Hefur þú einhvern tíma keypt eftirlíkingu af úri, hálsbindi, handtösku, sólgleraugum eða einhverju öðru sem þú veist að er ekki ekta? Mjög margir geta ugglaust svarað þessari spurningu játandi og enn fleiri hafa kannski keypt eitthvað í þeirri trú að um ekta vöru sé að ræða. Eftirlíkinga „iðnaðurinn“ á sér langa sögu, einkum í Asíu. Undanfarið hafa danskir bankamenn margoft séð annars konar eftirlíkingar sem ferðalangar frá Asíu hafa reynt að koma í verð.
Starfsmaður í Jyske bank í miðborg Kaupmannahafnar sperrti eyrun og leit af tölvuskjánum þegar hann heyrði óvenjulegt hljóð, eins og hringl í peningum. Sá þá að lágvaxinn maður af asískum uppruna var að rogast inn í afgreiðsluna með, að því er virtist, þungan pokaskjatta á bakinu. Þeir sem slíka poka bera eru iðulega á ferðinni í desember, rauðklæddir og gráskeggjaðir. Þessi pokaberi var ekki þannig klæddur og auk þess var þetta í apríl.
Maðurinn með pokann gekk rakleitt að sérstakri vél sem tekur við og telur smámynt og byrjaði að tæma úr pokanum. Bankamanninum sýndist peningarnir allir vera danskir 10 krónu peningar og eftir að hafa ráðfært sig við yfirmann hringdi starfsmaðurinn í lögregluna sem var fljót á staðinn en beið átekta fyrir utan. Þegar maðurinn fór með kvittunina úr talningavélinni til gjaldkerans greip lögreglan inn í og handtók manninn. Starfsfólk bankans taldi strax að 10 krónu peningarnir úr pokanum, sem voru 3 þúsund talsins, væru „heimatilbúnir“ og þegar lögreglan leitaði á hótelherbergi sem pokamaðurinn (frá Suður-Kóreu) leigði kom í ljós að hann hafði skipt álíka mörgum peningum í nokkrum öðrum bönkum í Kaupmannahöfn án þess að vekja eftirtekt.
Danska 10 krónu myntin.
Ekki einsdæmi
Þessi saga er ekki einsdæmi. Á undanförnum mánuðum hefur danska lögreglan margoft haft hendur í hári manna sem komið hafa með mikið magn smámyntar, einkum 20 krónu peninga (20 danskar krónur eru rúmlega 400 íslenskar) en einnig smærri mynt, allt niður í 10 aura.
Langflestir þessara manna eru Kínverjar en einnig frá öðrum Asíulöndum og nokkrir Serbar hafa verið handteknir hér í Danmörku vegna sömu iðju. Fyrir nokkrum dögum var Kínverji dæmur í 18 mánaða fangelsi í Bæjarréttinum hér í Kaupmannahöfn, sá hafði komið í danska Seðlabankann (af öllum stöðum) og reynt að skipta þar 75 þúsund dönskum krónum í 20 krónu peningum í seðla.
Danska 20 króna myntin.
Skrautlegar skýringar
Þegar kemur að því að útskýra hvernig á því standi að viðkomandi hafi komist yfir þessa peninga skortir ekki skrautlegar skýringar, sumar í anda Munchausens baróns sem krítaði liðugt þegar hann sagði frá afrekum sínum. Einn sagðist bara hafa gengið fram á marga poka af smápeningum þegar hann var að fylla lungun lofti, eins og hann orðaði það. Annar sagði að vinur sinn keypti gömul bílhræ og úr sér gengnar þvottavélar frá Evrópu og það væri, að sögn vinarins, aldeilis með ólíkindum hvað leyndist í þessu gamla dóti sem Evrópubúar væru að losa sig við. Sá þriðji sagði að sig hefði dreymt tiltekinn stað og fyrir forvitni sakir fór hann þangað og viti menn: þar beið dönsk mynt í stórum haug. Danska lögreglan hefur samviskusamlega skráð allar þessar frásagnir, eins og vera ber. Einn af yfirmönnum lögreglunnar sagði að sumar þessara frásagna fengju örugglega inni í bókinni „Skemmtisögur úr starfi lögreglunnar“ ef sú bók yrði einhverntíma skrifuð.
Af hverju danskir peningar?
Danskir myntsérfræðingar og lögreglan hafa reynt að geta sér til um ástæður þess að asískir „myntframleiðendur“ beina kröftum sínum að danskri mynt. Sérfræðingarnir segja að dönsk mynt sé einfaldari í framleiðslu en t.d breska myntin, evrumyntin sé mjög flókin að gerð og því mikil kúnst að framleiða hana „í bílskúrnum.“ Að framleiða seðla er mjög flókið og slík framleiðsla dæmd til að mistakast að sögn sérfræðinga. Talsmaður lögreglu sagði í viðtali að asíumennirnir geri sér ekki grein fyrir smæð Danmerkur, hér frétti allir allt nánast samdægurs. Að maður hafi komið með falsaða peninga í banka á Skagen nyrst á Jótlandi fréttist strax um allt land.
Hvernig sést hvort mynt er fölsuð?
Lögreglan og sérfræðingar danska Seðlabankans vilja ekki segja í smáatriðum frá aðferðum til að greina hvort mynt sé fölsuð. Ein þeirra aðferða sem sérfræðingar nota er að leggja peningana í bleyti í sérstaka efnablöndu og enn fremur að slípa yfirborð peninganna. Þá sést hve mikill þrýstingur er notaður til að þrykkja (stansa) myntina, sem líka hefur áhrif á þyngd peninganna. Margar fleiri aðferðir eru líka notaðar til að ganga úr skugga um hvað sé ekta og hvað ekki.
Á annan tug asískra manna dúsa nú í grjótinu hér í Danmörku, sumir afplána dóma sem þeir hafa hlotið vegna tilrauna til myntsölu, aðrir bíða dóms vegna svipaðra mála.