Stjórnvöld leituðu til Rauða krossins í gær og óskuðu eftir að opnuð yrði fjöldahjálparstöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Ástæðan er mikil fjölgun á komu flóttafólks til landsins, meðal annars vegna átakanna í Úkraínu, samhliða skorti á íbúðarhúsnæði fyrir flóttafólk.
Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri alþjóðasviðs hjá Rauða krossinum segir að um sé að ræða neyðarúrræði í ástandi sem er ekki neyðarástand. Beiðnin barst frá stjórnvöldum seint í gær og við það voru ákveðnar viðbragðsáætlanir sem eru til staðar hjá Rauða krossinum virkjaðar. Skrifstofuhúsnæði í Borgartúni, þar sem Vegagerðin var áður til húsa, verður notað undir fjöldahjálparstöðina.
Gylfi Þór Þorsteinsson, aðgerðarstjóri við móttöku flóttafólks, sagði í samtali við RÚV á föstudag að opnun fjöldahjálparstöðvar væri algjört neyðarúrræði „sem við reynum í fremstu lög að grípa ekki til því það þýðir í rauninni að allt húsnæði sé uppurið“.
Fleiri sveitarfélög verða að koma að verkefninu
Gert er ráð fyrir að fólk gisti í fjöldahjálparstöðinni í takmarkaðan tíma, helst ekki lengur en þrjár nætur, og fari þaðan í önnur húsnæðisúrræði. „Fleiri sveitarfélög verða að koma að verkefninu ef við eigum að ná utan um það,“ segir Atli Viðar í samtali við Kjarnann.
Í síðasta mánuði höfðu yfir 2.600 manns sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi á árinu. Í búsetuúrræðum Vinnumálastofnunar voru á dögunum fleiri sem höfðu fengið stöðu flóttamanns en sem nam fjölda þeirra umsækjenda um vernd sem sveitarfélög þjónusta. Til þessa dags hafa einungis fimm sveitarfélög undirritað samning um þátttöku í samræmdri móttöku flóttafólks. Það eru Reykjavíkurborg, Hafnarfjarðarbær, Reykjanesbær, Árborg og Akureyrarbær.
Fjöldahjálparstöðin verður staðsett í herbergjum í skrifstofuhúsnæði í Borgartúni. Húsnæðið er á nokkrum hæðum og hentar verkefninu ágætlega að sögn Atla Viðars en bæta þarf við salernis- og sturtuaðstöðu. Gert er ráð fyrir sérstakri aðstöðu fyrir fjölskyldufólk. Konur og fjölskyldur verða á einni hæð og karlmenn á annarri hæð.
Rauði krossinn á Íslandi gegnir stoðhlutverki við stjórnvöld í almannavörnum og hlutverk félagsins felst meðal annars í opnun og starfrækslu fjöldahjálparstöðva. Það er því Rauði krossinn sem sér um og rekur fjöldahjálparstöðina í Borgartúni en í nánu samstarfi við Vinnumálastofnun, sem þjónustar umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið sem fer með málaflokkinn.