Baldur Guðmundsson og Einar Þór Sigurðsson, sem báðir hafa starfað um árabil hjá DV, hafa verið ráðnir fréttastjórar DV og DV.is. Þeir hafa gengt stöðum vaktstjóra undanfarin ár. Jóhann Hauksson, sem síðastliðið haust var ráðinn fréttastjóri DV í kjölfar þess að Hallgrímur Thorsteinsson tók við ritstjórn blaðsins, verður héðan í frá ritstjórnarfulltrúi. Hann tekur því við starfi Inga Freys Vilhjálmssonar sem sagði upp í byrjun vikunnar. Þá hefur blaðamaðurinn Haraldur Guðmundsson, sem starfaði áður á Fréttablaðinu, fært sig yfir á DV. Frá þessu er greint í DV í dag.
Þar segir einnig að ritstjórnarskrifstofur DV verði í dag fluttar úr Tryggvagötu, þar sem þær hafa verið frá því að blaðið var endurreist á nýrri kennitölu snemma árs 2010, og á 6. hæð í stóra turninni í Kringlunni, Þar eru fyrir ritstjórnarskrifstofur Pressunnar, sem rekur vefina Eyjan.is, Pressan.is og Bleikt.is.
Í desember tók hópur nýrra eigenda, undir forystu Björns Inga Hrafnssonar, yfir DV. Á meðal þeirra sem eru í hópnum með Birni Inga eru Sigurður G. Guðjónsson og Jón Óttar Ragnarsson. Þrír nýir ritstjórar voru ráðnir í kjölfarið, þau Eggert Skúlason, Kolbrún Bergþórsdóttir og Hörður Ægisson, sem verður viðskiptaritstjóri. Hallgrímur Thorsteinsson, sem hafði verið ritstjóri DV frá því í september var sagt upp því starfi og sagt að hann myndi þess í stað leiða stefnumótum á sviði talmálsútvarps á vegum Pressunnar. Síðar hefur komið fram að hann ætlar að vinna upp uppsagnarfrest sinn og síðan hætta að starfa fyrir félagið.
Á síðustu misserum hafa fjölmargir mjög áberandi starfsmenn sagt upp störfum hjá DV. Utan Inga Freys eru t.d. bæði Jóhann Páll Jóhannsson og Jón Bjarki Magnússon hættir. Þeir vöktu mikla athygli fyrir umfjöllun sína um lekamálið á síðustu tveimur árum.