Búið er að handtaka níu manns í tengslum við hryðjuverkin í Túnis í gær. Fjórir eru sagðir hafa tekið þátt í hryðjuverkunum og fimm hafa tengsl við hryðjuverkaselluna sem framkvæmdi árásina.
Að minnsta kosti 23 hafa látið lífið vegna skotárásarinnar sem var gerð á Bardo þjóðminjasafnið í Túnis, höfuðborg Túnis, í gær. Tuttugu erlendir ferðamenn eru meðal hinna látnu. Lögreglan skaut tvo árásarmenn til bana á staðnum í gær eftir að þeir höfðu haldið fólki í gíslingu í safninu í nokkrar klukkustundir. Greint hefur verið frá því að annar mannanna hafi verið þekktur hjá lögreglunni. Hann hét Yassine Laabidi og hinn maðurinn sem var drepinn hét Hatem Khachnaoui.
Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá því að Al-Kaída hryðjuverkasamtökin hafi sagt að árásarennirnir tveir hafi dvalið með íslömskum öfgamönnum í þjálfunarbúðum í Líbíu. Þá hefur einnig verið sagt frá því að mennirnir hafi upphaflega ætlað að ráðast á þinghúsið í Túnis, sem er skammt frá safninu. Þeir hafi hins vegar hörfað þaðan vegna mikillar öryggisgæslu lögreglumanna.
Fyrr í dag fundust þrír einstaklingar á lífi inni í safninu, tveir spænskir ferðamenn og einn starfsmaður safnsins. Þau höfðu falið sig í safninu og ekki þorað að hreyfa sig af ótta við að árásinni væri ekki lokið.