Sjónvarpsþáttur breska grínistans og samfélagsrýnisins John Oliver á sjónvarpsstöðinni HBO virðist vera að hafa bein áhrif á bandarískt samfélag. Þá eru nokkrar vísbendingar um hvernig hárbeitt gagnrýni Oliver hefur haft bein áhrif á löggjafann, og komið úrbótum til leiða.
Það er í sjálfu sér ekkert nýtt að grínistar geri óspart grín að ríkjandi menningu og stjórnvöldum, en það er ekki á hverjum degi að ádeila þeirra ratar inn á vefsíður ríkisstofnanna eða hafi bein áhrif á ráðamenn til að ráðast í lagabreytingar.
Þáttur John Oliver, Last Week Tonight, hefur á skömmum tíma skipað sér slíkan sess. Þrátt fyrir að fyrrum kollegar hans, þeir Stephen Colbert og Jon Stewart, hafi til langs tíma gagnrýnt fréttaflutning í Bandaríkjunum og bent á fáránleika hversdagsleikans, stendur þáttur Olivers þeim framar fyrir rannsóknar- og greiningarvinnu þegar eldfim málefni eru tekin til umfjöllunar. Fréttamiðillin TIME fjallar um sívaxandi áhrif Oliver.
Hér eru nokkur dæmi um hvernig breski sjónvarpsmaðurinn hefur haft áhrif til góðra verka.
Í júní gagnrýndi Oliver hvernig veð, til að fá mann lausan úr haldi, koma niður á fátækum sakborningum sem neyðast til að sitja á bakvið lás og slá án þess að hafa hlotið dóm. Fólk sem geti ekki greitt trygginguna hafi tvo slæma kosti: að játa glæpinn til að þurfa ekki að sitja í gæsluvarðhaldi eða dveljast í fangaklefa fram að réttarhaldi.
Mánuði eftir gagnrýni Oliver tilkynnti Bill de Blasio, borgarstjóri New York borgar, að borgaryfirvöld hygðust slaka á kröfu um veð gegn lausn úr haldi, þegar um væri að ræða afbrot þar sem ofbeldi kom ekki við sögu, og smáglæpi.
Oliver hefur látið meinta spillingu innan FIFA sig varða, og gagnrýnt forystu alþjóðaknattspyrnusambandsins harðlega. Hann fjallaði um spillta yfirstjórn FIFA löngu fyrir umfangsmiklar aðgerðir bandarísku alríkislögreglunnar FBI, en sunnudaginn eftir að háttsettir menn innan sambandsins voru handteknir, kallaði Oliver ákaft eftir afsögn Sepp Blatter forseta FIFA.
Á þriðjudaginn eftir þáttinn varð Oliver svo að ósk sinni þegar Blatter tilkynnti skyndilega um afsögn sína, daginn eftir að hann var endurkjörinn forseti FIFA.
Þá er talið að hörð gagnrýni Oliver á boðaðar lagabreytingar um aðgengi almennings í Bandaríkjunum að internetinu (net neutrality), hafi haft mikil áhrif á að frá þeim var fallið. Í þættinum sínum sakaði Oliver bandarísk fjarskiptafyrirtæki um að ætla sér græða á því að rukka notendur aukalega fyrir aðgang að sérstökum hraðbrautum á veraldarvefnum, og mismuna þannig fólki eftir fjárhag varðandi aðgengi að netinu.
Oliver hvatti aðdáendur sína til að senda bandarískum fjarskiptayfirvöldum kvörtun í tölvupósti vegna þessa, sem varð til þess að netþjónar hrundu.