Óvissa er það sem helst kemur upp í hugann þegar Norðmenn hugsa til komandi árs í efnahagslegu tilliti og áréttaði Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, þessa sýn á blaðamannafundi síðastliðinn fimmtudag. „Það er mikil óvissa framundan og við þurfum að taka afleiðingunum af því,“ sagði Solberg og áréttaði að erfiðir tímar gætu verið framundan hjá fólki og fyrirtækjum í byrjun árs 2015.
Vandamál í Noregi tengjast mörgum Íslendingum sem búa þar en þeim hefur fjölgað hratt á undanförnum árum. Samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands búa nú um 8.700 Íslendingar í Noregi en þeir voru 3.800 árið 2008.
Úr 22 krónum í 17
Eftir að norska krónan féll um átta prósent á einum degi, síðastliðinn miðvikudag, hefur hún lítillega styrkst. Hræðsla hefur þó verið sýnileg á mörkuðum, að því er segir í umfjöllun Dagens Næringsliv. Gengi krónunnar núna er um níu krónur fyrir hverja evru, eða sem nemur því að um sautján íslenskar krónur jafngildi einni norskri krónu. Stutt er síðan þessi tala var í tæplega 22 krónum.
Norðmenn búa þó við sterka innviði og hafa hinn risavaxna olíusjóð að mestu (95%) í ávöxtun í eignum utan Noregs sem bundnar eru í erlendum myntum. Fall krónunnar heima fyrir hefur því ekki svo miklar afleiðingar fyrir þann sjóð. Hins vegar getur það haft alvarlegar afleiðingar fyrir norska hagkerfið ef verðfallið á olíu heldur áfram, en blikur eru á lofti í þeim efnum.
Valdatafl?
Anatole Kaletsky, gamalreyndur hagfræðingur og pistlahöfundur The Economist, segir í pistli sem hann birti á vef Reuters í gær að Sádí-Arabía sé mikill áhrifavaldur bak við tjöldin og að ekki sé útilokað að hin mikla lækkun á olíu að undanförnu, sem flestir greinendur á markaði spáðu ekki fyrir um, tengist valdatafli OPEC ríkjanna þar sem Rússar hafa nú verið færðir skör neðar. Í greiningu sinni segir hann að olían geti vel lækkað enn meira, jafnvel niður í 20 Bandaríkjadali á fatið, en verðið nú er tæplega 60 dalir og hefur það lækkað um tæplega 50 prósent frá því í júlí.