Í upphafi septembermánaðar kemur í ljós hvort það verður Rishi Sunak eða Liz Truss sem tekur við formennsku í breska Íhaldsflokknum af Boris Johnson og þá um leið embætti forsætisráðherra landsins.
Einungis brotabrot bresku þjóðarinnar getur haft einhver áhrif á það hvort þeirra flyst í Downing-stræti 10 og leiðir bresku ríkisstjórnina fram að næstu þingkosningum, eða þau rúmu 0,3 prósent landsmanna sem skráð eru í Íhaldsflokkinn.
Íhaldsflokkurinn gefur ekki upp hversu margir félagar eru, en talið er að á bilinu 160-200 þúsund manns séu á kjörskrá flokksins í formannsvalinu.
Allir sem höfðu verið meðlimir í flokknum í þrjá mánuði er boðað var til leiðtogakjörsins fá að greiða atkvæði og eru atkvæðaseðlar þegar byrjaðir að berast inn um bréfalúgur flokksfélaga.
Atkvæðum þarf að skila í síðasta lagi 2. september og úrslit eiga svo að liggja fyrir þann 5. september.
Eldri, ríkari og hvítari en Bretar almennt
En hverjir eru það sem eru í Íhaldsflokknum og fá að velja þann forsætisráðherra sem setið gæti í embætti allt til ársins 2025, er næstu þingkosningar eru áætlaðar?
Fræðimenn við Queen Mary-háskóla í London hafa á undanförnum árum unnið að því að kortleggja félagatal breskra stjórnmálaflokka í rannsóknum sínum.
Samkvæmt niðurstöðum þeirra, sem eru frá árinu 2020, voru þeir sem skráðir voru í Íhaldsflokkinn að meðaltali eldri, ríkari og hvítari en Bretar almennt, en hið sama á raunar við um skráða félaga í öðrum helstu stjórnmálaflokkum landsins, Verkamannaflokknum, Frjálslynda demókrataflokknum og Skoska þjóðarflokknum.
Meðalaldur félaga í Íhaldsflokknum var hæstur allra flokka og voru 58 prósent félaga 50 ára eða eldri og 39 prósent voru orðin 65 ára. Töluverður kynjahalli var einnig í félagatali Íhaldsflokksins, en 63 prósent félaga voru karlar.
Þá voru um 97 prósent félaga í Íhaldsflokknum hvít á hörund, sem er svipað hlutfall og í öðrum stjórnmálaflokkum landsins, en nokkuð á skjön við samfélagið almennt, en um 86 prósent íbúa í Bretlandi eru hvít.
Grasrót Íhaldsflokksins er síðan töluvert líklegri til þess að búa í höfuðborginni London eða annarsstaðar í suðurhluta landsins en landsmenn almennt, en 56 prósent flokksmanna búa á þeim slóðum.
Um 80 prósent flokksmanna tilheyra svo miðstéttum, en einungis um 20 prósent verkamannastétt, samkvæmt niðurstöðum frá rannsakendum við Queens Mary-háskólann. Heilt yfir teljast um 57 prósent Breta til miðstéttar, samkvæmt opinberum gögnum.
Almenningur almennt ekki að kalla eftir skattalækkunum
Mikið púður hefur farið í það í formannsslagnum að ræða um skattamál og hafa bæði Sunak og Truss sett fram þá sýn að þau vilji lækka skatta ef þau komist í stól forsætisráðherra. Truss, sem samkvæmt skoðanakönnunum er talsvert líklegri til að verða næsti formaður, hefur verið stórtækari í þeim efnum.
Skoðanakönnun sem var til umfjöllunar á síðum blaðsins Observer á dögunum sýnir þó að þrátt fyrir að formannsefnin tvö telji loforð um skattalækkanir vera líkleg til þess að höfða til þeirra sem hafa atkvæðisrétt í formannskjöri Íhaldsflokksins er síður en svo ákall um lægri álögur á meðal bresks almennings.
Um 22 prósent segja að rétt væri að lækka skatta og verja minna fé í opinbera þjónustu, á meðan að 26 prósent segja að auka ætti skattheimtu til þess að fjármagna opinbera þjónustu. Rúmur þriðjungur, eða 34 prósent svarenda, voru á því máli að skattheimta ætti að haldast óbreytt.