Kadeco, þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, leitar nú að hugmyndum frá einstaklingum og fyrirtækjum í nágrenni flugvallarins sem nýtast munu keppendum í alþjóðlegri samkeppni um þróun svæðisins. Í samtali við Kjarnann segir Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco, að innsend svör muni nýtast við gerð samkeppnislýsingar en til stendur að fara í samkeppni um þróunaráætlun fyrir svæðið umhverfis Keflavíkurflugvöll. Hann segir að meðal annars sé verið að leita að hugmyndum um hvað vanti á svæðið og ábendingum um hvaða tækifæri leynast þar.
Í fyrra var ákveðið að halda samkeppni um þróunaráætlun svæðisins til ársins 2050. Spurður að því hvort kórónuveirufaraldurinn hafi haft áhrif á framvindu verkefnisins segir Pálmi svo ekki vera. Samkeppnin hefjist í lok apríl en þá fer fram forval. „Við munum auglýsa það á evrópska útboðssvæðinu. Þá er þetta formlega samkeppnisferli hafið. Mánuði síðar eiga teymin að vera búin að skila inn til okkar svörum við spurningunum sem við setjum fram í forvalinu,“ segir hann.
„Svo gefum við okkur smá tíma til að fara yfir það sem þau hafa sent inn og veljum þau fimm teymi sem að uppfylla kröfurnar best. Við ætlum svo að vinna með þeim áfram og láta þau teikna svæðið upp fyrir okkur og svara spurningum varðandi þróun til framtíðar sem okkur vantar svör við,“ segir Pálmi. Hann gerir ráð fyrir að undir lok ársins verði Kadeco búið að velja eina tillögu sem verður svo unnið eftir að höfðu samráði við íbúa og aðra hagsmunaaðila á svæðinu.
Lítið um framkvæmdir á flugvöllum heimsins
Að sögn Pálma hefur kórónuveirufaraldurinn ef til vill einungis aukið á áhuga frá arkitekta- og verkfræðistofum á að taka þátt í samkeppninni. Ástæðan er sú að ládeyða í flugumferð vegna kórónuveirufaraldursins hefur orðið til þess að lítið fer fyrir stórum uppbyggingarverkefnum í kringum flugvelli heimsins. Kadeco njóti því að einhverju leyti góðs af því að efna til þessarar samkeppni núna þegar framkvæmdir við flugvelli eru í lágmarki.
Þrátt fyrir að farþegaflug hafi nánast stöðvast á heimsvísu á síðasta hafa fyrirætlanir Kadeco þó ekki breyst. Pálmi segir fjölda farþega um Keflavíkurflugvöll skipta máli í stóra samhenginu en félagið horfi þó einnig til annarra þátta og að stefnan sé að skapa fjölbreyttari atvinnutækifæri. Pálmi er engu að síður handviss um að flugið taki við sér að nýju.
Eggin í fleiri körfur
„Við gerum algjörlega ráð fyrir að þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar haldist og við erum að horfa til mjög langs tíma. En við erum líka að horfa á önnur tækifæri tengd þessu svæði, bæði nálægð við flugvöllinn, nálægð við stórskipahöfnina í Helguvík og við landsvæði sem er mjög álitlegt til uppbyggingar hvers konar. Við viljum auðvitað nýta allt sem felst í flugvellinum en við viljum líka dreifa eggjunum í fleiri körfur. Þannig að að þetta stendur ekki og fellur bara með því að flugvöllurinn fari á blússandi fart aftur,“ segir Pálmi.
Í þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar sem Pálmi nefnir er gert ráð fyrir að fjöldi farþega sem fari um flugstöðina verði samtals tæplega 14 milljónir árið 2040, þar af tæplega sex milljónir farþega í tengiflugi. Árið 2019 fóru rúmlega 7,2 milljónir farþega um flugvöllinn og þar af nam fjöldi farþega í tengiflugi rúmum tveimur milljónum. Farþegafjöldinn náði hámarki árið 2018 en þá fóru alls 9,8 milljónir farþega um flugvöllinn, þar af tæplega 3,9 milljónir í tengiflugi.
Fluglest ekki á teikniborðinu eins og er
Pálmi segir að með fram gríðarlegum vexti á flugvellinum á undanförnum árum í kjölfar aukins fjölda ferðamanna hafi skapast önnur vandamál sem þurfi að leysa og nefnir hann tenginguna við höfuðborgarsvæðið í því samhengi.
Spurður að því hvort að á teikniborðinu sé lest á milli flugvallarins og höfuðborgarsvæðisins segir Pálmi það velta á tillögunum sem koma út úr samkeppninni um þróun svæðisins. Meta þurfi hvort lest sé raunhæfur kostur eða hvort annar samgöngumáti sé rökréttari.
„Maður veit ekki hvort að fluglestin verði eitthvað sem að vinningshafar samkeppninnar munu tefla fram eða eitthvað annað. Tíminn verður að leiða það í ljós,“ segir Pálmi.
Hafa umsjón með 55 ferkílómetrum
Kadeco er í eigu ríkisins og var stofnað í október 2006 eftir að Bandaríkjaher yfirgaf herstöðina á Miðnesheiði. Upprunalegt hlutverk félagsins var að selja fasteignirnar sem herinn skildi eftir sig en nú er helsta hlutverk félagsins að hafa umsjón með og ráðstafa lóðum og landi í eigu ríkisins eins og segir á vef Kadeco.
Félagið hefur umsjón með alls 55 ferkílómetra stóru svæði við Keflavíkurflugvöll. Á heimasíðu félagsins segir meðal annars um fyrirhugaða samkeppni um þróunaráætlun fyrir svæðið til ársins 2050 að rík áhersla verði lögð á „að svæðið þróist í takt við samfélagið og að við uppbyggingu verði horft til styrkleika Suðurnesja og Íslands. Markmiðið er að fá fram heildstæða þróunaráætlun sem leggur grunn að þróunarkjarna fyrir atvinnulíf og samfélag á Suðurnesjum og dregur fram markaðslega sérstöðu svæðisins.“