Novator, fjárfestingarfélag sem kennt er við stærsta eiganda þess, Björgólf Thor Björgólfsson, á eignir sem metnar eru á 950 milljónir evra, um 150 milljarða króna. Á móti eru skuldir en ljóst er að Björgólfur Thor hefur komið betur út úr skuldauppgjöri sínu, sem tilkynnt var í síðustu viku að væri lokið, en flestir aðrir risaskuldarar hins fallna íslenska bankakerfis.
Björgólfur Thor sendi frá sér fréttatilkynningu í síðustu viku þar sem hann sagðist hafa lokið 1.200 milljarða króna skuldauppgjöri sínu og Novators við kröfuhafa sína. Heildarupphæðin, umreiknuð í evrur á gengi dagsins í dag, er um 7,7 milljarðar evra. Af þeirri upphæð voru um 650 milljónir evra, um 101 milljarður króna, vegna einkaskulda Björgólfs Thors sem hann var, að minnsta kosti að hluta, í persónulegri ábyrgð fyrir. Restin var vegna skulda sem Novator hafði stofnað til vegna fjárfestinga sinna.
Stærsta skuldin vegna Actavis-yfirtöku
Þorri þess fjár sem var undir rann til alþjóðlegu bankanna Deutsche Bank, Standard Bank, Barclays og Fortis. Um 100 milljarðar króna fóru til fallinna íslenskra fjármálastofnana. Stærsti hluti fjárins rann til Deutsche Bank, sem lánaði Novator alls 4,2 milljarða evra þegar það tók yfir Actavis sumarið 2007. Umreiknuð í íslenskar krónur á gengi dagsins í dag er sú upphæð um 651 milljarðar króna.
Bróðurpartur þeirrar upphæðar sem kröfuhafar Novator eru að endurheimta nú fékkst greiddur þegar samheitalyfjafyrirtækið Watson keypti Actavis á 4,25 milljónir evra vorið 2012. Deutsche Bank hafði í raun tekið yfir stærstan hluta Novator í Actavis fyrir þann tíma og var að selja þann hluta. Novator hélt hins vegar eftir tæplega fimm milljón hlutum í sameinuðu félagi, sem í dag er þriðja stærsta samheitalyfjafyrirtæki í heimi og skráð á hlutabréfamarkað í New York.
Síðan þá hefur minnihlutaeigandi yfirgefið eigendahóp Novators og hluti af eign félagsins í Actavis verið seldur til að standa straum af lögmannskostnaði og til að gera upp við starfsmenn. Í dag á Novator því um 4,3 milljónir hluta í Actavis.
Sú eign var endurfjármögnuð í janúar 2014 og var þá gert að mestu upp við alla kröfuhafa sem áttu aðild að skuldauppgjörinu. Ekki náðist að greiða ákveðnar skuldir við Landsbankann og ALMC, eignarhaldsfélag sem stofnað var utan um eignir Straums fjárfestingarbanka eftir að hann fór á hliðina. Þær skuldir voru gerðar upp í síðustu viku og þá var hægt að tilkynna um lok uppgjörsins.
Hin helsta eign félagsins er pólska fjarskiptafyrirtækið Play, en Novator á 49,5 prósent í því eftir að hafa keypt um 25 prósenta hlut af ALMC, sem áður hét Straumur, í febrúar. Auk þess á Novator stóran hlut í tölvuleikjafyrirtækinu CCP (29,83 prósent) og allt hlutafé í fjarskiptafyrirtækinu Nova auk þess að vera einn þriggja stærstu hluthafa í Verne Holdings, sem rekur gagnaver á Íslandi.
Þetta er aðeins hluti af umfjölluninni um uppgjör Björgólfs Thors. Lesa má alla umfjöllunina í Kjarnanum hér.