Samkeppniseftirlitið hefur nú samþykkt fyrirhugaðan samruna eignarhaldsfélaganna Nova Acquisition Holding og Platínum Nova. Með því verður fjarskiptafélagið Nova í eigu fjárfestingarfélagsins PT Capital Advisors.
Líkt og kemur fram í tilkynningu Samkeppnisefirlitsins þýðir samruninn einnig að Nova muni vera undir sömu yfirráðum og hótelrekandinn Keahótel, þar sem bandarísku fjárfestarnir keyptu í hótelkeðjunni fyrir fjórum árum síðan.
Björgólfur kveður Nova
Með sameiningu eignarhaldsfélaganna hefur Björgólfur Thor Björgólfsson, stofnandi Nova, að fullu selt sig úr félaginu, en hann átti fyrir helmingshlut í því í gegnum fjárfestingarfélagið Novator.
Björgólfur hafði áður selt helmingshlut af félaginu til PT Capital Advisors árið 2016, en þau viðskipti voru útnefnd viðskipti ársins það ár af Fréttablaðinu, Stöð 2 og Vísi. Söluverðið fyrir þann eignarhlut nam 16 milljörðum króna.
Ekki kom fram í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins hvert kaupverðið á hlut Novators í Nova var, en samkvæmt síðasta ársreikningi Nova nam eigið fé félagsins 4,8 milljörðum króna. Félagið hagnaðist svo um rúman milljarð á síðasta ári og hyggst selja óvirku fjarskiptainnviðina sína á þessu ári, en sú sala er til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu.
Fjárfestingar á Íslandi, Finnlandi og Alaska
Líkt og Kjarninn fjallaði um fyrir fjórum árum síðan fjárfestu PT Capital Advisors stóran hlut í Keahótelum, ásamt öðrum bandarískum fjárfestum, árið 2017. Líkt og sést á mynd hér að neðan er eignarhaldið í Nova og Keahótelum þó ekki beint, heldur er það bundið sjóðum og eignarhaldsfélögum bæði innanlands og erlendis.
Eignarhald PC Capital Advisors í Nova og Keahótelum. Með samrunanum sem var samþykktur af Samkeppniseftirlitinu mun eignarhaldsfélag í eigu PT Capital Advisors eignast 50 prósenta hlut Björgólfs Thors í félaginu Platínum Nova hf.
Samkvæmt heimasíðu PT Capital sérhæfir félagið sig í fjárfestingar á mörkuðum sem hafa verið hlunnfarnir af hlutafjárinnspýtingu erlendra fjárfesta. Allar fjárfestingar þess eru staðsettar á Norðurslóðum, en til viðbótar við Nova og Keahótel á PT Capital Advisors í finnskri hótelkeðju og bandarískum ferðaþjónustufyrirtækjum, auk ýmissa iðnaðarfyrirtækja frá Alaska.
Í yfirlýsingu Samkeppniseftirlitsins sagðist stofnunin ekki sjá forsendur til að aðhafast vegna samrunans, þar sem Keahótel og Nova starfa á ólíkum mörkuðum talið var að starfsemi félaganna skarast ekki.