Nýjasta eintak franska skopmyndablaðsins Charlie Hebdo kom úr prentun í morgun og er nú til sölu víða um heim. Á forsíðunni er, eins og við var búist, skopmynd af Múhameð spámanni þar sem hann heldur á skilti með frasanum „Je suis Charlie" (Ég er Charlie). Fyrir ofan myndina stendur „Tout est pardonné" (allt er fyrirgefið).
Renald Luzier, skopmyndateiknarinn sem teiknaði forsíðuna, sést hér að neðan tárvotur útskýra hvernig hún varð til.
https://www.youtube.com/watch?v=ZrKN3HDBqKA
Blaðið er gefið út í þremur milljónum eintaka, en venjulegt upplag þess er 60 þúsund eintök. Það er einnig gefið út á sex tungumálum. Blöð voru prentuð á frönsku, ítölsku og tyrknesku auk þess sem útgáfur á ensku, spænsku og arabísku er að finna á netinu.
Nýtt myndband af Kouachi-bræðrunum
Hryðjuverkaárásirnar sem framdar í París í síðustu viku eru þær mannskæðustu sem hafa átt sér stað í Frakklandi frá árinu 1961, en þá stóð Alsírska stríðið yfir. Árásirnar hófust á miðvikudag, fyrir einni viku síðan, þegar ráðist var inn í höfuðstöðvar skopmyndaritsins Charlie Hebdo. Þar voru tveir lögreglumenn og tíu starfsmenn blaðsins myrtir. Árásarmennirnir voru tveir bræður, Said Kouachi og Cherif Kouachi. Þeir réðust sérstaklega á blaðið, og ákveðna starfsmenn þess, vegna teikninga sem það hafði birt af Múhammeð spámanni.
Charlie Hebdo var gefið út í þremur milljónum eintaka í dag og á sex tungumálum.
Á fimmtudag myrti Amedy Coulibaly, sem sagðist vera vitorðsmaður bræðranna, lögreglukonu í París.
Bræðurnir voru báðir drepnir í áhlaupi lögreglu síðdegis á föstudag. Þeir höfðu þá tekið gísl og héldust við í lítilli prentsmiðju rétt utan Parísar. Samtímis var ráðist inn í verslun í austurhluta Parísar, sem rekin er af gyðingum, þar sem önnur gíslataka var í gangi. Þar hafði Amedy Coulibaly tekið minnst sex gísla. Coulibaly hafði hótað að myrða gísla sína ef reynt yrði að handsama Kouachi bræður. Coulibaly var drepinn í áhlaupi lögreglu en hann hafði áður drepið fjóra gísla.
Í gærkvöldi birtu fjölmargar fréttastofur víða um heim nýtt myndband af Kouachi bræðrunum á meðan að á árásinni á Charlie Hebdo stóð.
https://www.youtube.com/watch?v=a7Kpex8O9QE