Flugfélagið Play tapaði 10,8 milljónum bandaríkjadala, jafnvirði 1,4 milljarða króna, á fyrstu níu mánuðum ársins. Sætanýting félagsins í októbermánuði var 67,7 prósent og hefur verið stígandi í henni frá því í sumar, en í júlí var sætanýtingin einungis 41,7 prósent.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu í dag, en þar er einnig sagt frá því að í desember muni Play opna útibú í Litáen, í höfuðborginni Vilníus.
Play segir að höfuðstöðvar félagsins verði áfram á Íslandi, auk allra áhafna og flugreksturs, en að starfsmenn í Litáen muni sinna ýmsum stoð- og tæknihlutverkum. Félagið segir að reiknað sé með að fimmtán til tuttugu manns muni starfa á skrifstofu þess í Litáen innan fárra mánaða.
Með því að staðsetja hluta verkefna í Vilníus segist Play fá „gott aðgengi að sérfræðingum innan upplýsingatækni, stafrænnar þróunar, markaðsmála, fjármála og þjónustu“ samkvæmt því sem kemur fram í fréttatilkynningu félagsins, en þar má lesa að til standi að vera með þjónustuver þar ytra, þrátt fyrir að þjónustu við íslenska viðskiptavini verði áfram sinnt frá Íslandi.
„Nýja útibúið mun enn fremur ýta undir alþjóðlega menningu og skapa tengingar við nýja birgja, þjónustuveitendur og samstarfsaðila sem geta boðið hagkvæm og álitleg kjör,“ segir í tilkynningu Play.
„Hugmyndin er sú að halda niðri kostnaði“
Þar segir einnig að Play etji kappi við flugfélög sem hafi lágan kostnaðargrundvöll og aðgengi að sérþekkingu á alþjóðlegum markaði. „Það er því nauðsynlegt fyrir PLAY að geta mætt þeim sem jafningjum. Hugsunin er sú að halda niðri kostnaði og lágmarka yfirbyggingu svo hægt sé að bjóða lág fargjöld í hörðu samkeppnisumhverfi. Opnun skrifstofunnar í Vilníus er mikilvægt skref í þá átt að tryggja lágan kostnaðargrundvöll PLAY á sama tíma og félagið hefur starfsemi beggja vegna Atlantshafsins og undirbýr framtíðarvöxt,“ segir í tilkynningu félagsins.
Samkvæmt fréttatilkynningu um uppgjörið og stöðu félagsins flutti Play alls tæplega 25 þúsund farþega í október og hefur alls flutt 68 þúsund farþega frá því félagið fór fyrst í loftið.
Áttu 77 milljónir dollara í eigið fé
Félagið segir að reksturinn á þriðja ársfjórðungi hafi verið undir væntingum, vegna áhrifa COVID-19 á tekjur, en að allir aðrir fjárhagsliðir hafi verið í samræmi við væntingar. „Fjárhagsstaða PLAY er sterk og lausafé mikið sem gerir félaginu kleift að fylgja viðskiptaáætlun sinni á komandi mánuðum þegar innviðir eru undirbúnir fyrir flug til Norður-Ameríku. Eigið fé þann 30. september var 77 milljónir bandaríkjadollara sem jafngildir 29,2% eiginfjárhlutfalli,“ segir í tilkynningu félagsins.
Nokkuð hefur farið fyrir tilkynningar um mannaráðningar Play á undanförnum vikum og mánuðum. Fyrirtækið segir að 63 starfsmenn hafi bæst í hópinn á þriðja ársfjórðungi, 41 flugliði, 12 flugmenn og 10 starfsmenn á skrifstofu. Heildarfjöldi starfsmanna félagsins er sagður kominn upp í 135.
Play er í dag með 16 áfangastaði í flugáætlun sinni og hefur boðað að þeim fjölgi enn frekar á næstunni, bæði í Evrópu og Norður-Ameríku. Félagið, sem er skráð á First North-markað Kauphallarinnar, mun kynna uppgjör sitt á opnum kynningarfundi sem hefst klukkan 15:30 föstudaginn 5. nóvember.