Síðustu daga, sérstaklega um liðna helgi, áttu sér stað stíf samtöl milli forsvarsmanna Reykjavíkurborgar og ráðherra í ríkisstjórn Íslands um hvort ráðist yrði í byggingu svokallaðrar þjóðarhallar í Laugardal. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, hafði gefið ríkinu frest fram í byrjun maí til að leggja fram fé í verkefnið. Næðist það ekki myndi borgin taka tvo milljarða króna sem hún hefur sett til hliðar fyrir það og nota þá til að byggja nýtt íþróttahús fyrir iðkendur Þróttar og Ármanns í Laugardal.
Í samtali við Kjarnann segir Dagur að niðurstaða liggi fyrir. Hún verði kynnt í borgarráði Reykjavíkur á fimmtudag og í ríkisstjórn á fundi hennar á föstudag. Í kjölfarið verður sú niðurstaða gerð opinber. Hann vill ekki greina frá henni sem stendur.
Gæti kostað hátt í níu milljarða
Laugardalshöllin hefur verið heimili landsliða Íslands í körfubolta og handbolta í áratugi. Hún er barn síns tíma og er rekin á undanþágu þar sem hún uppfyllir ekki alþjóðlega staðla.
Til að uppfylla alþjóðlegar kröfur þarf að byggja nýtt mannvirki. Verkís verkfræðistofa var fengin til þess að gera kostnaðarmat á byggingu mannvirkis á sínum tíma ásamt því að leggja mat á rekstrarkostnað. Heildarkostnaður við byggingu þjóðarleikvangs fyrir inniíþróttir var áætlaður á bilinu 7,9 til 8,7 milljarðar króna. Munurinn fólst í því hvort húsið eigi að taka fimm þúsund eða 8.600 áhorfendur.
Á sama tíma er sú staða uppi að gríðarlega fjölmennar iðkendadeildir hverfisfélaganna Þróttar og Ármanns eiga ekkert íþróttahús. Mikill þrýstingur hefur verið frá félögunum og íbúum hverfisins um að ráða þar bót á. Hugmyndin um þjóðarhöll felur í sér að þau félög gætu nýtt hana undir sína starfsemi og þannig yrðu tvö úrlausnarefni leyst með einni framkvæmd. Sá hagur á að vera á þeirri leið fyrir Þrótt og Ármann að í þjóðarhöll verði fjórir æfingavellir fyrir börn og ungmenni en í íþróttahúsi fyrir félögin yrðu vellirnir tveir.
Borgarstjóri gaf tímafrest
Ráðamenn þjóðarinnar hafa ítrekað lofað því að ráðist yrði í verkefnið, sem yrði að vera samvinnuverkefni ríkis og borgar. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, sagði í desember síðastliðnum að hans hugur stæði til þess að á þessu kjörtímabili yrði hægt að fara á heimaleiki á nýjum þjóðarleikvangi.
Svo gerðist lítið sem ekkert, þangað til á opnum íbúafundi borgarstjóra í Laugarnesskóla 2. mars síðastliðinn. Þar sagði Dagur að Reykjavíkurborg hefði tekið frá fjármuni í uppbyggingu íþróttahúss og að hún héldi því enn opnu hvort þeim yrði best varið í þjóðarhöll eða í sérstakt íþróttahús. Skilyrðið væri að peningarnir, um tveir milljarðar króna, myndu nýtast fyrir börn og ungmenni í Laugardal.
Borgarstjórinn sagði á fundinum að því yrði gefin mjög skammur tími að láta á þetta reyna. „Við erum búin að taka frá peninga fyrir öðrum hvorum kostinum. Þannig að það verður að skýrast á þessu vori, og ég hef rætt það síðast í gær við fleiri en einn ráðherra í ríkisstjórn Íslands, að ríkið ætli sér raunverulega að fara í þetta og setji pening á borðið. Ef að það gerist ekki þá förum við í sérstakt hús fyrir Þrótt og Ármann.“
Hann fékk spurningu úr sal um hversu skammur tími yrði gefin og sagði að slaki yrði gefinn fram að birtingu nýrrar fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2023-2028. „Ég segi að ef það verða ekki peningar í þetta þar þá meina þau ekkert með þessu. Þannig að fyrir 1. maí þarf þetta að liggja fyrir. Annars legg ég tillögu fyrir borgarráð 5. maí.“
Ekki var gert ráð fyrir sérstökum fjármunum í uppbyggingu þjóðarleikvanga í áætluninni þegar hún var birt í lok mars.
Bjarni vildi að borgin borgaði meira
Þann 24. apríl mætti Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, svo í útvarpsþáttinn Sprengisand á Bylgjunni. Þar gagnrýndi hann Reykjavíkurborg harðlega fyrir hennar afstöðu í þjóðarhallarmálinu. „Mér finnst tölurnar sem REykjavík hefur verið að nefna í þessu sambandi mjög lágar. Tveir milljarðar í hús sem gæti kostað sjö til níu milljarða sem mér finnst ekki há fjárhæð. Garðabær var að reisa íþróttamannvirki um daginn sem kostaði fjóra milljarða.“
Bjarni sagði að það væri sinn skilningur að borgin hefði ákveðið að forgangsraða með öðrum hætti. „Ég verð að segja að ég varð eiginlega hálf orðlaus eftir að stofnað hafði verið hlutafélag til að ræða þetta, að hafa verið í góðri trú um að við værum að fara að ræða einhverja alvöru kostnaðarskiptingu. Þá var það þannig sem sá fundur endaði.“
Nú liggur fyrir niðurstaða í málinu sem verður kynnt á föstudag.