Vinsælasti framhaldsskóli landsins mun ekki geta tekið við fleiri en um 150 nýnemum haustið 2015, ef fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar verður samþykkt í núverandi mynd. Verzlunarskóla Íslands hefur undanfarin ár borist umsóknir hátt í 700 grunnskólanema hvert sumar og hafa rúmlega 300 nýnemar hafið skólagöngu þar ár hvert.
Í fjárlagafrumvarpinu sem nú er til umræðu á Alþingi er gert ráð fyrir að nemendum sem stunda fullt nám í framhaldsskóla fækki á næsta ári. Verzlunarskólinn mun, líkt og aðrir skólar, þurfa að fækka í nemendahópi sínum töluvert næsta haust. Ingi Ólafsson, skólastjóri í Verzló, hefur áhyggjur af hversu hratt fækkunin á að eiga sér stað.
„Núna á að fækka svo ársnemendum til okkar svo mikið sem verður til þess að við getum ekki tekið eins marga inn á næsta ári. Þetta er vegna þess að skólaárið fellur ekki saman við almannaksárið, og þá um leið fjárlagaárið,“ segir Ingi. „Þegar við undirbjuggum yfirstandandi skólaár vorum við í raun að plana helminginn af almannaksárinu.“
„Núna á að fækka svo ársnemendum til okkar svo mikið sem verður til þess að við getum ekki tekið eins marga inn á næsta ári. Þetta er vegna þess að skólaárið fellur ekki saman við almannaksárið, og þá um leið fjárlagaárið.“
Þessi skyndilega fækkun á fjölda nemenda verður ekki fengin með því að vísa nemendum úr skóla heldur verður að fækka í hópi nýnema sem fá skólavist á næsta ári, til að mæta væntanlegum lögum.
„Það varð ákveðin skerðing á nemendafjölda síðastliðið sumar sem við gátum ekki brugðist við vegna þess hversu seint við fengum að vita af henni. Síðan verður enn frekari fækkun núna og við getum ekki brugðist við fyrr en næsta haust,“ segir Ingi enn fremur.
„Þannig að þeir nemendur sem eru á fyrsta, öðru og þriðja ári, halda af sjálfsögðu áfram á annað, þriðja og fjórða ár næsta vetur. Fækkunin verður því alfarið í hópi nýnema.“
Nám í Verslunarskólanum hefur um árabil verið vinsælast meðal ungmenna sem hyggja á framhaldsnám eftir gunnskóla. Alls óskuðu 699 nemar um skólavist í Versló fyrir veturinn 2014-2015 en aðeins 308 fengu skólavist.
Ingi segir gagnrýnina ekki snúa að frumvarpinu sem slíku, heldur því hversu hratt innleiðing breytinganna á að eiga sér stað. Þessi hraða innleiðing gæti allt eins orðið til þess að segja verði upp kennurum.
Segir sig sjálft að kennsla minnkar
„Undanfarin ár höfum við yfirleitt verið að taka inn sirka tólf bekki en ef fjárlagafrumvarpið fer óbreytt í gegn þá getum við ekki tekið inn nema hámark sex bekki. Það segir sig sjálft að um leið og við fækkum bekkjum um fimm til sex, þá minnkar kennslan,“ segir Ingi.
Hann kveðst enn ekki hafa lagst yfir það hvaða aðgerðir þurfi að fara í, enda haldi hann enn í vonina um að breyting verði gerð á þessu fyrirkomulagi. En, til þess gæti komið að segja verði upp kennurum vegna þessa.
„Það segir sig sjálft að um leið og við fækkum bekkjum um fimm til sex, þá minnkar kennslan.“
„Nema hægt sé að gera tímabundnar ráðstafanir því ári seinna þurfum við aftur á mörgum kennaranna að halda aftur. Á meðan þetta kemur í svona stóru stökki þá er bara einn árgangur sem verður svona rosalega fámennur.“
Þegar fjárlagafrumvarp ársins 2015 er borið saman við fjárlög ársins 2013 og 2014 sést að framlag til framhaldsskóla hefur aukist nokkuð milli ára. Hluta þessarar hækkunar má rekja til þess að launaliðurinn í bókhaldi skólanna hækkaði eftir að framhaldsskólakennarar sömdu um kjör sín síðasta vor.
Ingi segir skólana að sjálfsögðu fá launahækkanir bættar. „Skólarnir hafa verið í svo miklu fjársvelti undanfarin ár, svo það er reynt að bæta það aðeins upp, meira að segja umfram launahækkanir. Það er meðal annars gert með því að nemendur sem eru 25 ára og eldri fá ekki vísa skólavist í bóknámi í framhaldsskólum. Þeir fjármunir sem sparast við úthýsingu þessara nemenda verða áfram í kerfinu. Framlag til skólanna á hvern ársnemanda mun því hækka,“ segir Ingi.
Markmiðið að útskrifa fleiri nema
Ísland er með lægsta brautskráningarhlutfall af framhaldsskólastigi af öllum OECD-löndunum, og langt undir meðaltali landanna. Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra hefur sagt það vera eitt meginmarkmiða ráðuneytisins til að ná umbótum í menntamálum að hækka hlutfall þeirra sem útskrifast úr framhaldsskólum á réttum tíma. Markmiðið er að árið 2018 verði hlutfall nemenda sem útskrifast á réttum tíma 60 prósent.
Verslunarskólinn hefur eitt besta brautskráningarhlutfall af íslenskum framhaldsskólum enda hafa vinsældir skólans valdið því að meðaleinkunn nýnema í skólanum úr grunnskóla er sú hæsta á Íslandi (9,06). Þá má gera ráð fyrir að bekkjafyrirkomulag skólans auki líkur þess að nemendur tolli í námi og brautskráist.