Mennta- og menningarmálaráðuneyti tilkynnti í lok síðustu viku að það hefði úthlutað styrkjum til níu einkarekinna staðbundinna fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins.
Þetta er í annað sinn sem styrkjunum er úthlutað en Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ákvað hinn 1. september í fyrra að veita staðbundnum fjölmiðlum utan höfuðborgarsvæðisins styrk úr byggðaáætlun. Samkvæmt henni var gert ráð fyrir að veita árlega fimm milljónum króna til að efla staðbundna fjölmiðla, samtals 25 milljónum krónur á fimm árum.
Síðan þá hefur sú upphæð verið hækkuð með því að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur einnig lagt til styrktarfé. Í ár var upphæðin sem úthlutað var til að mynda tvöfalt það sem hún var í fyrra, alls tíu milljónir króna.
Þiggjendum fækkaði um tvo
Ellefu sóttu um styrkina en tveir umsækjenda uppfylltu ekki skilyrði úthlutunar. Þeir níu sem það gerðu skiptu því með sér tíu milljónum króna með þeim hætti að átta fengu 1.150.344 krónur í sinn hlut en einn fékk 797.250 krónur.
Helmingur styrkjanna, fimm milljónir króna, kom af þeim fjármunum sem mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur til umráða og hinn helmingurinn kom frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.
Í fyrra fengu ellefu fjölmiðlar styrkagreiðslurnar þegar þeim var deilt út, og fækka þeim því um tvo.
Úthlutun styrkja 2021:
- Akureyri.net (Eigin herra ehf.) 797.250 kr.
- Austurfrétt (Útgáfufélag Austurlands ehf.) 1.150.344 kr.
- Eyjar.net (ET miðlar ehf.) 1.150.344 kr.
- Jökull (Steinprent ehf.) 1.150.344 kr.
- Skessuhorn (Skessuhorn ehf.) 1.150.344 kr.
- Strandir.is (Sýslið verkstöð ehf.) 1.150.344 kr.
- Tígull (Leturstofan sf.) 1.150.344 kr.
- Vikublaðið (Útgáfufélagið ehf.) 1.150.344 kr.
- Eyjafréttir (Eyjasýn ehf.) 1.150.344 kr.
Einkareknir miðlar skipta með sér 400 milljónum árlega
Rekstrarumhverfi fjölmiðla hefur verið mikið í umræðunni árum saman, enda hefur það orðið erfiðara með hverju árinu. Í júní var greint frá því að frá árinu 2013 og fram til síðustu áramót hafi þeim sem starfa á fjölmiðlum fækkað um úr 2.238 í 731. Frá árinu 2018 hefur þeim fækkað um 45 prósent.
Þessi veiking á fjölmiðlum spilar inn í það að Ísland hefur hríðfallið í vísitölu Blaðamanna án landamæra, sem mæla fjölmiðlafrelsi í heiminum. Ísland situr nú í 16. sæti á þeim lista en hin Norðurlöndin, þar sem umtalsvert er stutt við fjölmiðla, raða sér í fjögur efstu sætin.
Eina almenna aðgerðin sem gripið hefur verið til vegna þessa er innleiðing styrkja til einkarekinna fjölmiðla, fyrst sem hluta af kórónuveirufaraldursaðgerðum stjórnvalda í fyrra, og svo með samþykkt laga sem greiða fyrir því að tæplega 400 milljónum króna verði skipt á milli allra einkarekinna fjölmiðla árlega. Um er að ræða endurgreiðslu á hluta af ritstjórnarkostnaði og fer þorri upphæðarinnar, næstum tvær af hverjum þremur krónur, til þriggja stærstu fjölmiðlafyrirtækja landsins. Lög um þær styrkjagreiðslur gilda út næsta ár.
Til viðbótar hefur svo verið gripið til greiðslu áðurnefndra sértækra styrkja til fjölmiðla á landsbyggðinni.
Kjarninn er á meðal þeirra fjölmiðla sem þiggja rekstrarstyrki úr ríkissjóði og fékk 14,4 milljónir króna við síðustu úthlutun. Þau fyrirtæki sem hér eru til umfjöllunar eru samkeppnisaðilar Kjarnans.