Hallgrímur Thorsteinsson er ekki lengur ritstjóri DV, samkvæmt heimildum Kjarnans. Hann mun starfa áfram á vegum Pressunnar og mun leiða stefnumótum á sviði talmálsútvarps. Nokkrum blaðamönnum DV var líka sagt upp í dag. Heimildir Kjarnans herma að á meðal þeirra séu María Lilja Þrastardóttir og Sveinbjörn Þórðarson. Uppsagnirnar eru hluti af skipulagsbreytingum sem ráðist var í vegna samruna DV og Pressunnar. Sá samruni kemur í kjölfar kaupa Pressunnar, sem er í meirihlutaeigu Björns Inga Hrafnssonar, á um 70 prósent í DV ehf. Hann er líka stjórnarformaður og útgefandi hins sameinaða félags. Á síðustu tveimur dögum hefur verið tilkynnt um að lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson og Jón Óttar Ragnarsson, sem stofnaði Stöð 2 á sínum tíma, séu á meðal nýrra fjárfesta í Pressunni. Jón Óttar er mágur Björns Inga.
Ekki hefur náðst í Hallgrím Thorsteinsson, ritstjóra DV, né Björn Inga Hrafnsson við vinnslu fréttarinnar.
RÚV greinir frá því að Kolbrún Bergþórsdóttir, fyrrum blaðamaður á Morgunblaðinu, verði annar ritstjóra DV og að hún muni hefja störf á mánudag. Ekki hefur verið greint frá því hver hinn verður.
Þetta eru ekki einu uppsagnirnar hjá fjölmiðlafyrirtækjum um þessar mundir. Mbl.is greindi frá því í morgun að átta starfsmönnum 365 miðla hefði verið sagt upp í gær. Fólkið starfaði allt á sölu-, þjónustu- og fjármálasviði.
María Lilja Þrastardóttir twittaði um brottreksturinn fyrr í dag:
Í dag var ég rekin í annað sinn á árinu. Megi 2014 fokka sér duglega.
— María Lilja Þrastar (@marialiljath) December 30, 2014
Uppfært klukkan 19:25:
Í upphaflegu fréttinni stóð að Hallgrímur Thorsteinsson hafi verið rekinn úr starfi. Það er ekki rétt. Hann er hættur sem ritstjóri DV og mun áfram starfar á vegum Pressunnar og mun leiða stefnumótum á sviði talmálsútvarp. Fréttinni hefur verið breytt í samræmi við þetta.