Siðanefnd RÚV hefur vísað frá hluta af kæru Samherja vegna ummæla ellefu frétta- og dagskrárgerðarmanna RÚV og komist að þeirri niðurstöðu að þorri annarra ummæla sem hópurinn lét falla á samfélagsmiðlum sé ekki brot á siðareglum fyrirtækisins. Kæran til siðanefndar byggði á reglu í siðareglum RÚV sem er svohljóðandi: „Starfsfólk, sem sinnir umfjöllun um fréttir, fréttatengt efni og dagskrárgerð tekur ekki opinberlega afstöðu í umræðu um pólitísk málefni eða umdeild mál í þjóðfélagsumræðunni, þ. á m. á samfélagsmiðlum.“
Frétta- og dagskrárgerðarmennirnir sem um ræðir eru Aðalsteinn Kjartansson, Freyr Gígja Gunnarsson, Helgi Seljan, Lára Ómarsdóttir, Rakel Þorbergsdóttir, Sigmar Guðmundsson, Snærós Sindradóttir, Stígur Helgason, Sunna Valgerðardóttir, Þóra Arnórsdóttir og Tryggvi Aðalbjörnsson Stór hluti viðbragða þeirra var við myndbandi sem Samherji birti í ágúst 2020 og beindi spjótum sínum sérstaklega að Helga Seljan einum stjórnenda fréttaskýringaþáttarins Kveiks.
Siðanefndin kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að nokkur ummæli Helga Seljan, sem beinst hafi gegn fyrirsvarsmönnum Samherja persónulega, og varða málefni sem séu alls ótengd Kveiksþætti um fyrirtækið sem sýndur var í nóvember 2019, séu alvarlegt brot á siðareglum. Í niðurstöðu siðanefndarinnar, sem Kjarninn hefur undir höndum, segir að ummælin séu „á köflum í formi samtals, þar sem talað er beint, og stundum niður til forsvarsmanna kærenda eða eru sett fram í augljósri hæðni.“
Niðurstaða siðanefndar um brot á siðareglum er endanleg og verður henni ekki áfrýjað. Samkvæmt siðareglunum á nefndin að vekja athygli útvarpsstjóra á því ef hún telur niðurstöðuna benda til þess að um sé að ræða brot í starfi. Það er ekki gert í þessu tilfelli.
Þau ummæli sem Helgi lét falla, og eru talin brjóta í bága við siðareglur, eru eftirfarandi:
Brotin talin alvarleg
Í niðurstöðu siðanefndarinnar segir að telja verði að með þessum ummælum sínum hafi Helgi gerst hlutdrægur og gengið lengra en það svigrúm sem hann hafi annars til þess að deila fréttum og fylgja þeim eftir með gagnrýnum spurningum eða ummælum, sambærilegt þeim sem hann myndi viðhafa sem fréttamaður, jafnvel þó slíkt væri gert í eigin nafni. „Því er það mat siðanefndarinnar að í ofangreindum ummælum felist skýr og persónuleg afstaða í málefni kæranda sem 4. mgr. 3. gr. siðareglnanna er ætlað að taka til, og því um að ræða brot á greininni. Hvað varðar alvarleika brots Helga Seljan, verður að taka tillit til þess að þessum ákvæðum siðareglnanna hefur ekki verið beitt fyrr, sem og að ekki virðast liggja fyrir skýrar leiðbeiningar frá RÚV um hvernig fréttamenn eigi að haga tjáningu sinni á samfélagsmiðlum. Á móti kemur að hér er um að ræða ítrekuð tilvik yfir langan tíma. Í því ljósi telur siðanefndin að brot Helga sé alvarlegt, á mælikvarða 7. gr. starfsreglna siðanefndarinnar (ámælisvert, alvarlegt eða mjög alvarlegt).“
Þorra vísað frá
Kæra Samherja, sem var lögð fram í lok ágúst í fyrra, var vegna þátttöku starfsmannanna ellefu í þjóðfélagsumræðu um Samherja á samfélagsmiðlum. Í færslum þeim, sem starfsmennirnir birtu á samfélagsmiðlum og fjallað er um í kærunni, hafi þeir tekið afstöðu í umræðu um málefni Samherja, að mati lögmanns fyrirtækisins.
„Er þar einkum um að ræða mál vegna ásakana sem settar voru fram vegna starfseminnar í Namibíu og hið svokallaða Seðlabankamál en einnig ýmis önnur mál sem tengjast Samherja með beinum og óbeinum hætti. Má þar nefna eignarhald fyrirtækja í sjávarútvegi og eignarhald á hlutabréfum í Eimskip.
Þorra málatilbúnaðar Samherja er vísað frá eða komist að þeirri niðurstöðu að ummælin sem um ræðir séu ekki dæmi um skýra persónulega afstöðu viðkomandi starfsmanns sem bryti í bága við siðareglur RÚV. Það á við um öll ummæli tíu frétta- og dagskrárgerðarmanna og flest ummæli Helga Seljan sem kærð voru. Í niðurstöðu sinni segir siðanefndin, um þau ummæli Helga sem ekki voru talin brotleg við siðareglur, að ummælin væru oft í „spurnarformi, eins konar eftirfylgni á Kveiksþáttunum, oft gagnrýnin og hafa einkenni rannsóknarblaðamennsku“.
Í athugasemdum Helga við kærunni sagði meðal annars að hann teldi hana ekki snúast um hvort „það sem sagt eða skrifað hefur verið sé rétt eða rangt, heldur hvort kærði eða aðrir megi yfirhöfuð segja nokkuð það um fyrirtækið, sem forsvarsmönnum þess kann mögulega að mislíka að sé sagt. Krafan getur ekki með nokkru móti talist eðlileg eða yfirleitt tæk til umfjöllunar í lýðræðissamfélagi.“