Klemman í orkumálunum er sú að enginn vill hafa vindorkuver í landinu sínu, enginn vill vindorkuver á hafi úti, enginn vill nýjar vatnsaflsvirkjanir og enginn vill neitt, en allir vilja ódýrt rafmagn.“
Þetta sagði olíu- og orkumálaráðherra Noregs, Terje Aasland, við blaðamann dagblaðsins VG í gær. Fyrr um daginn hafði hann átt neyðarfund með formönnum þingflokka og fulltrúum atvinnulífsins. Umræðuefnið var viðbrögð við yfirvofandi orkuskorti.
Því Norðmenn eru í vanda staddir. Vatn í uppistöðulónum margra vatnsaflsvirkjana er í sögulegu lágmarki eftir óvenju mikla þurrka í sumar. Stjórnvöld telja þar af leiðandi að draga verði úr því rafmagni sem til stóð að selja úr landi. Þau ætla einnig að grípa til frekari aðgerða til að tryggja heimilum nægt rafmagn sem og fyrirtækjum sem eru hvað viðkvæmust fyrir orkuskorti. Frekari útfærslu á aðgerðum er að vænta innan tveggja vikna. Sumarið er ekki úti og enn er vonast eftir því að lónin fyllist.
Orkuskortur blasir við í mörgum löndum Evrópu þar sem gasinnflutningur frá Rússlandi verður að öllum líkindum takmarkaður. Rússnesk yfirvöld skrúfuðu t.d. fyrir gas til hluta álfunnar í sumar og óttast er að þau geri það aftur. Ef dregið verður úr útflutningi rafmagns frá Noregi yrði það enn eitt höggið í orkukrísunni sem við blasir.
Noregur framleiðir mikið af rafmagni með vatns- og vindaflsvirkjunum og er einn helsti útflytjandi raforku í Evrópu. Þess fyrir utan er olíu- og gasframleiðsla nokkuð ríkuleg. En nú er ekki nóg til svo svala megi eftirspurn á meginlandinu og innanlands – ef staðan breytist ekki í suðurhluta Noregs þar sem mikil þurrkatíð hefur geisað.
Raforkuverð í Noregi hefur verið að hækka og það sama er uppi á teningnum víðast hvar í Evrópu. Til framtíðar er svarið við stöðunni það að framleiða meiri endurnýjanlega orku í landinu að mati olíu- og orkumálaráðherrans. Hann hefur áður sagt óttast að á næsta ári gæti þurft að skammta rafmagn.
Ef uppistöðulónin fyllast ekki og vatn í þeim verður minna en í meðalári í vetur þá er ein leiðin að sögn ráðherrans sú að takmarka útflutning rafmagns. Hann segir orkuskort ekki mega verða viðvarandi vandamál í Noregi. „Við getum ekki búið við það að svipað vandamál skapist á hverju ári.“
Norsk stjórnvöld hafa sett sér það markmið að auka orkuútflutning um 50 prósent til ársins 2030. Til þess að svo megi verða þarf að vera til næg raforka, segir Aasland. Þess vegna þurfi að byggja fleiri orkuver, bæði ver sem nýta vatnsafl og vindorku.
Mjög mikil andstaða er við uppbyggingu vindorkuvera í Noregi en slíkar virkjanir hafa síðustu ár risið nokkuð víða um landið. Orkumálaráðherrann segir vandann hins vegar vera þann að allir vilji ódýrt rafmagn en enginn vilji virkjanir í sínu næsta nágrenni.
Hann hvetur landa sína til að hugsa vel málin. Hvort ekki hægt sé að ákveða hvar vindorkuver eigi heima á landi og þá hvar ekki.
Gríðarlegt vatn fyrir norðan
Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt orkugeirann fyrir sóun og að vandinn hafi verið fyrirsjáanlegur af þeim sökum. Aasland blæs á þær ásakanir og segist gjarnan vilja hitta þann sem gat séð þennan vanda fyrir.
Noregur er ekki í Evrópusambandinu en má þó ekki lögum samkvæmt draga verulega úr eða stöðva útflutning á orku til Evrópu í langan tíma. Lýsa þarf yfir neyðarástandi svo að slíkt megi gera, segir í frétt Bloomberg um málið.
Uppistöðulón eru mörg hver ekki hálffull sem er veruleg breyting frá síðustu tveimur áratugum. Hins vegar hefur verið safnað í þau meira af vatni en svartsýnustu spár yfirvalda gerðu ráð fyrir fyrr í sumar. Í Norður-Noregi er hins vegar allt annað uppi á teningnum. Þar flæðir vatn yfir barma uppistöðulónanna. „Ég hef aldrei á mínum 25 árum í geiranum séð slíkan mun á lónunum í Norður- og Suður-Noregi segir orkumálasérfræðingurinn Tor Reier Lilleholt í samtali við Norska ríkisútvarpið, NRK, í dag.