Njáll Trausti Friðbertsson varð hlutskarpastur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, sem lauk í dag. Hann verður því oddviti flokksins í kjördæminu í komandi kosningum og tekur við því kefli af Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem ætlar að segja skilið við stjórnmálin að kjörtímabilinu loknu.
Í öðru sæti í prófkjöri flokksins varð Berglind Ósk Guðmundsdóttir, lögfræðingur og varabæjarfulltrúi á Akureyri.
Í þriðja sæti varð Gauti Jóhannesson, forseti bæjarstjórnar í Múlaþingi og fyrrverandi bæjarstjóri á Djúpavogi, samkvæmt því sem segir á vef Sjálfstæðisflokksins.
Gauti hafði sóst eftir því að leiða listann í kjördæminu, rétt eins og Njáll Trausti. Í frétt á vef Akureyri.net segir að Gauti hafi ekki enn ákveðið hvort hann muni þiggja 3. sætið á lista flokksins, úrslit prófkjörsins hafi verið honum vonbrigði.
Greidd atkvæði í prófkjörinu voru 1.570 talsins og þar af voru 1499 atkvæði gild. 71 atkvæði voru auð eða ógild.
Úrslitin í prófkjörinu voru sem hér segir:
- Njáll Trausti Friðbertsson með 816 atkvæði í 1. sæti
- Berglind Ósk Guðmundsdóttir með 708 atkvæði í 1. - 2. sæti
- Gauti Jóhannesson með 780 atkvæði í 1. - 3. sæti
- Berglind Harpa Svavarsdóttir með 919 atkvæði í 1. - 4. sæti
- Ragnar Sigurðsson með 854 atkvæði í 1. - 5. sæti
Njáll Trausti þakkaði stuðningsmönnum sínum traustið í færslu á Facebook.
Kæru vinir. Ég þakka það mikla traust og stuðning sem þið hafið sýnt mér með því að kjósa mig til forystu fyrir...
Posted by Njáll Trausti Friðbertsson on Saturday, May 29, 2021