Hagvöxtur var 0,3 prósent á evrusvæðinu og 0,4 prósent í Evrópusambandsríkjunum 28 á síðasta ársfjórðungi 2014, samkvæmt tölum Eurostat sem gefnar voru út í dag. Samanborið við sama ársfjórðung árið á undan hefur verg landsframleiðsla aukist um 0,9 prósent á evrusvæðinu og 1,3 prósent. Hagvöxtur allt árið 2014 var 0,9 prósent á evrusvæðinu og 1,4 prósent í ríkjum Evrópusambandsins.
Hagvaxtartölurnar eru betri en búist hafði verið við heilt yfir, en sem fyrr er mikill munur milli ríkja. Lægra olíuverð, veikara gengi evrunnar og umfangsmiklar örvandi aðgerðir Seðlabanka Evrópu, með stórtækum kaupum á ríkisskuldabréfum á evrusvæðinu, eru talin þrjú mikilvægustu atriðin í þessum tölum. Lækkandi olíuverð hefur aukið einkaneyslu á meðal veikara gengi evrunnar gagnvart Bandaríkjadal er gott fyrir útflytjendur. Búist er við því að aðgerðir seðlabankans muni hjálpa til við að halda lánavöxtum lágum.
Hagvöxturinn í Þýskalandi var mestur, þar sem hann mældist 0,7 prósent á síðasta ársfjórðungi 2014, og 1,6 prósent allt árið. Christian Schulz, hagfræðingur hjá Berenberg Bank, segir við BBC að þessir sömu þættir og hafa áhrif heilt yfir ættu að hjálpa þýska hagkerfinu á árinu. Búist sé við því að hagvöxtur verði kominn yfir tvö prósent um mitt næsta ár.
Annað ríki sem stendur upp úr er Spánn, þar sem vöxturinn var líka 0,7 prósent á síðasta ársfjórðungi. Í Frakklandi var vöxturinn aðeins 0,1 prósent á meðan Ítalía stóð í stað eftir samdrátt. Af þeim ríkjum sem eru á evrusvæðinu dróst hagkerfið saman í einungis þremur þeirra: Finnlandi, Kýpur og Grikklandi.
Jákvæð teikn á lofti?
Hagvaxtartölurnar þykja jákvæður endir á vikunni fyrir evrusvæðið. Tölurnar hafa haft jákvæð áhrif á hlutabréfamarkaði og margar helstu vísitölur hafa hækkað. Þá hafa vonir vaxið um að hægt verði að ná samkomulagi um áframhaldandi samstarf Grikklands við hin evruríkin. Í gær opnaði Angela Merkel Þýskalandskanslari í fyrsta sinn á þann möguleika að hægt væri að gera málamiðlanir í samkomulagi um endurgreiðslu á lánum Grikkja til ESB og AGS. Þá hefur verið mýkri tónn í ríkisstjórn Grikklands, og talsmaður hennar sagði í morgun að Grikkir myndu gera allt sem í þeirra valdi stæði til þess að samkomulag náist á næsta fundi evruhópsins á mánudag.
Þrátt fyrir þetta ríkir ekki bjartsýni hjá öllum um að samkomulag náist. Jean-Claude Juncker, framkvæmdastjóri framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, segir að Grikkir séu langt frá því að ná samkomulagi við ESB. Þá sagði Jeroen Dijsselbloem, forseti evruhópsins, að hann væri mjög svartsýnn á að hægt væri að komast að endanlegu samkomulagi um endurgreiðslur skulda á mánudag.