Fréttastofa RÚV stendur við allan fréttaflutning af málefnum Samherja og mun halda áfram að fjalla um fyrirtækið eins og tilefni er til. Siðanefnd RÚV birti fyrr í dag niðurstöðu sína í kærumáli Samherja gegn ellefu starfsmönnum RÚV vegna ummæla sem þeir létu falla á samfélagsmiðlum.
Í niðurstöðunni var málatilbúnaði gegn tíu starfsmönnum RÚV vísað frá eða ummæli þeirra ekki talin brot á siðareglum RÚV. Einn starfsmaður, Helgi Seljan, var talinn hafa gerst brotlegur við siðareglur með alvarlegum hætti vegna nokkurra ummæla sem hann lét falla á samfélagsmiðlum. Önnur ummæli hans sem kærð voru voru það hins vegar ekki.
Auglýsing
Í yfirlýsingunni er tekið fram að kærur Samherja til siðanefndar RÚV snúist ekki um hvað er satt og rétt í fréttaflutningi RÚV um Samherja heldur hvort skrif fréttamanna á samfélagsmiðlum séu smekkleg eða ekki. „Siðanefndin fjallaði ekki um fréttir eða fréttaskýringar RÚV, efni þeirra eða vinnslu. Niðurstaða nefndarinnar felur ekki í sér neina afstöðu til fréttanna. Fréttastofa RÚV stendur við allan fréttaflutning af málefnum Samherja og mun halda áfram að fjalla um fyrirtækið eins og tilefni er til. Úrskurður nefndarinnar er ítarlega rökstuddur. Yfir hann verður farið nánar af hálfu stjórnenda RÚV og fréttastofu eins og eðlilegt er.“