Neysla hvers ferðamanns á Íslandi hefur dregist töluvert saman á síðustu mánuðum og er hún nú með svipuðu móti og hún var áður en heimsfaraldurinn byrjaði. Þetta kemur fram þegar mánaðarlegar tölur Seðlabankans um erlenda kortaveltu eru bornar saman við tölur Ferðamálastofu um fjölda ferðamanna síðustu þrjú árin.
Bandaríkjamenn og Bretar neysluglaðir
Líkt og Kjarninn hefur áður fjallað um jókst neysla hvers ferðamanns töluvert eftir að faraldurinn hófst. Þetta sást vel þegar erlend kortavelta hérlendis jókst hraðar en ferðamönnum fjölgaði í fyrravor, en þá voru ferðamennirnir fyrst og fremst frá Bandaríkjunum og Bretlandi.
Fjármálaráðuneytið benti á þessa auknu neyslugleði ferðamannanna í fyrra, en í greiningu sinni sagði hún það ekki enn vera ljóst hvort neysla þeirra skýrðist af lengri dvöl þeirra eða breytingu í samsetningu hóps komufarþega. Þó spáði ráðuneytið því að meðalneysla á hvern ferðamann yrði nokkuð meiri ef hlutfall Bandaríkjamanna og Breta af komufarþegum héldist hátt.
Líkt og sjá má á myndinni hér að ofan hefur þó nokkuð dregið úr neyslugleði ferðamanna, ef hún er mæld sem erlend kortavelta á hvern komufarþega. Samkvæmt því eyddi meðalferðamaðurinn á Íslandi 111 þúsundum króna í gegnum kortið sitt hér á landi í síðasta mánuði, en það er svipuð meðalvelta og var á meðal ferðamanna í janúar 2019 og 2020.
Til samanburðar eyddi hver ferðamaður að meðaltali um 330 þúsund krónum í janúar í fyrra. Á milli maí og september árin 2020 og 2021 nam kortaneysla hvers ferðamanns hins vegar að meðaltali um 200 þúsundum króna.
Samhliða minni neyslu hvers ferðamanns hefur hlutdeild Bandaríkjamanna og Breta af komufarþegum einnig lækkað, en þeir hafa verið tæplega 40 prósent af öllum komufarþegum hingað til lands í vetur. Til samanburðar voru þeir meira en helmingur allra komufarþega í fyrrasumar.