FM-útvarpsútsendingum verður hætt í Noregi árið 2017, en þar með verða Norðmenn fyrsta þjóðin til að skrúfa alveg fyrir þess háttar útvarpsútsendingar. Norski fréttamiðillinn Radio.no greinir frá málinu. Í staðinn færast útvarpsútsendingar alfarið yfir á stafrænt form, en ráðist verður í breytinguna í Noregi í þrepum, þar sem byrjað verður í Norðurhluta landsins.
Tilkynnt var um ákvörðunina að skrúfa alfarið fyrir FM-útsendingar, eftir tæp tvö ár, á fimmtudaginn. Ákvörðunin á svo sem ekki að koma neinum á óvart því flestir Norðmenn hlusta í dag á uppáhalds útvarpsstöðvarnar sínar með stafrænum hætti. Þróunin hefur átt sér stað undanfarin ár, en 11. janúar árið 2017 verður hafist handa við að ljúka yfirfærslunni fyrir fullt og allt. Í dag er hægt að hlusta stafrænt á 22 norskar útvarpsstöðvar, á meðan einungis fimm útvarpsstöðvar senda út á landsvísu með FM tækninni.
Eins og áður segir verður byrjað að slökkva á FM-útvarpssendingum í Norðurhluta Noregs þann 11. janúar árið 2017, en slökkt verður á síðasta FM-útvarpssendinum þann 13. desember sama ár.
Stærstu útvarpsstöðvar Noregs, ríkisútvarpið NRK meðtalið, samþykktu að ráðst í breytinguna með hraði, að því gefnu að svæðisbundnar lokanir skekki ekki samkeppnisstöðu þeirra tímabundið.
Eins og áður segir verða Norðmenn fyrsta þjóðin til að loka alfarið fyrir FM-útvarpsútsendingar, en þó nokkur lönd í Evrópu og Suðaustur-Asíu eru í samskonar ferli, og hafa valið stafræna tækni undir dreifingu útvarpsefnis til framtíðar.
Stafræn útvarpsþjónusta er talin geta framlengt líf útvarpsins um ókomin ár. Þannig geti útvarpsstöðvar betur komið til móts við þarfir og smekk hlustenda og brugðist betur við örum breytingum sem verða á fjölmiðlaneyslu notenda.