameiginlegum gjaldmiðli sem leggi ekki efnahagslega stöðu þíns ríkis til grundvallar. Bjarni segir hins vegar einnig að höftin skaði möguleikann á utanaðkomandi fjárfestingu og skemmi fyrir raunhagkerfinu.
Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson eru báðir á meðal viðmælenda New York Times.
Guðmundur Kristjánsson, kenndur við Brim, er einn þeirra sem rætt er við í greininni. Þar er hann sagður vera sjómaður, þótt farið sé yfir þau atvinnutæki sem hann, einn stærsti útgerðarmaður landsins, á. Guðmundur segir meðal annars frá því að hann hafi viljað fjárfesta í nýju skipi en ekki getað það vegna þess að hann gat ekki tekið lán erlendis og á Íslandi gat hann bara fengið lánaðar krónur á mjög háum vöxtum. Hann er einnig mjög gagnrýnin á endurreisn fjármálakerfisins, og sérstaklega viðskiptabankanna, en tveir þeirra hafa nú um nokkurra ára skeið verið að mestu í eigu kröfuhafa föllnu bankanna. "Við erum eina landið sem lét brjálaða vogunarsjóði eiga bankanna okkar í sjö ár," segir Guðmundur við New York Times.
Fleiri segja sögur af því hvernig höftin hafa haft áhrif á þá. Magnús Árni Skúlason hagfræðingur segir frá því þegar sonur hans vildi kaupa hlutabréf í Apple fyrir fermingarpeninganna sína en gat það ekki vegna hafta. Hlutabréfin hafa síðan rúmlega fjórfaldast í verði.
Sagt að samningar við kröfuhafa skili 400 milljörðum
Að lokum er fjallað um aðgerðaráætlun stjórnvalda til að losa höft. Þar segir frá því að samkomulag hafi náðst við kröfuhafa föllnu bankanna sem geri það að verkum að hægt verði að ráðast í þá framkvæmd. Hérlendis hefur heildarumfang þeirra eigna sem slitabúin munu gefa eftir til ríkissjóðs samkvæmt samkomulaginu verið á reiki en samkvæmt New York Times er upphæðin um 400 milljarðar króna. Ef samkomulögin gangi ekki upp verði lagður á slitabúin stöðugleikaskattur sem sé þeim mun dýrari.
Í greininni segir að þótt allir viðmælendur blaðsins virðist sammála um að það sé nauðsynlegt að losa um höftin þá hafi aðgerðin einnig vakið ótta um hvað muni fylgja í kjölfarið og hvort Ísland geti raunverulega lifað af með eigin gjaldmiðil.
Sigmundur Davíð og Bjarni segja báðir að íslenska krónan hafi gert Íslandi kleift að bjarga sér og ná þeim bata sem landið hefur náð eftir hrunið. Sumir viðmælendur New York Times eru hins vegar þeirrar skoðunar að heimurinn sé of stór og alþjóðavæddur til þess að lítil eyja með rúmlega 320 þúsund íbúa geti verið með sinn eigin fljótandi gjaldmiðil. "Það er brjálæði fyrir okkur að vera áfram með eigin gjaldmiðil," segir stjórnarformaður Bogi Þór Siguroddsson, stjórnarformaður Johan Rönning. Hann segir Íslendinga þurfa aðra valmöguleika.